Fargjöld Flugleiða hækka um 4,85%-7% FLUGLEIÐIR hafa nú lagt fram beiðni sína til samgönguráðuneytisins um hækkun flugfargjalda. Ástæðuna segir félagið tæplega 70% hækkun á verði eldsneytis frá í júlí.

Fargjöld Flugleiða hækka um 4,85%-7%

FLUGLEIÐIR hafa nú lagt fram beiðni sína til samgönguráðuneytisins um hækkun flugfargjalda. Ástæðuna segir félagið tæplega 70% hækkun á verði eldsneytis frá í júlí. Farið er fram á að fargjöld hækki um 4,85% í flugi frá landinu og um 5% í flugi til landsins. Í Norður-Atlantshafsflugi milli Ameríku og Evrópu fer félagið fram á 7% hækkun, en telur sig geta búið við 4,85% hækkun í N-Atlantshafsflugi frá Íslandi.

Í frétt frá Flugleiðum segir að reynt hafi verið að stilla hækkunum í hóf vegna þjóðarsáttarinnar. Það sé hins vegar ljóst að ekkert flugfélag í heiminum geti tekið á sig 70% hækkun á einum stærsta kostnaðarliðnum án þess að komi fram í farmiðaverði.

Lækkun á gengi Bandaríkjadals hefur komið félaginu til góða, þarsem fjármagns- og viðhaldskostnaður þess, í íslenzkum krónum talinn, hefur lækkað. Forráðamenn félagsins meta það svo að 7,2%-7,4% hækkun á öllum leiðum hefði þurft, hefðu gengisbreytingar ekki komið til. Þá segir í tilkynningu Flugleiða að félagið njóti sparneytni nýja flugflotans. Með nýju flugvélunum sé eldsneytiskostnaður um 10,2-10,8% af rekstrarkostnaði, en með þeim gömlu 14-18%.

Svo dæmi séu nefnd um fargjöld eftir hækkun, mun kosta 26.240 krónur að fljúga til Lúxemborgar og heim aftur á helgarpexfargjaldi, en það er nú 25.020 kr. Fullt fargjald (Saga-farrými) á sömu flugleið hækkar úr 69.960 kr. í 73.360 kr. Flug til og frá New York á super apex-fargjaldi hækkar úr 47.380 kr. í 49.680 kr. Veiti samgönguráðuneytið heimild fyrir hækkuninni tekur hún gildi 1. október.