[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í nóvember 1996 skrifaði greinarhöfundur í Lesbók Morgunblaðsins um beinhólkinn sem fannst í kumli við Eystri- Rangá seint á átjándu öld og er nú varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands.

Í nóvember 1996 skrifaði greinarhöfundur í Lesbók Morgunblaðsins um beinhólkinn sem fannst í kumli við Eystri- Rangá seint á átjándu öld og er nú varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands. Kumlið fannst rétt hjá þeim stað sem sagan segir að Gunnar Hámundarson hafi varist eftir umsátrið við Knafahóla og rétt hjá Gunnarssteini. Í greininni var sett fram sú hugmynd, eða tilgáta, að hér væri um að ræða þumalhring til að draga upp boga og þá líklega boga þann, er Landnáma segir frá í bogaskotinu úr Vælugerði í Flóa.

ÞESSAR hugmyndir hafa vakið athygli og kveikt umræðu, þótt ekki séu allir á einu máli um réttmæti tilgátunnar. Almennur áhugi á Njálu hefur farið vaxandi undanfarið og tengist tilgáta mín óneitanlega sögusviði hennar sem og umræðunni um uppruna Íslendinga.

Segja má að afstaðan á þessari öld til heimildargildis Njálu og annarra Íslendingasagna hafi sveiflast frá því að Íslendingasögurnar séu taldar jafngilda heimildarritum yfir í að vera hreinn skáldskapur. Á það sérstaklega við um Hrafnkelssögu, sem á að hafa enga stoð í raunveruleikanum. Með kenningum mínum um beinhringinn leiði ég líkur að því að ákveðnir þættir í þessum verkum hafi byggst á raunverulegum fyrirmyndum, persónum og atburðum.

Þegar ég hef kynnt tilgátu mína um hlutverk og uppruna beinhringsins fyrir erlendum sérfræðingum á sviði sögu boglistarinnar hafa þeir m.a. bent á að reynist tilgátan á rökum reist muni það breyta skoðun manna og vitneskju um boglist á Norðurlöndum á víkingaöld. Það er því vissulega ástæða til að fylgja þessu máli eftir og kanna það frekar.

Skömmu eftir útkomu greinar minnar um beinhólkinn frá Rangá setti ég mig í samband við Mike Loades, Englending sem hefur m.a. gert myndband um sögu bogans og er sérfræðingur í bardagalistum fyrri tíma. Hann sýndi þessu máli strax mikinn áhuga og kynnti mig fyrir Edward McEwen, sem býr í London. McEwen er sérfræðingur í smíði boga eftir gömlum fyrirmyndum og hefur smíðað boga fyrir menn víða um heim. Bogar hans hafa verið smíðaðir samkvæmt þeim bogaleifum, sem fundist hafa.

McEwen er einnig ritstjóri tímarits félags áhugamanna um forna boga. McEwen fékk einnig, líkt og Loades, strax mikinn áhuga á spurningunni um bogahringinn frá Rangá og veitti mikla aðstoð, bæði með öflun heimilda og með smíði eftirlíkingar beinhringsins og örvaroddsins frá Rangá.

Hornboginn

Ein besta heimildin um sögu og gerð hornbogans (composite bow) er doktorsritgerð Svíans Gad Rausing, gefin út í Lundi 1967 (Gad Rausing er annar hinna svokölluðu Tetrapak-bræðra sem hafa efnast svo á sölu umbúða að þeir eru meðal ríkustu manna heims. Hafa þeir meðal annars styrkt íslenskukennslu við breska háskóla. Gad Rausing lést í janúar 2000).

Hornboginn er upprunninn í Mið-Asíu og er gerður með því að líma saman tré, bein, horn og sinar. ur. Hann var yfirleitt dreginn upp með svokallaðri mongólskri aðferð, þ.e. með þumalfingrinum og þumalhring. Þessi aðferð gefur miklu meira átak en flestar aðrar aðferðir.

Smíði hornboga gat tekið mörg ár, Rausing gefur upp þrjú til tíu ár. McEwen telur það vera fullmikið en þrjú ár til að vinna efnið, líma það saman og fyrir límið að þorna (sem tekur um ár) væru líklega ekki fjarri lagi. Þessir bogar voru því miklir dýrgripir og gengu frá manni til manns í sömu ætt, jafnvel fleiri hundruð ár.

Óstrengdur er hornboginn með bogalag öfugt við það sem hann hefur eftir að bogastrengurinn hefur verið strengdur. Hann er því forspenntur og nær þess vegna að gefa örinni mun meiri hraða eða hraðaorku en venjulegur trébogi eða langbogi. Samkvæmt upplýsingum McEwens má boginn ekki vera strengdur lengur en sólahring í einu ef hann á að halda fullu afli. Hann er því ætíð geymdur óstrengdur.

