Íþróttahöll vegna HM 1995 og skóli í Kópavogi: Kostnaður Kópavogsbæjar allt að 880 milljónum króna ­ segir Gunnar Birgisson formaður bæjarráðs Kópavogs GUNNAR Birgisson formaður bæjarráðs Kópavogs segir, að Kópavogsbær þurfi að greiða allt að 880...

Íþróttahöll vegna HM 1995 og skóli í Kópavogi: Kostnaður Kópavogsbæjar allt að 880 milljónum króna ­ segir Gunnar Birgisson formaður bæjarráðs Kópavogs

GUNNAR Birgisson formaður bæjarráðs Kópavogs segir, að Kópavogsbær þurfi að greiða allt að 880 milljónum króna fyrir væntanlega íþróttahöll vegna Heimsmeistarakeppninnar í handknattleik 1995, ásamt áföstu skólahúsi og öðrum tilheyrandi mannvirkjum. Hann kveðst draga þessa ályktun af endurskoðuðum áætlunum um stærð hússins og kostnað við að stækka það svo að þar rúmist sjö þúsund áhorfendur, en skýrsla um þá endurskoðun, unnin af Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar hf, var lögð fram í nefnd um íþróttahús í gær.

Gunnar segir að skýrslan sýni að stækkun íþróttahússins auki kostnað við það eitt og sér úr áður áætluðum 634 milljónum króna í um 720 milljónir. Áætlað er að skólahúsið kosti 190 milljónir, í stað 173 milljóna, flýting gatnagerðar kosti 70 milljónir, bílastæði 73 milljónir og að 84 milljónir kosti að breyta mannvirkjunum eftir heimsmeistarakeppnina. Samtals yrði því byggingarkostnaðurinn 1.137 milljónir króna. Fyrri áætlun gerði ráðfyrir 954 milljóna króna kostnaði. Mismunur þessara áætlana er því 183 milljónir.

Gunnar segir að eftir að gert sé ráð fyrir frádráttarliðum sem eru ríkisframlag, þar af 300 milljónir króna vegna íþróttahússins, og 85 milljónir króna frá UBK, sé kostnaðarhlutur Kópavogs af mann virkjagerðinni 650 til 760 milljónir króna, eftir því hvernig óvissuþættir eru reiknaðir.

"Þetta er hlutur Kópavogs fyrir íþróttahöllina og það er allt of dýrt. Það sem við gerum eftir þessa niðurstöðu, og er verið að gera, það er að leita að öðrum lausnum og ódýrari," segir Gunnar.

Hann segir ennfremur, að sé einnig reiknað með fjármagnskostnaði að upphæð 85,6 milljónir króna og gert ráð fyrir 10% óvissu í útreikningum, einkum vegna þessað eftir er að gera brunatæknilega hönnun sem haft getur aukinn kostnað í för með sér, og litið á það, að framlag UBK sé fyrst allt greitt úr bæjarsjóði Kópavogs til UBK á næstu árum, þá sé kostnaður sá, sem greiða þarf úr bæjarsjóði vegna mannvirkjanna, kominn í allt að 880 milljónum króna.

Gunnar segir að þessar niðurstöður sýni að samningurinn um 300 milljóna króna ríkisframlag sé mjög óhagstæður Kópavogi. "Það þarf því að gera þetta tvennt, að reyna að finna betri lausnir og fá endurskoðun á samningnum við ríkið."

Í fyrrnefndri skýrslu segir meðalannars: "Við teljum að áhorfendafjöldi sé verulega ofmetinn. Ef allir áhorfendur sitja á útdraganlegum bekkjum, sömu gerð og miðað er við í núverandi hugmynd, þá rúmi áhorfendasvæðin 5.866 manns." Þar segir ennfremur, að sé heiðursgestum, fréttamönnum og fötluðum ætlað meira rúm en öðrum, þurfiað skerða önnur rými um 250 vegna heiðursgesta, 240 vegna fréttamanna og 26 vegna hjólastóla. Að teknu tilliti til þessa mundi húsið því rúma 5.350 manns.

Gunnar segir engar fyrirætlanir vera um að hætta við byggingu hússins, staðið verði við gefin fyrirheit um að byggja það. Einnig sé verið að kanna notkunarmöguleika fyrir húsið eftir keppnina, þar á meðal hvort hægt verði að nota það sem tónlistarhús, ráðstefnuhöll, eingöngu íþróttahús eða samspil margra notagilda. Eftir því verði að fara þegar ákveðin verði til dæmis gerð sæta. "Þetta eru dæmi um hugmyndir sem við erum að vinna með. Ég held að við séum að fara núna leiðina sem átti að fara í upphafi," segir Gunnar Birgisson.

Líkan af íþrótta- og skólahúsi í Kópavogi.