Hlutabréfamarkaður Útgerðarfyrirtæki birta hálfsársuppgjör Grandi, Skagstrendingur og Útgerðarfélag Akureyringa hafa birt upplýsingar um afkomu fyrstu sex mánuði ársins FJÁRFESTINGARFÉLAG Íslands hefur gefið út nokkur kynningarrit með upplýsingum um...

Hlutabréfamarkaður Útgerðarfyrirtæki birta hálfsársuppgjör Grandi, Skagstrendingur og Útgerðarfélag Akureyringa hafa birt upplýsingar um afkomu fyrstu sex mánuði ársins

FJÁRFESTINGARFÉLAG Íslands hefur gefið út nokkur kynningarrit með upplýsingum um rekstur félaga sem hafa hlotið skráningu á hlutabréfamarkaði. Í ritunum er fjallað um rekstur fyrirtækjanna á síðastliðnum tveimur árum ári og horfur í rekstri. Meðal þeirra fyrirtækja sem fjallað er um í þeim ritum sem nú eru að koma út eru þrjú útgerðarfyrirtæki þ.e. Skagstrendingur, Grandi og Útgerðarfélag Akureyringa.

Afkoman af reglulegri starfsemi Skagstrendings varð neikvæð fyrstu sex mánuði ársins um 8,2 milljónir króna. Þegar tekið hefur verið tillit til söluhagnaðar eigna sem nam 14,6 milljónum og fjármagnsliða nettó sem námu 15,7 milljónum er hagnaður félagsins 22 milljónir. Rekstrartekjur fyrstu sex mánuðina voru 331,2 milljónir og rekstrargjöld 339,5 milljónir. Eigiðfé var í lok júní 573,8 milljónir og eiginfjárhlutfall 58%. Aflakvóti félagsins var í byrjun ársins 1990 6.790 tonn og keyptur kvóti nam 303 tonnum fyrstu sex mánuðina. Í lok júní höfðu bæði skip félagsins aflað 3.175 tonna og er það rétt tæplega helmingur kvótans. Í umfjöllun Fjárfestingarfélagsins kemur fram að verð á frystum afurðum hefur verið hátt það sem af er árinu. Verulegur hluti afurða Skagstrendings er seldur til Bretlands og hefur hækkun á gengi sterlingspunds það sem af er árinu hefur verið fyrirtækinu hagstæð.

Milliuppgjör Útgerðarfélags Akureyringa sýnir að fyrirtækið skilaði 113 milljóna hagnaði fyrir skatta fyrstu sex mánuði ársins en gert er ráð fyrir 128 milljóna hagnaði fyrir skatta í rektraráætlun ársins.

Eins og áður hefur komið fram varð hagnaður Granda 77 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður af reglulegri starfsemi varð 3,6 milljónir. Reglulegar tekjur félagsins voru 926,7 milljónir króna sem er um 15% aukning frá sama tíma í fyrra. Rekstrargjöld félagsins voru 755,5 milljónir og jukust þau um 21%. Í lok júní var eigið fé 1.031,8 milljónir sem er 39% af heildarfjármagni félagsins. Áætlað er að velta fyrirtækisins verði um 3 milljarðar króna eftir sameiningu við Hraðfrystistöðvarinnar. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir hagnaði á árinu og er ekkert sem bendir til annars en sú áætlun standist.

Friðrik Jóhannsson, forstjóri Fjárfestingarfélagsins, sagði við Morgunblaðið að æskilegt væri að fjárfestar reyndu að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfestu í, en með einblöðungum frá félaginu gæfist kostur á nýjum upplýsingum á samþjöppuðu formi. Hann sagði að hlutabréf væru í eðli sínu áhættusöm fjárfesting og ávöxtun sveiflaðis meira en á öðrum tegundum verðbréfa. Með því að fylgjast með því helsta sem væri að gerast gætu fjárfestar myndað sér sjálfstæða skoðun á hvort hagkvæmt væri að kaupa eða selja.