Boginn er viðkvæmur fyrir raka og Kínverjar geymdu því boga sína í skápum hituðum með viðarkolaaeldi.

Spurning hefur verið meðal fræðimanna, hvort með horni sé átt við að horn var notað til smíðar bogans eða hvort hann dregur nafn sitt af hornunum svokölluðu en það eru hinir beinu og stífu endar bogans.

Vesturlandabúar fyrri alda lærðu ekki þá tækni, sem þurfti til að smíða hornboga. Meðal áhugamanna um sögu bogans hefur verið mikil umræða um, hvort þessir bogar hafi komist til Vesturlanda fyrr á öldum. Þó ætla hafi mátt, að einhverjir hornbogar hafi borist til Vesturlanda á víkingaöld hefur ekki fundist haldbær vísbending um það, fyrr en nú með beinhringnum frá Rangá og þeim íslensku heimildum, sem hér er lýst.

Í Hlöðskviðu segir Gizur grýtingaliði: "Ei hræðumst við Húnaher né hornboga yðar." Grýtingar voru ein helsta ættkvísl Gota, þegar þeir bjuggu í landi sínu, Gotaþjóða, vestan við Svartahaf á fjórðu öld.

Nafnið Húnbogi gæti bent til þess að forfeður okkar hafi átt húnboga fyrir löngu.

Ein persónan í Niflungaljóðunum þýsku heitir einmitt Hornbogi, sem hefur líka merkingu og nafnið Húnbogi, þ.e. húnbogi er hornbogi en hornbogi þarf ekki að vera húnbogi. Hornbogi var liðsmaður Atla húnakonungs.

Samkvæmt rómverskum heimildum var eftirsóttasta herfangið í bardögum við Húna bogar þeirra. Þegar lið Húna náði að ríða í hæfilegri fjarlægð frá her Rómverja og skjóta á þá með bogum sínum endaði það með því að Rómverjarnir féllu fyrir örvunum án þess að geta náð til Húnanna með vopnum sínum. Sama átti við þegar Húnar óðu yfir byggðir Aust-Germana við Svartahaf.

Hornboginn er mun styttri en aðrir bogar og samt öflugri. Hann er því vel til þess fallinn að skjóta af á hestbaki. Spurning gæti verið, hvort íslenski hesturinn eigi uppruna sinn frá hesti Húnanna. Ekki verður komist hjá því að taka eftir hversu líkur hann er mongólska hestinum. Gæti hinn þýði gangur hans í upphafi hafa verið ræktaður til að skjóta af boga á baki hans?

Innrásir hirðingjaþjóða í Evrópu fyrr á öldum byggðust á þessu vopni. Má þar nefna Húna, Avara, Ungverja, Mongóla og Tyrki. Allar þessar þjóðir notuðu mongólska gripið eða þumalinn, þótt honum gæti verið beitt á mismunandi hátt. Kínverjar notuðu hringi úr t.d. steini eða horni, líka hringnum frá Rangá. Sumar mongólskar þjóðir nota hring úr leðri eða leðurhlíf á þumalinn, sem gæti verið ástæða þess að ekki er vitað til þess að þumalhringir hafi fundist í gröfum Húna.

Tyrkir notuðu hringi úr horni eða t.d. steini, sem voru á fremri hluta þumalsins.

Einn Tyrkjasoldána smíðaði marga slíka hringi og hafði fyrir venju að gefa þá vinum sínum. Meðal Tyrkja var það íþrótt að keppa í langskotum með hornbogum og sérstökum sviförvum. Á súlu á gamla leikvanginum Paðreim í Istanbúl eru skráð lengstu bogaskot Tyrkjasoldána. Tyrkjasoldánar töldu sig eiga þar met allt að 900 metrum, þótt ótrúlegt sé. Skráð er langskot soldáns Tyrkja, Selims, árið 1798 sem mældist 888 metrar.

Voru notaðar sérstakar sviförvar og svo stífur bogi að sérstakan bekk þurfti til að strengja hann.

Margir kannast við söguna af boga Ódysseifs, sem var svo stífur að enginn gat strengt hann nema eigandinn sjálfur.

Á átjándu öld sýndi ritari tyrkneska sendiherrans í London, Mahmud Effendi, getu tyrkneska bogans i almenningsgarði í London og skaut nokkrum skotum um 440 metra.

Frægt var bogaskot eins hermanna Gengis Kan, Yisunke, árið 1225, sem mældist 485 metrar.

