Austurvegur. Kortið sýnir í aðalatriðum leiðirnar sem Væringjar fóru á skipum sínum eftir ánum í núverandi Rússlandi og nágrannalöndum alla leið frá Eystrasalti til Svartahafs og Kaspíahafs.
Austurvegur. Kortið sýnir í aðalatriðum leiðirnar sem Væringjar fóru á skipum sínum eftir ánum í núverandi Rússlandi og nágrannalöndum alla leið frá Eystrasalti til Svartahafs og Kaspíahafs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þormóður Þjóstarsson hefur birst óvænt með handboga sinn, eins og hann er kallaður í Landnámu, eftir dvöl erlendis. Hann tekur land á Eyrarbakka, rétt eftir víg Arnar en þaðan er stutt til Vælugerðis. Þormóðs Þjóstarssonar er ekki getið frekar í Landnámu nema í sambandi við afkomendur hans á Vesturlandi.

ÞEGAR leitað var í Landnámu að heimildum, sem gætu skýrt uppruna boga Gunnars Hámundarsonar, birtist frásögnin af bogaskotinu í Vælugerði eins og segir hér að framan.

Til skýringar skal nefnt að Gunnar Baugsson, í Gunnarsholti á Rangárvöllum, afi Gunnars Hámundarsonar, hafði hefnt bróður síns, Steins hins snjalla í Snjallsteinshöfða, með því að vega Önund í Önundarholti í Flóa. Önundur hafði vegið Stein til að hefna vígs mágs síns, Sigmundar sonar Sighvats rauða, við Sandhólaferju.

Þeir, Steinn snjalli Baugsson og Sigmundur sonur Sighvats rauða, höfðu komið samtímis að ferjunni yfir þjórsá við Sandhólaferju ásamt förunautum og deilurnar um hver ætti að fara yfir fyrstur enduðu með því, að Steinn hjó Sigmund banahögg. Önundur varð síðan sekur af vígi Snjallsteins.

Gunnar Baugsson lést á heimleiðinni við Þjórsá af sárum þeim er hann hlaut í bardaganum við Önund og hans menn. Gunnar hafði fengið mág sinn Örn í Vælugerði, sveitunga Önundar, til að njósna um ferðir Önundar. Í Landnámu segir svo: "Þá er synir Önundar uxu upp, Sigmundur kleykir og Eilífur auðgi, sóttu þeir Mörð gígju að eftirmáli, frænda sinn. Mörður kvað það óhægt um sekan mann, þeir kváðu sér við Örn verst líka, er þeim sat næst. Mörður lagði það til að þeir skyldu fá Erni skóggangssök og koma honum svo úr héraði. Önundarsynir tóku beitingarmál á hendur Erni, og varð hann svo sekur, að Örn skyldi falla óheilagur fyrir Önundarsonum hvarvetna nema í Vælugerði og í örskotshelgi við landareign sína. Önundarsynir sátu jafnan um hann en hann gætti sín vel. Svá fengu þeir færi á Erni að hann rak naut úr landi sínu, þá vógu þeir Örn, og hugðu menn að hann mundi óheilagur fallið hafa.

Þorleifur gneisti, bróðir Arnar keypti að Þormóði Þjóstarssyni að hann helgaði Örn, Þormóður var þá kominn út að Eyrum. Hann skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans. Þá mæltu þeir Hámundur Gunnarsson og þorleifur eftir Örn, en Mörður veitti þeim bræðrum, þeir guldu eigi fé, en skyldu vera héraðssekir úr Flóa. þá bað Mörður til handa Eilífi Þorkötlu Ketilbjarnardóttur og fylgdu henni heiman Höfðalönd og bjó Eilífur þar en til handa Sigmundi bað hann Arngunnar dóttur Þorsteins drangakarls og réðst hann austur í sveitir, þá gifti og Mörður og Rannveigu systur sína Hámundi Gunnarssyni og réðst hann aftur í Hlíðina og var þeirra son Gunnar Hámundarson að Hlíðarenda." Þeir Önundarsynir hafa væntanlega ekki ætlað að vega Örn innan örskotsfjarlægðar frá landi hans og höfðu því lengi beðið færis að vega hann. Hugðu menn í fyrstu, að vígið væri löglegt og utan örskotsfjarlægðar.

