STRÍÐSÁSTAND VIÐ PERSAFLÓA Bush boðar nýja alþjóðasamstöðu um réttarríki í heiminum Washington. Reuter.

STRÍÐSÁSTAND VIÐ PERSAFLÓA Bush boðar nýja alþjóðasamstöðu um réttarríki í heiminum Washington. Reuter.

ÍRAKAR munu ekki komast upp með að hernema Kúvæt og Saddam Hussein Íraksforseta mistekst ætlunarverk sitt, var boðskapur George Bush Bandaríkjaforseta í ávarpi er hann flutti báðum deildum Bandaríkjaþings aðfaranótt miðvikudags. "Þetta er ekki hótun eða digurmæli, þetta mun einfaldlega gerast," sagði forsetinn. Hann sagði að efnahagslegar refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gegn Írökum þyrftu að fá ráðrúm til að virka og hvatti Bandaríkjamenn til að styðja stefnu sína í Persaflóadeilunni.

"Við munum halda áfram að velta öllum mögulegum lausnum fyrir okkur í samráði við bandamenn okkar. En ég vil taka það skýrt fram að við munum ekki þola þessa árásarstefnu," sagði Bush. "Enginn skyldi draga í efa mátt okkar. Við munum styðja vini okkar. Með einum eða öðrum hætti verður leiðtogi Íraka að skilja þessar grundvallarstaðreyndir." Forsetinn sagði deiluna hafa orðið til þess að ný samstaða hefði myndast á alþjóðavettvangi milli þjóða er vildu heim þar sem lög ríktu, réttarríki, en ekki aðeins réttur hins sterka. Hann sagði leiðtogafund risaveldanna í Helsinki um síðustu helgi hafa verið mjög árangursríkan og þaðan hefðu verið send einörð skilaboð til Saddams Íraksforseta. "Ljóst er að nú getur enginn einræðisherra notfært sér deilur austurs og vesturs til að verjast aðgerðum SÞ gegn árásaraðilum. Nýtt samfélag þjóðanna hefur litið dagsins ljós. . . . Sameiginleg yfirlýsing okkar í Helsinki staðfesti frammi fyrir heimsbyggðinni þann ásetning okkar beggja að stöðva ógnun Íraka við heimsfriðinn." Bush sagði að atburðir síðustu vikna hefðu sýnt og sannað að Bandaríkjamenn einir gætu tekið forystuna á alþjóðavettvangi þegar á þyrfti að halda. Hann sagði jafnframt að SÞ hefðu nú byrjað að taka að sér það hlutverk sem stofnendur samtakanna hefðu haft íhuga, létu gjörðir fylgja orðum. Hann sagði Bandaríkin verða að aðstoða ríki við Persaflóa við varnir þeirra um langa framtíð. Stöðva yrði útbreiðslu efnavopna, sýklavopna, langdrægra eldflauga og þekkingar á gerð kjarnavopna. Forsetinn hvatti þingmenn til að setja lög sem stuðluðu að innlendri orkuframleiðslu og orkusparnaði tilað landið yrði síður háð olíuinnflutningi.

Góður rómur var gerður að ræðu forsetans og varð hann að gera hlé á máli sínu nær 30 sinnum. Skoðanakannanir sýna að stefna hans nýtur fylgis þorra kjósenda og lýstu þingleiðtogar demókrata stuðningi við hana í gær. Þeir gagnrýndu volduga bandamenn eins og Japana fyrir að leggja ekki nóg af mörkum til að stöðva árásarstefnu Saddams. Sendiherrar Íraks, SaudiArabíu og Kúvæts voru viðstaddir ásamt fulltrúum annarra ríkja er Bush flutti tölu sína.