Bogaskotið í Vælugerði árið 944

Könnun á því hvernig hornbogi gæti hafa komist í hendurnar á Gunnari Hámundarsyni vakti athygli mína á frásögn Landnámu um bogaskotið í Vælugerði um miðja tíundu öld. Þar kom fram óvenjulega sterkur bogi, svokallaður handbogi, sem skotið var af mun lengra en menn höfðu talið mögulegt.

Síðar er örskotslengdin ákveðin í föðmum, eins og kemur fram í Grágás, sem tvöhundruð lögfaðmar á sléttum velli eða 410 metrar. Þar er um að ræða stórt hundrað eða 120. Þessi kafli Grágásar, Vígaslóði, er færður á letur á fyrsta hluta tólftu aldar. Örskotslengd er í Grágás notuð í lagaákvæðum sem snerta friðhelgi sekra manna innan vissra marka á landi sínu og utan þess. Þetta hefur verið sú fjarlægð sem menn náðu til með vopnum líkt og þriggja mílna landhelgin var miðuð við þá fjarlægð sem fallbyssur drógu frá landi.

Til samanburðar má nefna, að skráð met breska langbogafélagsins er nú einungis 310 metrar og í því tilfelli voru notaðar sérstakar sviförvar.

Á víkingaöld drógu einungis hornbogar Asíuþjóða fjögur hundruð og tíu metra eða meira.

Þessi notkun örskotslengdar í lagaákvæðum hér landi virðist vera einstök í heiminum og ekki eiga sér hliðstæðu annars staðar samkvæmt mati McEwens. Þetta lagaákvæði kemur t.d. ekki fram í bók Gads Rausing þótt hann hafi leitað fanga víða. Rausing kannaði t.d. gömul lagaákvæði á Norðurlöndum þar sem notkun boga kom fram. Hann kannaði t.d. Gulaþingslög og lög Gauta og Jóta. Grágás hefur ekki verið gefin út eða þýdd í aðgengilegri útgáfu og þess vegna hefur þetta merkilega ákvæði ekki verið kunnugt erlendum fræðimönnum. Hornbogarnir draga mun lengra en langbogar. Að mati McEwen draga trébogar eða langbogar lengst um 300 metra en hornbogar eða samanlímdir bogar frá Asíu um 400 metra ef skotið er með venjulegum örvum en ekki sviförvum.

Örskotslengd Grágásar er augljóslega miðuð við hornboga, sem dregnir eru upp með þumalhring. Varla hefði örskotslengdin verið sett inn í lögin síðar í föðmum og miðuð við hornboga, ef ekki hefðu borist hingað til lands fleiri hornbogar úr Austurvegi en sá sem kom við sögu í Vælugerði um miðja tíundu öld. Í lok tíundu aldar hófu norrænir menn að ganga í lífvörð Miklagarðskeisara en í her hans voru menn af ýmsum þjóðarbrotum sem notuðu hornboga í hernaði. Það er því rökrétt að álykta að hér á landi hafi á fyrstu öldum landnáms verið í umferð hornbogar, sem skotið hefur verið af með mongólska gripinu eða þumalfingri með hring. Þetta styðja bæði örskotslengdin í Grágás og beinhringurinn frá Rangá.

Kumlin við Rangá

Kumlin við Rangá fundust nærri þeim stað þar sem talið er að Gunnar á Hlíðarenda hafi barist við þá fyrirsátsmenn Egil í Sandgili og félaga. Gunnarssteinn er stór steinn tæplega þrjá kílómetra fyrir innan Keldur á bakka Eystri-Rangár. Steinninn er talinn bera það nafn vegna þess að þar hafi barist Gunnar Hámundarson eins og lýst er í Njálu. Nokkur kuml hafa fundist stutt frá Gunnarssteini. Fara fyrst sögur af kumlunum árið 1780 og jafnvel fyrr, þegar uppblástur tók að herja á þessar slóðir. Þá lýsti Jón fálkafangari Ísleiksson kumlunum og kvaðst hafa dreymt fornmann, sem kvaðst vera Þórir austmaður.

Í kumlum þessum fundust mannabein og nokkrir gripir en eitthvað kann að hafa glatast.

Þarna hafa margir menn verið heygðir samtímis, líklegast eftir bardaga. Gripirnir, tímasetningin og staðurinn styðja öll frásögn Landnámu og Njálu í aðalatriðum. Í kumlunum fundust, auk beina, kjaftamél og járnhöft fyrir hesta, skrautkinga, beinhólkur svokallaður og það sem talið var vera þrír spjótsoddar.