Handbogi Þormóðs Þjóstarssonar breytti þessari niðurstöðu þar sem hann dró mun lengra en aðrir bogar enda var þá ekki skilgreint í lögum hversu margir faðmar örskotslengd var eins og síðar var gert í Grágás.

Þormóður Þjóstarsson hefur birst óvænt með handboga sinn, eins og hann er kallaður í Landnámu, eftir dvöl erlendis. Hann tekur land á Eyrarbakka rétt eftir víg Arnar en þaðan er stutt til Vælugerðis.

Þormóðs Þjóstarssonar er ekki getið frekar í Landnámu nema í sambandi við afkomendur hans á Vesturlandi.

Samkvæmt Landnámu urðu afleiðingar bogskotsins við Vælugerði þær, að þessar tvær ættir, sem höfðu staðið í blóðhefndum eftir vígið við Sandhólaferju, sættust að ráði Marðar gígju á Velli. Hámundur gekk að eiga Rannveigu, systur Marðar og Þorgerðar móður þeirra Önundarsona sem hvatt hafði mann sinn í upphafi til að vega Snjallstein föðurbróður Hámundar og hefna þar með vígs bróður hennar.

Gunnar á Hlíðarenda var afkomandi þessara tveggja ætta sem borist höfðu á banaspjót eftir vígið við Sandhólaferju og átti hann til mikilla vígamanna að telja í báðar ættir.

Það var því ekki ólíklegt, að sú blóðblöndun gæfi af sér einstakling sem væri óvenju mikill að burðum þótt ekki færi saman gæfa og gjörvileiki eins og sagan segir okkur.

þarna varð bogi Þormóðs Þjóstarssonar samkvæmt Landnámu til að skapa grundvöll atburðarásar Njáls sögu.

Ekki er auðvelt að geta sér til um framhald vígaferla þessara ætta ef víg Arnar hefði talist utan örskotsfjarlægðar og víst er að mikill væri missir af Gunnari Hámundarsyni af spjöldum sögunnar.

Telja verður miklar líkur á að bogi Þormóðs Þjóstarssonar hafi eftir bogskotið úr Vælugerði komist í hendur Hámundar. Jafnvel má geta sér til að boginn hafi verið heimanmundur Rannveigar.

Ætt Hámundar átti kröfu á bótum vegna ólöglegs vígs Arnar og ættingjar Rannveigar gætu því hafa lagt fram fé til kaupanna. Beinhringurinn hefur fylgt boganum. Hámundur gefur yngsta syni sínum nafnið Hjörtur sem ætla má að hafi tengst hjartarmyndunum á hringnum sem hafa á þeim tíma þótt einstakar og þeim hefur e.t.v. fylgt goðsaga.

Þorkell leppur Þjóstarsson

Í Hrafnkels sögu kemur fram á sögusviðið athyglisverð persóna sem tengist óneitanlega gátunni um uppruna beinhringsins.

Sámur Bjarnason kom til Alþingis ásamt Þorbirni föðurbróður sínum til að leita réttar þeirra eftir víg Einars, sonar Þorbjarnar. Hrafnkell Freysgoði hafði vegið hann sökum þess að hann hafði riðið Freyfaxa hesti Hrafnkels.

Fundi Sáms og Þorkels lepps er lýst svo í Hrafnkels sögu:

Þá sáu þeir vestan að ánni, hóti neðar en þeir sátu, hvar fimm menn gengu frá einni búð. Sá var hár maður og ekki þreklegur er fyrir þeim gekk, í laufgrænum kyrtli og hafði búið sverð í hendi, réttleitur maður og rauðlitaður og vel í yfirbragði, ljósjarpur á hár og mjög vel eygður. Sá maður var auðkennilegur, því hann hafði ljósan lepp í hári hinu vinstra megin....

Sámur spyr þessa menn að nafni en sá nefndist Þorkell, er fyrir þeim var og kvaðst vera Þjóstarsson...Hann kvaðst vera vestfirskur að kyni og uppruna en heimili sagðist hann eiga í Þorskafirði... Hann svarar: "Ég er einn einhleypingur. Kom ég út í fyrra sumar. Ég hefi verið utan sex vetur og farið út í Miklagarð. Ég er handgenginn Garðskónginum en nú er ég í vist hjá bróður mínum er Þorgeir heitir...."Eruð þér fleiri bræðurnir?" sagði Sámur. "Er hinn þriðji." "Hver er sá?" sagði Sámur. "Sá heitir Þormóður" sagði Þorkell, "og býr á Görðum á Álftanesi".

