Sovéskt rannsóknarskip í leyfisleysi í efnahagslögsögunni: Sendiherra beðinn um skýringar SOVÉSKI sendiherrann á Íslandi var í gær kallaður í utanríkisráðuneytið og var þar beðinn að afla skýringa á ferðum rannsóknarskips í eigu sovéska flotans, sem...

Sovéskt rannsóknarskip í leyfisleysi í efnahagslögsögunni: Sendiherra beðinn um skýringar

SOVÉSKI sendiherrann á Íslandi var í gær kallaður í utanríkisráðuneytið og var þar beðinn að afla skýringa á ferðum rannsóknarskips í eigu sovéska flotans, sem greint var frá í Morgunblaðinu á þriðjudag að hefði verið hér við land frá 31. ágúst síðastliðnum án leyfis íslenskra stjórnvalda.

Að sögn Sveins Björnssonar skrifstofustjóra utanríkisráðuneytsins var ekki á þessu stigi borin fram kvörtun vegna ferða skipsins, aðeins beðið um skýringar og upplýsingar um hvort skipið væri hér að rannsóknum. Um sé að ræða rannsóknarskip sem ótvírætt sé að þurfi leyfi íslenskra stjórnvalda til að stunda rannsóknir innan íslenskrar efnahagslögsögu. Hann kvaðst vænta þess að skýringar Sovétmanna bærust fljótlega.

Síðast varð vart við ferðir skips þessa hér við land síðastliðinn laugardag þegar það var statt um 90 austur af Stokksnesi og skaut upp rauðum flugeld til að vekja athygli togarans Kolbeinseyjar áað hann skyldi halda sig fjarri þarsem stjórnhæfni skipsins væri takmörkuð. Þau siglingarmerki hefur skipið haft uppi í þau þrjú skipti sem sést hefur til þess í lögsögunni og hefur því þá ávallt verið siglt á mjög hægri ferð.