Landnáma getur Gunnars á Hlíðarenda á nokkrum stöðum og á einum stað segir:

"Kolur hét maður, son Óttars ballar. Hann nam land fyrir austan Rangá og Tröllaskóg, og bjó að Sandgili, hans son var Egill, er sat fyrir Gunnari Hámundarsyni hjá Knafahólum og féll þar sjálfur og austmenn tveir með honum, og Ari húskarl hans en Hjörtur bróðir Gunnars af hans liði."

Njáls saga segir svo frá þessum bardaga miklu nánar og segir, að Gunnar og bræður hans hafi hleypt hestum sínum að Rangá, sem er nokkur leið, og varist í nesi við ána og féllu þar fjórtán af liði fyrirsátsmanna, m.a. Egill í Sandgili, Þórir austmaður og Hjörtur, yngsti bróðir Gunnars.

Þrátt fyrir að flest bendi til að hér geti verið um kuml eftir ofannefndan bardaga að ræða hafa fornleifafræðingar verið nokkuð efins um það. Beinhringurinn sé t.d. ekki frá tíundu öld og þykir þeim líklegt að hann sé frá elleftu öld.

Álit sitt byggja þeir á stíl myndanna sem ristar eru á beinhringinn, sem fannst í kumlinu.

Mun Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti og þjóðminjavörður, hafa verið annarrar skoðunar í byrjun, sbr. bók hans, Gengið á reka, en síðar komist á fyrrgreinda skoðun, samanber bók hans, Kuml og haugfé. Fræðimennirnir settu ekki fram ákveðnar skoðanir um til hvers hringurinn hefði verið notaður.

Um sama leyti og ég skrifaði grein mína um beinhólkinn frá Rangá, eða haustið 1996, skrifaði Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur grein í tímaritið Goðastein um sama efni. Eins og margir vita komu þrír svokallaðir spjótsoddar úr kumlunum við Rangá og af þeim hefur einn varðveist. Bjarni telur í grein sinni spjótsoddinn svokallaða vera örvarodd.

Bjarni bendir einnig á, að við báða enda beinhólksins hafi verið sorfið úr honum að innan. Bjarni lætur sér koma til hugar að þetta sé vegna þess að í hann hafi verið settir tappar.

Athuganir og álit McEwens

Englendingurinn Edward McEwen, ritstjóri The Journal of the Society of Archer-Antiquaries, hefur eins og áður segir smíðað margar eftirlíkingar fornra boga, þ.m.t. húnboga. Á hann meðal annars safn gamalla þumalhringja, aðallega frá Kína.

McEwen hefur nú smíðað eftirlíkingu hringsins og örvaroddsins frá Rangá og notað hvorttveggja við bogskot með húnboga. Honum fannst í byrjun örvaroddurinn óvenjulega stór og þungur og minna jafnvel á kastspjót, en hann er nú 14,5 cm langur með falnum og vegur 36 grömm.

Stærstu örvaroddar frá víkingaöld ná samt þessari stærð. Við Haderslev á Jótlandi hefur fundist fjöldi örvarodda frá 300 til 400 e.Kr. sem varðveist hafa óryðgaðir. Sumir eru mjög líkir örvaroddinum frá Rangá, með fal og um 15 cm langir. Þótt t.d. örvaroddar Húna hafi oftast verið þrístrendir voru þeir einnig mjög þungir eins og örvaroddurinn frá Rangá.

Eftirlíking örvaroddsins vegur um 60 g og er örin með örvaroddi um 100 cm löng. Ætla má að slíkar örvar hafi fyrst fremst verið notaðar í bardögum og af tiltölulega stuttu færi. Ætti að vera auðvelt að skjóta af hornboga með þeim samtímis gegnum skjöld og höfuð eins og segir frá bardaganum við Rangá. Þetta staðfesta tilraunir McEwen, sem telur að svona örvar hafi fyrst og fremst verið notaðar í návígi gegn skjöldum og brynjum.

Það var ógnvekjandi að sjá McEwen skjóta þessari ör með léttum (50 punda) húnboga. McEwen telur þennan boga samt of veikan fyrir þessar þungu örvar og ætlar að gera frekari tilraunir með mun sterkari boga.

Samkvæmt mati McEwens er ekkert því til fyrirstöðu að nota hringinn frá Rangá til að draga upp boga með mongólsku aðferðinni (mongolian release).

Hringurinn er fullvíður fyrir McEwen en miklu máli skiptir að hann falli þétt að fingrinum svo hann notaði leðurfóðrun. Það mun einnig hafa verið gert í vissum tilfellum af þeim þjóðum sem notuðu mongólska gripið.

