Hreinn Pálsson kennir börnum heimspeki.
Hreinn Pálsson kennir börnum heimspeki.
1. Hvers vegna ætti að kenna heimspekilega siðfræði í skólum? "Mikilvægi þess að kenna lestur, skrift og reikning þykir svo augljós að óþarft er að huga að réttlætingu þess. Það sama finnst okkur gilda um fjölmargar aðrar greinar, t.d. íslensku.
1. Hvers vegna ætti að kenna heimspekilega siðfræði í skólum?

"Mikilvægi þess að kenna lestur, skrift og reikning þykir svo augljós að óþarft er að huga að réttlætingu þess. Það sama finnst okkur gilda um fjölmargar aðrar greinar, t.d. íslensku. Almennt gildir um kennslu í íslensku að nemendurnir "kunna" hana þegar við upphaf skólagöngu sinnar, þeir geta flestir tjáð sig á íslensku," svarar Hreinn Pálsson skólastjóri Heimspekiskólans, sem er fyrir börn, og einn höfunda bókarinnar Hvers er siðfræðin megnug? "Engum blandast þó hugur um mikilvægi þess að þjálfa þá í beitingu móðurmálsins um leið og þeim er veitt innsýn í ólíkar hliðar þess. Kennsla í íslensku er jafnframt kynning á íslenskri menningu. Tökum eftir því að íslenskukennarar hafa ekki einkarétt á íslenskukennslu, aðrir kennarar sem leiðrétta málfar og framsetningu nemenda sinna eru jafnframt íslenskukennarar. Þetta breytir þó ekki því að íslenskukennarar eru sérfræðingar á sínu sviði."

"Hliðstæð rök gilda um heimspekikennslu," segir Hreinn. "Sameiginleg uppspretta vestrænnar menningar er í forngrískri heimspeki, saga heimspekinnar er jafnframt saga mannsandans. Kennsla í vestrænni heimspeki er jafnframt kynning á vestrænni hugsun. Á meðal einkenna þessarar hefðar er greining hugtaka og stöðug leit að skilningi og merkingu. Auðvitað hafa heimspekingar ekki einkarétt á greiningu hugtaka, skilningi og merkingu! Þjálfun í heimspeki kemur kennurum hins vegar til góða í þessum efnum. Heimspekingar eru sérfræðingar á sínu sviði rétt eins og íslenskukennarar eru sérfræðingar í íslensku.

Eiginleg siðfræði er ein greina heimspekinnar og varasamt er að slíta siðfræðikennslu úr tengslum við heimspekikennslu. Leit að nýjum eða öðruvísi sjónarmiðum, rökum, forsendum og ályktunum er á meðal sérkenna heimspekilegs þankagangs. Siðfræðikennsla sem ekki er opin fyrir andstæðum sjónarmiðum, sem vegur ekki og metur óhefðbundnar skoðanir í fullri alvöru, stuðlar ekki að aukinni víðsýni nemenda."

2. Hvernig er raunhæfast að koma kennslu í heimspeki (og siðfræði) á?

"Væri ekki skólatilveran dásamleg ef allir kennarar væru jafnframt sérhæfðir móðurmálskennarar? Væri þá ekki óhætt að fella beina íslenskukennslu niður og treysta því að móðurmálskennslan yrði sjálfkrafa hluti af annarri kennslu? Ég þykist þess fullviss að hugleiðingar í þessum anda þyki draumórakenndar. Engu að síður koma iðulega fram hliðstæðar hugleiðingar þegar kennslu í heimspeki og siðfræði ber á góma: Að markmiðin séu virðingarverð en að aðrar leiðir séu betur færar en leið heimspekinnar, t.d. kennsla í lífsleikni, sem er nýasta uppfinning skólamanna, eða kennsla í bókmenntum. Ef framfylgja ætti þessu sjónarmiði í alvöru er ómögulegt að sjá hvernig það er gerlegt án þess að lífsleikni- eða bókmenntakennarar fái þjálfun í heimspeki. Önnur leið að sama marki er svonefnd barnaheimspeki en þar er gengið með skipulegum hætti í smiðju vestrænnar heimspeki í leit að ráðgátum og lykilhugmyndum sem settar eru fram þannig að þær höfði til barna og unglinga. Ef þessi leið væri valin gildir hið sama; óraunhæft er að kennslan heppnist ef kennarar fá ekki þjálfun í heimspeki.

Ef kennsla í heimspeki og siðfræði yrði innleidd með skipulegum hætti í íslenskt skólakerfi verður ekki sú bylting að nemendur umbreytist í hugsandi og siðlegar verur - þeir eru nú þegar slíkar verur. Hins vegar má halda í þá von að kennsla í heimspeki og siðfræði efli dómgreind nemenda og stuðli að víðsýni þeirra. Verkefnið, að skerpa og skýra hugsun og siðlega breytni, er endalaust."