Svíar og Íslendingar bítast um hlutabréf í Ísaga SÆNSKA efnaiðnaðarfyrirtækið AGA hefur fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækisins Kaupþings gert tilboð í öll tiltæk hlutabréf í fyrirtækinu Ísaga hf. sem er ráðandi á markaði hér með súrefni og gas fyrir...

Svíar og Íslendingar bítast um hlutabréf í Ísaga

SÆNSKA efnaiðnaðarfyrirtækið AGA hefur fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækisins Kaupþings gert tilboð í öll tiltæk hlutabréf í fyrirtækinu Ísaga hf. sem er ráðandi á markaði hér með súrefni og gas fyrir sjúkrahús og iðnaðinn. Viðbrögðin hér innanlands hafa orðið þau að fjárfestingafélagið Draupnissjóðurinn hefur fyrir milligöngu Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka gert hluthöfum í Ísaga hf. samskonar tilboð.

Ísaga hf. er fyrirtæki með yfir 300 milljóna króna veltu á ári, góðan hagnað og trausta fjárhagsstöðu, og var það upphaflega stofnað af Íslendingum og AGA snemma á öldinni. Sænska fyrirtækið missti þó eignarhlut sinn fyrir allmörgum áratugum og er fyrirtækið alfarið í eigu um 30 íslenskra hluthafa. Á aðalfundi fyrr í sumar var samþykkt að aflétta öllum hömlum á viðskipti með hlutabréf og fljótlega á eftir seldi stærsti hluthafinn í Ísaga Kaupþingi um 20% hlut sinn í fyrirtækinu. Kaupþing seldi AGA í Svíþjóð þennan hlut og hefur nú tekið að sér að hafa milligöngu um að útvega AGA öll þau hlutabréf önnur í Ísaga sem í boði eru.

Tilboð AGA til Kaupþings hljóðar upp á 3,67-falt nafnverð, en tilboð VÍB fyrir hönd Draupnissjóðsins upp á 3,65. Fyrir Draupnissjóðnum mun einkum vaka að tryggja áframhaldandi sterka íslenska eignaraðild í Ísaga vegna ráðandi stöðu fyrirtækisins hér á markaðinum. Flestir hluthafanna munu nú hafa tilboð beggja aðila til athugunar, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur þó AGA nánast tryggt sér þriðjung hlutafjár í Ísaga nú þegar. Lögum samkvæmt má AGA eignast allt að 49% í hlutafélaginu en fordæmi hér á landi eru næg til að auðvelt á að vera fyrir sænska fyrirtækið að fá undanþágu til að eignast fyrirtækið að fullu.

Sjá nánar í viðskiptablaði B3.