Kjartan Gissurarson Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Einir fara og aðrir koma í dag, því alltaf bætast nýir hópar í skörðin. Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá, en þó eru margir, sem ferðalaginu kvíða.

Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,

en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

Nú er hann Kjartan farinn í þá ferð sem allir hljóta að fara fyrr eða síðar, hvort sem þeim líkar betur eða verr. En alltaf er jafn erfitt að sættasig við það þegar góðir vinir hverfa yfir landamærin, þó komnir séu á efri ár. Hann Kjartan var ekki bitur þó hann vissi fullvel að hverjustefndi, fannst það ekkert meira þó hann fengi þennan illkynja sjúkdóm en aðrir sem yrðu að lúta í lægra haldi fyrir honum. Húmorinn var sá sami, hann fylgdist af lífi og sál með íþróttunum í útvarpi og sjónvarpi allt fram í andlátið. Hann kvartaði aldrei og ekki hef ég fyrr orðið vitni að öðru eins æðruleysi og þvílíkum sálarstyrk sem hann sýndi til hinstu stundar og með hve mikilli reisn hann kvaddi þetta líf.

Kjartan var fæddur í Byggðarhorni í Flóa þann 30. nóvember 1914, sonur hjónanna Ingibjargar Sigurðardóttur og Gissurar Gissurarsonar. Hann var þriðji yngstur af 16 systkinum en nú eru aðeins 8 á lífi og einn fósturbróðir. Ég kynntist Ingibjörgu lítilsháttar, hún var þá komin á efri ár en enga konu hef ég séð fallegri en hana á þeim aldri. Skammt er stórra högga á milli í þessum systkinahóp, því Óskar og Kjartan létust með aðeins fjögurra daga millibili.

Kjartan fór ungur að vinna fyrirsér enda þekktist ekki annað í þá daga en hann langaði til að læra og fór í Reykholtsskóla og var þar einn vetur. Fimmtíu ára nemendur þaðan hittust síðastliðið haust og var Kjartan einn þeirra.

Framan af ævi stundaði hann sjóinn, var á smærri og stærri skipum og skömmu fyrir stríð réð hann sigá danskt skip og lokaðist inni í Danmörku öll stríðsárin. Ekki hætti Kjartan á sjónum þó kominn væritil Danmerkur og stríðið í algleymingi og komst þá oft í hann krappan eins og nærri má geta.

Eftir stríð kom hann heim með konu sína og dóttur og var þá á togurum eða þar til hann fór að vinna í fiskbúð hjá Hafliða Baldvinssyni en stuttu seinna opnaði hann sína eigin fiskbúð, Saltfiskbúðina á Frakkastígnum. Árið 1960 keypti hann verslunarhúsnæði í Álfheimum 2 og rak þar fiskbúð þar til fyrir sex árum að hann settist í helgan stein að mestu.

Það er orðið langt síðan leiðir okkar Kjartans lágu fyrst saman, um það bil þrjátíu og sex ár, hann varþá nýbyrjaður í fisksölubransanum og bóndi minn fór út í slíkt hið sama skömmu síðar. Hann leitað þá stundum ráða hjá kollega sínum sem orðinn var forframaðri í starfinu. Þá var meira fyrir því haft að fá fisk í búðirnar en nú, að vetrinum var farið suður með sjó og beðið eftir að bátarnir kæmu að landi, oft seint á kvöldin og ekki komið í bæinn fyrren komin var miðnótt.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þetta var og margt hefur breyst með tilkomu fiskmarkaðanna.

Margar ferðir fórum við með þeim hjónum til Danmerkur og er mér sérstaklega minnisstæð ferðin þegar þau buðu okkur með sér til Vejle á æskustöðvar Karenar. Þangað var gott að koma og þar var Kjartan eins og kóngur í ríki sínu, enda heimavanur þar, þangað sótti hann brúði sína, Karen fædda Sloth, og þar giftu þau sig 27. maí 1944. Það duldist mér ekki hvað tengdafaðir hans var ánægður með þennan íslenska tengdason, hann Kjartan, og hvað tengdafólkið hans allt mat hann mikils og var það gagnkvæmt. Ég veit líka að fólkið hennar Karenar í Vejle er með hugann hjá henniog börnunum hennar þessa dagana og sakna nú vinar í stað.

Margar stundirnar höfum við átt með þeim Karenu og Kjartani og af þeim hefði ég ekki viljað missa, og nú þegar Kjartan er allur sé ég eftirað hafa ekki notað tímann betur meðan hans naut við. Kjartan var hrókur alls fagnaðar í góðra vinahópi og hvergi hef ég verið oftar í mannfagnaði við ýmis tækifæri en á hans heimili og þá var oft í koti kátt, spilað á píanó og mikið sungið því systkinin frá Byggðarhorni eru mikið söngfólk. Nú hefur stórt skarð verið höggvið í þennan glaðværa hóp sem ekki verður fyllt. Síðastliðið haust hélt Kjartan upp á sjötíu og fimm ára afmælið sitt með miklum myndarbrag, sendi gestunum boðskort með skrípamynd af sjálfum sér þar sem fiskkösin nær honum uppfyrir höfuð, það var honum líkt. Kjartan var sérlega geðgóður maður, tryggur vinur vina sinna og svo umtalsfrómur að ég minnist þessekki að hann hafi hallmælt nokkrum manni í mín eyru og mætti margur taka það sér til fyrirmyndar.

Að mínu mati var Kjartan mikill gæfumaður, hann var heilsugóður fram undir það síðasta, átti einstaklega góða konu sem stóð alla tíð sem klettur við hlið hans og átti miklu barnaláni að fagna og ég dáist oft að samheldni þessarar fjölskyldu og hef ég óvíða séð annað eins.

Börn Kjartans og Karenar urðu átta en tvö létust í frumbernsku. Þau sem upp komust eru; Inga f. 27.12. 1945, fyrrv. deildarstjóri í Landsbanka Íslands, Gunnar f. 6.3. 1948, viðskiptafræðingur, Anna f. 12.7. 1954, húsmóðir á Selfossi, Erla f. 6.6. 1956, skrifstofustúlka hjá Ostaog smjörsölunni, Sonja f. 5.8. 1964, gjaldkeri hjá Tryggingu hf., Kristján f. 5.8. 1964, fiskiðnaðarmaður hjá Lifrasamlagi Vestmannaeyja. Öll hafa þau komist vel áfram í lífinu og eru foreldrum sínum til mikilssóma.

Börnin mín vilja færa Kjartani hjartans þakkir fyrir allt, hann varí miklu uppáhaldi hjá þeim frá því þau voru smábörn.

Að hryggjast og gleðjast hér um vora daga, heilsast og kveðjast það er lífsins saga. Það er komið að leiðarlokum. Ég og fjölskylda mín kveðjum kæran vin og þökkum honum fyrir allt og allt. Ég veit að Kjartan mun engu þurfa að kvíða í þeim heimi þar sem hann dvelur nú, þar munum við aftur hittast hress og kát. Elsku Karen mín, ég votta þér, börnunum þínum, og öllum öðrum ástvinum Kjartans mína innilegustu hluttekningu.

Guðrún Elísabet Vormsdóttir