Opinber heimsókn forseta Íslands: Heimsóknin vekur mikla athygli fjölmiðla í Lúxemborg Lúxemborg, frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. Í gær lauk opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands, til Lúxemborgar.

Opinber heimsókn forseta Íslands: Heimsóknin vekur mikla athygli fjölmiðla í Lúxemborg Lúxemborg, frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. Í gær lauk opinberri heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands, til Lúxemborgar. Síðasta dag þessarar þriggja daga heimsóknar tók forseti á móti blaðamönnum í höll stórhertogans, skoðaði glerverksmiðju og snæddi hádegisverð í boði borgarstjórnar Lúxemborgar. Frá Lúxemborg hélt forseti síðdegis í gær til Gautaborgar þar sem hún verður viðstödd Íslandskynningu.

Heimsókn forseta Íslands vakti mikla athygli í Lúxemborg og alla daga heimsóknarinnar var efni henni tengt fyrirferðarmikið í fjölmiðlum. Auk íslenskra blaðamanna fylgdu rúmlega tíu blaðamenn frá Lúxemborg forseta á ferðum hennar. Á fundi forseta með blaðamönnum í gærmorgun var spurt mikið um samskipti landanna, samninga og formlegt samstarf á milli ríkjanna auk skógræktarátaks á Íslandi. Mest er ánægjan með heimsókn forsetans meðal Íslendinga sem búsettir eru í Lúxemborg. Eyjólfur Hauksson flugstjóri sem hefur verið búsettur í Lúxemborg í tuttugu ár sagði að líklega áttaði fólk á Íslandi sig ekki á því hversu mikla þýðingu heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur hefði fyrir Íslendinga byggðina þar. Íslendingar sem búsettir væru erlendis þyrftu á stuðningi að halda til að varðveita menningu sína og tungu. Vitneskja almennings í Lúxemborg um Ísland og Íslendinga hefði til þessa verið lítil en ljóst væri að á þessu hefði orðið mikil breyting undanfarin þrjú dægur. Kynni Lúxemborgara af forseta Íslands yrðu óyggjandi tilað auðvelda Íslendingum að vera Íslendingar í Lúxemborg. Ef til vill skipti heimsóknin mestu máli fyrir börnin en þau ávarpaði forseti sérstaklega í móttöku sem hún hélt Íslendingum. Þar hrósaði hún þeim fyrir einarða framkomu og hvatti þau til að standa vörð um íslenska tungu og menningu.