Reagan hjó flís úr leifum Berlínarmúrsins A-Berlín. Reuter. RONALD Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hóf 11 daga Evrópuferð í gær með því að skoða leifar Berlínarmúrsins.

Reagan hjó flís úr leifum Berlínarmúrsins A-Berlín. Reuter.

RONALD Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hóf 11 daga Evrópuferð í gær með því að skoða leifar Berlínarmúrsins. Reagan létekki þar við sitja heldur tók sér hamar og meitil í hönd til að ná sér í minningargrip úr múrnum. "Þetta er stórkostlegt," sagði Reagan og bætti því við að enn betra yrði að sjá allan múrinn á brott. Leiðtoginn fyrrverandi flutti fræga ræðu við múrinn 1987 og hvatti þá Míkhaíl S. Gorbatsjov Sovétleiðtoga til að láta rífa hann og styðja þannig raunverulegt frelsi í verki. Reagan var þá víða gagnrýndur fyrir að ögra Sovétleiðtoganum en á síðasta ári hrundi múrinneftir fjöldamótmæli almennings í Austur-Þýskalandi og með þögulu samþykki Gorbatsjovs.

Reagan sagði í gær að ótrúleg umskipti ársins 1989 hefðu sýnt hve hvatning hans frá 1987 um einingu Evrópu hefði fallið í frjóan jarðveg. "Ég reyndi alltaf að gera allt sem í mínu valdi stóð til að dagur sem þessi rynni upp. Það veldur mér ómældri ánægju að lýðræðisbylting in skyldi verða í A-Evrópu og Þýskaland skuli sameinast. Þetta er dýrleg stund. En við getum ekki verið fyllilega hamingjusöm fyrr en allir jarðarbúar njóta sama frelsis og við," hrópaði Reagan frammi fyrir hundruðum fagnandi Berlínarbúa er safnast höfðu saman við gamla Ríkis þinghúsið. Jafnaðarmaðurinn Walter Momper, borgarstjóri V-Berlínar, þakkaði Reagan fyrir að "stuðla að slökuninni sem varð til þess að múrinn hrundi." Reagan og eiginkona hans, Nancy, heilsuðu einnig upp á þingforseta beggja þýsku ríkjanna. Hjónin gáfu eiginhandaráritanir og fengu ýmsar gjafir, þ.á m. gamlan, a-þýskan hermannahjálm.

Forsetahjónin fyrrverandi munu síðar hitta pólska verkamenn í skipasmíðastöð í Gdansk, þar sem Samstaða var stofnuð, og ætlunin er að Reagan ræði við Gorbatsjov í Moskvu.