McEwen gaf höfundi þumalhring sem hann hefur smíðað til eigin nota. Þessi hringur er um 2,5 sentímetrar að innanmáli en hringurinn frá Rangá mælist 2,5 til 3 sentímetrar, þar sem þversnið beinleggsins er ekki hringur heldur ellipsa. Sama má segja um þumalinn og passar það þversnið raunar þumlinum betur.

Hringur McEwens er of þröngur fyrir höfund. Sorfið hefur verið innan úr honum til endanna eins og á hringnum frá Rangá.

Fyrstu viðbrögð Englendinganna voru þau, að hringurinn frá Rangá væri fullvíður til þess að nota á þumalfingri. Ófáir íslenskir karlmenn hafa svo stórar hendur að hringurinn frá Rangá kæmist ekki á þumal þeirra. Á það einkum við um þá er unnið hafa þannig vinnu að fingurnir hafa eflst.

Raunar er hringurinn frá Rangá því alveg innan þeirra marka sem stórar hendur myndu krefjast án hanska eða minni með hanska.

Athyglisvert er, að hringur McEwens, sem hann smíðaði til eigin nota, er 2,6 sentímetrar á hæð, eða lengd, en samkvæmt mælingu Þjóðminjasafnsins er hringurinn frá Rangá 2,65 sentímetrar. Hæð kínversku þumalhringjanna í safni McEwens er minnst 2,4 cm og mest 2,6 cm.

Málin á hringnum úr kumlinu styðja því tilgátuna um að um bogahring sé að ræða. Það gera myndirnar á honum einnig. Á einn hinna kínversku þumalhringja McEwens er grafin mynd af hestum á sama hátt og hirtirnir á hringnum frá Rangá. Eðlilegt er að hringur til nota við veiðar á hjörtum með boga sé með hjartamynd.

Ef til vill hefur sú staðreynd, að ekki hafa fundist aðrir slíkir bogahringir á Norðurlöndum, hindrað fræðimenn í að álykta að hér gæti verið um einn slíkan að ræða. Þeir höfðu heldur ekki gert sér grein fyrir því að örskotslengdin í Grágás staðfestir að hér hafi á víkingaöld verið á ferðinni hornbogar af austrænum uppruna.

Gad Rausing hefur einnig ekkert við þessa niðurstöðu að athuga og spyr, í bréfi til höfundar, hversu margir hringir til bogaskota hafi fundist á Norðurlöndum án þess að finnendur hafi áttað sig á hvað um væri að ræða. Staðreyndin er sú að þekking á bogatækni fyrri alda hefur verið mjög takmörkuð á Norðurlöndum og meðal fornleifafræðinga.

Það vekur einnig athygli að þrír örvaroddar munu hafa fundist í kumlunum á sínum tíma og bendir það til þess að þar hafi þrír menn verið felldir með boga og örvarnar hafi fylgt þeim í gröfina. Þetta er alveg í samræmi við frásögn Landnámu af bardaganum við Rangá en þar segir að fjórir hafi fallið úr liði fyrirsátsmanna. Líkur eru því á að af þeim hafi þrír eða jafnvel allir verið felldir með boga.

Hornbogar eins og ætla má að örskotslengdin í Grágás hafi verið miðuð við eru það öflugir að vandalaust mun hafa verið að skjóta ör með þungum oddi eins og þeim sem í kumlinu fannst í gegnum skjöld og höfuð eins og Njála lýsir.

Þar kemur einnig skýring á því hvers vegna Gunnar ríður sem fastast frá Knafahólum að Rangá. Hann þurfti tíma til að taka upp bogann og strengja hann, sem hefur ekki verið á allra færi. Boginn hefur verið óstrengdur á ferðalögum og vandlega varinn fyrir veðri og vindum.

Kumlin í nágrenni Gunnarssteins eru allmörg. Kuml hafa fundist um 100 metrum norðan við Gunnarsstein og önnur í hraunbrúninni um 300 metrum austar nærri nesi við ána sem hentað gæti til varnar. Þar er illfært yfir ána og erfitt að sækja að nema frá annarri hliðinni. Þarna gæti Hjörtur hafa fallið og hafa síðan verið heygður í einu kumlinu í hraunbrúninni. Hann gæti hafa átt beinhringinn þar sem hjartamyndin á honum varð til þess að hann fékk nafnið Hjörtur. Þar sem bogahringir verða að passa nákvæmlega þumli bogaskyttunnar gæti Hjörtur hafa borið beinhringinn um hálsinn til skrauts líkt og bronskingan, sem fannst

þarna einnig, var borin.

Í næstu Lesbók: Á slóð hornbogans.

EFTIR BERGSTEIN GIZURARSON

Höfundur er brunamálastjóri.