Samstaða um ráðninguna réð úrslitum ­ segir Þórður Skúlason nýráðinn framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga Hvammstanga. ÞÓRÐUR Skúlason, sveitarstjóri á Hvammstanga, var nú á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga.

Samstaða um ráðninguna réð úrslitum ­ segir Þórður Skúlason nýráðinn framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga Hvammstanga.

ÞÓRÐUR Skúlason, sveitarstjóri á Hvammstanga, var nú á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga. Þórður er Vestur-Húnvetningur og hefur alla tíð búið á Hvammstanga. Hann er fæddur 27. júlí 1943, sonur hjónanna Skúla Magnússonar vegaverkstjóra og Halldóru Þórðardóttur. Kona Þórðar er Elín Þormóðsdóttir frá Sauðadalsá og eiga þau þrjú börn.

Þórður hefur verið sveitarstjóri á Hvammstanga frá árinu 1973 og þótt farsæll í starfi. Einnig atkvæðamikill í samstarfi sveitarfélaga á Norðurlandi, í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga, þar af tvö ár sem formaður í stjórn sjúkrahúss Hvammstanga um árabil og einnig sem formaður þar, einnig í sýslunefnd V-Húna vatnssýslu og síðar Héraðsnefnd V-Hún.

Morgunblaðið ræddi við Þórð af þessu tilefni.

- Hvað getur þú sagt um tildrög ráðningar þinnar, nú varstu þú ekki í hópi þessara tuttugu umsækjenda.

Alvarlegur ágreiningur varð í stjórn Sambandsins um ráðningu framkvæmdastjóra, en 21 umsókn hafði borist. Mynduðust fylkingar um tvo umsækjendur, eins og þjóð veit. Meðal annars var deilt um rétt fulltrúa til stjórnarsetu. Þetta er mesti ágreiningur innan stjórnar sambandsins, sem ég veit til.

- En hvað réð úrslitum?

Já, það var farið að nefna nýja menn, þá meðal annars nafn mitt. Sú varð niðurstaðan, að um ráðningu mína náðist algjör samstaða, bæði í stjórn sambandsins og í Lánasjóði sveitarfélaga. Eftir er hins vegar að afgreiða málið í Bjargráðasjóði en þar verður afgreiðsla í næstu viku. Mikilvægasta þátt málsins tel ég vera hina skýlausu samstöðu og réð það úrslitum um að ég ákvað að taka að mér þetta starf.

- Hvað um hæfni þína til að takast á hendur slíkt starf?

Ég tel þessa ráðningu byggða á faglegum grunni, þar sem litið er til minna fyrri starfa að sveitarstjórnarmálum í 20 ár, á vettvangi sveitarstjórna í héraði, landshlutasamtökum og í stjórn Sambands Ísl. sveitafélaga. Ákvörðun um ráðningu þessa er tekin af mönnum sem þekkja til minna starfa. Ég veit að þessi niðurstaða er ekki valin til að fá lausn í erfiðri deilu, heldur til þess að fá ákjósanlega niðurstöðu fyrir sambandið.

- Þú hefur verið talinn málsvari sveitafélaga á landsbyggðinni. Mun það breytast við að taka við þessu starfi?

Nei, það ætla ég mér að reyna að vera áfram. En ég vona að sú reynsla sem ég hef sem landsbyggðarmaður muni nýtast mér í hinu nýja starfi við hagsmunagæslu fyrir öll sveitarfélög í landinu. Sveitarfélögin eiga mörg sameiginleg hagsmunamál, hvort þau eru smá eða stór. Einn liður í starfi sambandsins er að gæta hagsmuna gagnvart ríkisvaldinu. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis og þar er árlega samþykktur fjöldi laga sem snerta sveitarfélögin, stór og smá. Að auki er síðan gefinn út fjöldi reglugerða m.a. um málefni sveitarfélaganna. Öll þessi mál þarf Samband íslenskra sveitarfélaga að hafa yfirsýn yfir.

- Nú eru ólík vandamál í sveitarfélögum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt er það. Á höfuðborgarsvæðinu eru mörg vandamál tengd örri íbúafjölgun, eins og umhverfis- og samgöngumál, en á landsbyggðinni eru vandamálin helst tengd skertum framleiðslurétti, bæði til sjávar og sveita, þar tengjast atvinnumál og fjármál sveitarfélaga.

- Nú eru þetta miklar breytingar á þínum högum, þar sem þú hefur búið hér á Hvammstanga alla ævi.

Að því leyti blunda með mér blendnar tilfinningar. Ég mun sakna staðarins hér, þegar ég flyt suður. En fábreytni atvinnulífs á landsbyggðini er einn af ókostum við búsetu úti á landi og ein aðalorsök búferlaflutninga til höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar leggst vel í mig að takast á hendur þetta nýja starf og að vinna á nýjum starfsvettvangi.

Karl

Morgunblaðið/Karl Á. Sigurgeirsson

Þórður Skúlason.