Okkur finnst leiðin út úr landi ekki nógu örugg ­ segir Kristín Kjartansdóttir í bréfi, sem skrifað var í Kúvæt 3. september "AÐEINS nokkrar línur með nágranna sem er að fara. Af okkur er allt gott að frétta, nema að við vildum gjarnan fá gamalt lag á.

Okkur finnst leiðin út úr landi ekki nógu örugg ­ segir Kristín Kjartansdóttir í bréfi, sem skrifað var í Kúvæt 3. september "AÐEINS nokkrar línur með nágranna sem er að fara. Af okkur er allt gott að frétta, nema að við vildum gjarnan fá gamalt lag á. Við erum öll við góða heilsu, höfum nógan mat. Stjórnin gamla lét okkur hafa hrísgrjón, hveiti, þurrmjólk, feiti, baunir o.fl. án greiðslu. Í bili á ég um 100 kg af hrísgrjónum, 50 kg af heilhveiti og margt annað. Fólk hamstrar mikið."

Þetta er upphaf bréfs sem Kristín Kjartansdóttir í Kúvæt skrifaði móður sinni Valborgu Lárusdóttur og dagsett er 3. september sl. Kristín hefur sem kunnugt er verið búsett í landinu í 16 ár og býr þar með eiginmanni og fjórum börnum. Kristín heldur áfram í bréfinu:

"Birna og Gísli koma daglega. Þau hafa það líka gott, miðað við aðstæður. Hvað um okkur verður veit ég ekki í bili. Sameh ætlar að reyna að fá sem mest af peningunum, sem hann á hér í banka. Ástandið hjá okkur er ekki eins slæmt og fréttir segja.

Ég og börnin erum hér á háskólasvæðinu. Við förum ekki útaf svæðinu. Sameh sér um öll in kaup. Okkur finnst leiðin út úr landi ekki nógu örugg en við höfum heyrt að börn hafa látist við erfiðar ferðir. Ég treysti Selmu minni ekki í svona ferð. Auk þess er svo mikil umferð. Hvort Gísli fær að fara út er líka óljóst. Hann getur farið ferða sinna hér í landi. Flestir Skandinavar eru farnir en mennirnir fá ekki leyfi til að fara heim. Við munum reyna að senda ykkur fréttir um Þýskaland í gegnum PLO (landa Sameh). Ég bið ykkur að hafa samband þá við foreldra Gísla, eða móður Birnu, því það mundu vera fréttir af okkur öllum. Við höfum látið marga hafa heimilisfang ykkar fyrir bréf og bið ég ykkur að geyma þau fyrir okkur.

Ég vona að þessi þverhaus taki bráðum her sinn og fari heim. Það er búið að ræna öllu steini léttara héðan úr landinu. Sjúkrahúsin eiga varla sjúkrabíla. Verst er að allt er brotið og bramlað. Skrifstofa Sameh stóð á haus. Úr tilraunastofu hans er m.a. búið að stela mjög góðri myndavél, ísskáp, sjónvarpi, myndbandsvél o.fl.

Asíubúar (Indverjar, Pakist. Filipsbúar og aðrir) hafa stolið miklu, rænt húsbændur sína o.s.frv. Loftvarnasírenur voru teknar úr sambandi svo að stórar fjölsk". hér kæmust úr landi. Bandaríkin vöruðu þá víst við. Við áttum aldrei von á þessu öllu. Sameh-Vala á enn efni og saumar. Við Sameh erum að sortera. Bílar og ferðatöskur eru tibúin ef við þurfum að rjúka. Það er erfitt að þurfa e.t.v. að skilja margt af sínu eftir og vita ekki hvort maður fær það nokkur sinni.

Sameh og Gísli voru að koma. Þeir eru að byrja að ræna læknadeildina. Svo vorum við að frétta að búið er að ræna öllu á tilraunastofu ríkisins. Þeir eru að tæma landið!

Verð að slá botninn í þetta hrip, þar sem maðurinn er að fara. Vona að við heyrumst eða sjáumst áðuren langt um líður. Biðjum að heilsa öllum ættingjum og vinum.

Hjartans kveðjur frá okkur öllum, ávallt ykkar elskandi Kristín og fjölsk.