Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson
Ef vísindamenn fara að blanda sér með beinum hætti inn í hið pólitíska umhverfi, telur Gunnar Örn Gunnarsson að þeir missi allan trúverðugleika í sínu vísindalega starfi.

GÍSLI Már Gíslason hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarið eftir að úrskurður skipulagsstjóra lá fyrir um umhverfismat námuvinnslu úr Mývatni. Hefur hann sem vísindamaður, prófessor í vatnalíffræði við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) fundið sig knúinn til að koma ráðgjöf á framfæri með þeim eina hætti sem hann telur nú færan, þ.e. að kæra úrskurðinn til umhverfisráðherra. Nokkuð sem undirritaður áttar sig ekki á hvað Komið hefur fram í fjölmiðlum að það sé "kjaftæði", eins og hann orðaði það sjálfur, að ekki sé búið að sýna fram á skaðleg áhrif námuvinnslu Kísiliðjunnar úr Mývatni. Í framhaldi af þessu öllu er hann nú farinn að leiðbeina skipulagsstjóra um hvernig á að vinna að úrskurði um umhverfismat. Við lestur þeirra skrifa Gísla kemur mér helst í huga hugtakið menntað einveldi. Í málflutningi Gísla Más skín í gegn að hið eina rétta er þegar sérfræðingar, þeir sem "vit" hafa á málum, eru látnir ráða.

Hlutverk vísinda

Í þessum greinarstúf langar mig til að leiða lesendur inn á baksviðið og varpa nokkuð öðru ljósi á þessi mál en gert hefur verið.

Byrjum á því að velta fyrir okkur hlutverki vísindanna. Að mínu mati er hlutverk vísindamanna að fást við rannsóknarspurningar á óvilhallan hátt og setja fram niðurstöður, stjórnvöldum og samfélaginu öllu til upplýsinga. Síðan er það hlutverk stjórnvalda, samtaka og almennings í landinu að marka stefnu og taka ákvarðanir á grundvelli þeirra upplýsinga. Það er ákaflega mikilvægt að vísindamennirnir blandi sér ekki með beinum hætti inn í hið pólitíska umhverfi. Ef þeir gera það missa þeir allan trúverðugleika í sínu vísindalega starfi. Þeir sem ekki eru á sömu skoðun og vísindamaðurinn í pólitík (t.d. umhverfispólitík) hætta að hafa trú á viðkomandi vísindamanni og þar með starfi hans. Sérstaklega er þetta bagalegt þegar um vísindamenn er að ræða sem þiggja laun sín af skattfé borgaranna. Menn sem eiga að þjóna öllum íbúum þessa lands. Það verður að vera skýlaus krafa til allra vísindamanna að þeir skilji hlutverk sitt þannig að störf þeirra nýtist við umræður og til ákvarðanatöku.

Trúnaðarbrestur

Ef við lítum síðan á hvernig formaður RAMÝ hefur starfað í nafni stofnunarinnar þá er það augljóst hvers vegna flestir Mývetningar telja að algjör trúnaðarbrestur ríki á milli stofnunarinnar og þeirra. Það er einfaldlega vegna þess að flestir telja að meirihluti stjórnar stofnunarinnar, með stjórnarformanninn, Gísla Má Gíslason, í farabroddi síðustu 22 árin, hafi leynt og ljóst unnið gegn hagsmunum íbúa hreppsins. Nú síðast með umsögnum til skipulagsstjóra um umhverfismat Kísiliðjunnar vegna námuvinnslunnar. Í þessum umsögnum hefur ekki verið að finna eina jákvæða setningu um starfsemi fyrirtækisins. Þegar síðan farið er ofan í saumana á umkvörtunarefnum meirihluta stjórnar RAMÝ kemur í ljós að rök þau sem notuð eru af þeirra hálfu eru í besta falli léttvæg. Staðreyndin er einfaldlega sú að þrátt fyrir áratuga rannsóknir á lífríki Mývatns og mörg hundruð skýrslur er ekki neitt að finna sem bendir til þess að Kísiliðjan hafi haft slæm áhrif á lífríkið. Svo skemmtilega vill til að þetta er einnig niðurstaða þriggja skandínavískra prófessora í vatnalíffræði sem fengnir voru af hálfu iðnaðarráðuneytisins til að fara yfir rannsóknargögn og gáfu álit sitt á starfseminni og áhrifum hennar á lífríkið. Niðurstöður þeirra voru eindregnar, þ.e. að ekkert væri sem benti til að starfsemi Kísiliðjunnar orsakaði margumtalaðar sveiflur í lífríki vatnsins. Því er meint fiskleysi í Syðriflóa Mývatns t.d. ekki af völdum Kísiliðjunnar þrátt fyrir að einstaka leikmenn haldi öðru fram. Úrskurður skipulagsstjóra er síðan í meginatriðum staðfesting á niðurstöðum umhverfismats Kísiliðjunnar, að óhætt sé að halda námuvinnslu áfram en fara varlega. Hvers vegna getur embættismaðurinn Gísli Már þá ekki sætt sig við þær niðurstöður? Að mínu áliti er ástæðan sú að Gísli Már er að framfylgja ákveðinni umhverfispólitík sem hann og ýmsir aðrir standa fyrir. Sú pólitík gengur einfaldlega út á það að ekki eigi að hrófla neitt við náttúru Íslands, að láta náttúruna vera eins og hún er. Þessi skoðun á fullan rétt á sér eins og aðrar skoðanir og fólk sem aðhyllist þær sameinast í ákveðinn félagskap og fylkir sér á bak við þá pólitísku flokka sem vilja taka stefnuna upp. Það er hins vegar ófært að þessari stefnu sé framfylgt af opinberum stofnunum þessa lands undir yfirskini vísinda. Gísli Már getur að sjálfsögðu gengið í náttúruverndarsamtök eða í flokka og barist fyrir þessum málefnum en hann getur ekki gert það sem embættismaður ríkisins. Ég er viss um að margir skattborgarar þessa lands eru mér sammála.

Kæra meirihluta stjórnar RAMÝ

Það er skoðun mín að meirihluti stjórnar RAMÝ hefði aldrei átt að kæra úrskurð skipulagsstjóra vegna þess sem að framan er sagt. Kæran er fullkomlega lögleg en að mínu mati óeðlileg og jafnvel siðlaus. Það væri í sjálfu sér í lagi fyrir stofnun eins og RAMÝ að kæra ef nýjar upplýsingar væru að koma fram sem réttlættu að úrskurðinum væri breytt. Svo er hins vegar ekki því að í kærubréfi RAMÝ eru hafðar í frammi nákvæmlega sömu röksemdir sem RAMÝ hefur í tvígang komið á framfæri við Skipulagsstofnun í matsferlinu. Röksemdir sem á endanum voru taldar léttvægari en málflutningur Kísiliðjunnar og því varð úrskurðurinn eins og raun ber vitni. Fullyrðing Gísla Más um að úrskurður skipulagsstjóra hafi verið pólitískur er að mínu mati hlægileg og sýnir hversu veikur málflutningur hans er.

Höfundur er framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar hf.