Jarþrúður S. Guðmundsdóttir frá Flateyri ­ Minning Þann 16. júlí síðastliðinn andaðist tengdamóðir mín Jarþrúður Sigurrós Guðmundsdóttir eftir langvarandi veikindi. Þrúða eins og húnvar ávallt kölluð fæddist á Flateyri 24. ágúst 1913. Foreldrar hennar voru Fríða Bjarnadóttir og Guðmundur Hjálmarsson frá Mosvöll um í Önundarfirði. Sem ungbarn var hún tekin í fóstur af ömmu sinni Guðbjörgu Björnsdóttur á Mosvöll um og þar ólst hún upp til fullorðinsára. Minningarnar um uppvaxtarárin á Mosvöllum voru Þrúðu mjög kærar og minntist hún ávallt Guðbjargar ömmu sinnar með virðingu og þökk. Systkini Þrúðu voru fimm, en nú eru aðeins tvö þeirra á lífi, Kjartan sem býr á Akureyri og Guðbjörg sem býr á Húsavík. Mjög kært var með þeim systkinum öllum svo og uppeldissysturinni Gróu Björnsdóttur sem býr á Flateyri.

27. september 1935 gekk Þrúða í hjónaband með eftirlifandi manni sínum Jóni S. Jónssyni ættuðum úr Súgandafirði. Settust þau að á Flateyri og þar var þeirra starfsvettvangur þangað til fyrir fáum árum að þau fluttust til Reykjavíkur en þá var heilsa Þrúðu tekin að bila.

Þau hjón eignuðust tíu börn, eittþeirra dó í frumbernsku en hin níu lifa móður sína. Þau eru Hjálmar, Svandís, Valborg, Salóme, Guðrún, Birna, Magnfríður, Ólafur og Björn. Það vefst eflaust fyrir ungu fólki í dag hvernig hægt var að koma öllum þessum börnum til manns, án allra þeirra þæginda sem fylgja nútíma lífi. En þau hjón voru með afbrigðum samhent og með mikilli eljusemi og dugnaði var grunnurinn lagður að framtíð barnanna.

Þrúða var kona mjög jákvæð, hún sá alltaf það góða í fari náungans, tók alltaf málstað þeirra sem á var hallað, hún var glaðsinna og brosmild og hefur þessi létta lund ábyggilega auðveldað henni lífsbaráttuna. Þrúða hafði góða söngrödd og var unnandi góðrar tónlistar og í eðli sínu var tengdamamma mikill fagurkeri. Kynni mín af þessari góðu konu hófust fyrir röskum þrjátíu árum er ég gekk að eiga Guðrúnu dóttur þeirra, það fylgdi því viss kvíði þegar ég skyldi í fyrsta sinn hitta væntanlega tengdaforeldra, en sá kvíði varð að engu við hinu góðu móttökur semég fékk, og ég tel það lán mitt í lífinu að hafa kynnst þessum góðu hjónum og er þakklátur þeim góða leiðsögn í gegnum árin.

Útaf þeim hjónum er kominn stór ættleggur því barnabörnin eru 26, barnabarnabörn eru 40 og eitt langalangömmubarn. Það var hreint til fyrirmyndar hvað þau létu sér velferð þessa stóra hóps varða. Strax á haustdögum var farið að huga að og kaupa jólagjafir handa öllum hópnum því alla skyldi gleðja. Það var líka alveg með ólíkindum að Þrúða skyldi muna afmælisdaga alls þessa stóra hóps. Ég minnist þess fyrir tveim árum þegar Þrúða hélt upp á sjötíu og fimm ára af mælið sitt hvað hún var glöð og ánægð innan um stóra hópinn sinn, þó vissulega gætu ekki allir verið viðstaddir þá var hugurinn hjá þeim. Þegar þau hjón fluttust tilReykjavíkur bjuggu þau stuttan tíma í Breiðholti en fluttu síðan að Bauganesi 38. Þar dvöldu þau þartil í apríl á þessu ári en þá fóru þau á Hrafnistu í Reykjavík og fengu hjónaíbúð í Jökulgrunni. Ekki auðnaðist tengdamömmu að dveljast lengi þar því þá var heilsu hennar tekið að hraka, að hún varð að leggjast inn á Landspítalann og síðan á sjúkradeild á Hrafnistu þarsem hún andaðist eins og fyrr segir að kvöldi 16. júlí síðastliðinn. Það var aðdáunarvert að sjá hversu vel tengdapabbi hugsaði um hana allt til hinstu stundar, og er söknuður hans mikill, en minningarnar um hartnær 55 ára hjónaband verða honum styrkur í sorginni. Að leiðarlokum vil ég þakka tengdamóður minni góða leiðsögn í gegnum lífið. Tengdaföður mínum, börnum þeirra hjóna svo og öllum ættingjum votta ég mína dýpstu samúð.

Kristinn Þórhallsson