Kjartan Gissurarson fisksali ­ Minning Fæddur 30. nóvember 1914 Dáinn 5. september 1990 Ákveðnum atburðum í lífi hverrar manneskju minnist hún alla ævi einsog þessir atburðir hefðu gerst í gær. Fæðing barna og aðrir ánægjulegir atburðir eru að sjálfsögðu ofar í huga þegar litið er til baka.

Flestir minnast þeirrar stundar þegar þeir voru fyrst kynntir fyrir nýrri fjölskyldu þegar þeir bundust maka úr þeirri fjölskyldu. Móttökur eru oft blendnar og makaval barnanna skoðað og skeggrætt frá öllum hliðum.

Við sem tengdumst fjölskyldu Kjartans minnumst fyrstu kynna fyrst og fremst vegna þess að við urðum strax frá fyrsta degi, hvert og eitt okkar, einn af fjölskyldumeðli munum. Áhugi Kjartans á störfum og lífsafkomu fjölskyldna okkar var mikill en laus við öll afskipti að fyrrabragði. Ef leitað var til Kjartans var hann boðinn og búinn til aðstoðar en gjarnan fylgdu ráð undir rós eða ábendingar í gátum eins og honumvar gjarnt að tala. Hvað sem viðtókum okkur fyrir hendur hvatti hann okkur áfram og fylgdist náið með framvindunni.

Kjartan fæddist á Byggðarhorni í Flóa og fór ungur til sjós og kom víða við á ferðum sínum. Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar festi hann ráð sitt í Danmörku og kvæntist tengdamóður okkar, Karen Gissurarson, sem fædd er í Danmörku. Heim komu þau að stríði loknu og Kjartan hóf rekstur Saltfiskbúðarinnar í Reykjavík. Kjartan var ekki einn af þeim sem lauk viðskiptum við viðskiptavininn með því að loka af greiðslukassanum. Spjall um daginn og veginn, hnyttin tilsvör og glaðværð fengu viðskiptavinirnir í kaupbæti.

Hjónaband Kjartans og Karenar var farsælt. Aldrei skipti hann skapi eða gerði upp á milli manna og danska glaðværð tengdamóður okkar treysti enn betur hjónabandið. Kímnigáfa Kjartans var einstök og stundum kaldhæðnisleg en særði engan.

Fram til síðustu stundar fylgdist hann vel með öllu sem gerðist í þjóðfélaginu og þá sérstaklega íþróttum sem hann fylgdist með af áhuga. Sérstakan áhuga hafði hann á bridsíþróttinni og tók gjarnan í spil til að "kenna" okkur hinum.

Börnin urðu sex en þau eru; Inga gift Guðna J. Guðnasyni, Gunnar, kvæntur Ágústu Árnadóttur, Anna, gift Birni S. Lárussyni, Erla, gift Sigurbirni Kristjánssyni, Kristján, sambýliskona hans er Stefanía K. Karlsdóttir og Sonja. Barnabörnin eru orðin 9 og barnabarnabörnin 2.

Okkur langar að leiðarlokum að þakka Kjartani fyrir allar samverustundirnar sem við áttum með honum.

Blessuð sé minning hans.

Tengdabörn