Fjármál Landsbankinn og SH semja um greiðsluflýtingarlán Tryggir framleiðendum greiðslu tveimur vikum eftir útskipunardag LANDSBANKI Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafa gert samkomulag um greiðsluflýtingarlán vegna uppgjörs við framleiðendur.

Fjármál Landsbankinn og SH semja um greiðsluflýtingarlán Tryggir framleiðendum greiðslu tveimur vikum eftir útskipunardag

LANDSBANKI Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafa gert samkomulag um greiðsluflýtingarlán vegna uppgjörs við framleiðendur. Landsbankinn hefur hingað til veitt slík lán í einstökumtilvikum en eftirleiðis verður það gert reglulega. Samningurinn tryggir að Sölumiðstöðin getur gert upp við sína framleiðendur tveimur vikum frá útskipunardegi. Á greiðsludegi er afurðalán viðkomandi framleiðanda greitt upp og Sölumiðstöðin fær í staðinn með lán frá Landsbankanum þar til hinn erlendi kaupandi hefur greitt vöruna. Landsbankinn mun útvega erlend lán í þeim myntum sem óskað er eftir hverju sinni.

Bjarni Lúðvíksson, framkvæmdastjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna segir að með samningnum verði unnt að tryggja framleiðendum greiðslu á ákveðnum tíma eftir afskipun. "Það verður ákveðinn gjalddagi á hverri sendingu en fram að þessu hafa menn orðið að bíða eftir því að erlendir viðskiptavinir sendu greiðslu," segir hann. "Framleiðendur geta eftirleiðis skipulagt fjármál sín betur fram í tímann og með þeim hætti losnað við dráttarvexti. Við leituðum til Landsbankans með að tryggja okkur að við gætum gefið framleiðendum ákveðinn gjalddaga óháð því hvort peningarnir hefðu borist að utan. Við munum þurfa að greiða fyrir það vexti en á móti kemur að hægt verður að gera betri áætlanir. Við erum mjög ánægðir með það að Landsbankinn gat boðið samkeppnishæf kjör."

Bjarni segir að fyrirtæki Sölumiðstöðvarinnar erlendis séu með sambærileg bankaviðskipti og það hafi komið til greina að leita til erlendra banka. Það hafi hins veg arákveðinn kost að geta leitað til Landsbankans auk þess sem hann hafi verið fyllilega samkeppnisfær.

Morgunblaðið/Þorkell

GREIÐSLUFL?TINGARLÁN - Samningur um greiðsluflýtingarlán Landsbanka til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna var undirritaður sl. mánudag. Á myndinni eru frá vinstri Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbankans, Friðrik Pálsson forstjóri Sölumiðstöðvarinnar og Bjarni Lúðvíksson, framkvæmdastjóri.