Hér er því kominn sá sami Þormóður og skaut hinu örlagaríka bogaskoti frá Vælugerði í Flóa.

Þorkell segist hafa verið sex ár utan í Austurvegi.

Vesturmörk þess svæðis, sem hornboga var að finna á þessum tíma, má telja Garðaríki, Ungverjaland og löndin við Svartahaf.

Samkvæmt Væringjasögu Sigfúsar Blöndals hefur heimkoma Þorkels lepps verið talin árið 944 eða vetri áður en Hrafnkell Freysgoði vó Einar Þorbjarnarson.

Samkvæmt því má leiða líkur að því, að þeir bræður, Þormóður og Þorkell leppur, hafi komið saman til landsins úr Austurvegi árið 944.

Bogaskoti Þormóðs úr Vælugerði var skotið strax eftir komu hans til landsins að Eyrum sumarið 944 og þá samsumars verður sætt milli föður- og móðurættar Gunnars Hámundarsonar.

Fæðingarár Gunnars Hámundarsonar hefur verið talið árið 945. Bendir það til þess að strax eftir bogaskotið, sem gerði víg Arnar óheilagt sumarið 944, hafi Rannveig móðir Gunnars verið gefin Hámundi og Gunnar því fæðst árið eftir eða árið 945.

Samkvæmt Hrafnkels sögu og Landnámu hafa þeir Þjóstarssynir því getað verið í Austurvegi á árunum 937 til 944.

Hrafnkels saga Freysgoða hefur verið talin af sumum sem fyrr segir hrein skáldsaga en telja verður miklar líkur á, að þeir Þjóstarssynir hafi raunverulega leikið veigamikið hlutverk í sögu landnámsaldar.

Þormóður Þjóstarsson hefur líklega verið fyrsti ábúandi á Görðum á Álftanesi.

það er varla tilviljun að hann skírir bæinn sinn Garða, sem var einnig nafn á Garðaríki, og styður það þá tilgátu að Þormóður hafi dvalið í Garðaríki. Nafn sveitarfélagsins Garðabær gæti þess vegna í upphafi átt rætur sínar að rekja austur í Garðaríki.

Viðurnefni Þorkels, leppur, styður einnig þá tilgátu að þeir bræður hafi raunverulega verið uppi á þessum tíma og farið í Austurveg.

Yfirstéttin í Garðaríki snoðaði á þessum tíma hár sitt og skildi einungis eftir hárlokk sem gekk fram á ennið öðrum megin.

Til er samtímalýsing eftir Leo Diaconus á því er konungur Garðaríkis, Svyatoslav, undirritaði á Dóná friðarsamning milli Garðaríkis og Miklagarðs árið 971 eða um tveim áratugum síðar en Þorkell leppur var á þeim slóðum.

Svyatoslav var lýst svo af Leo Diaconus: "Hann var meðalmaður á hæð, Hann hafði loðnar augabrýr, var stuttnefjaður, Hann rakaði skegg sitt en bar langt yfirskegg. Hann rakaði höfuð sitt að undanteknum hárlokk, öðrum megin, sem gaf til kynna konunglegan uppruna hans. Hann var hálsdigur, herðibreiður og vel vaxinn.

Hann virtist grimmilegur og villimannslegur." Hann skar sig úr meðal félaga sinn fyrir það hversu hreinn hann var til fara.

Örlög Svyatoslavs urðu þau að Pechenegar, tyrknesk þjóð við neðri hluta Dnjepr, drápu hann og gerðu drykkjarskál úr höfuðkúpu hans. Áður hafði hann aukið veldi Garðaríkis og herjað á nágrannaþjóðir þess.

Óneitanlega vekur athygli hversu hárgreiðslu Svyatoslav er lýst á líkan hátt og hári Þorkels lepps og getur varla verið um tilviljun að ræða. Skýringin er líklega sú að Þorkell leppur hefur tekið upp hætti þeirrar stéttar sem hann tilheyrði í Garðaríki og þá hárgreiðslu sem hún hafði. Þessari hárgreiðslu hefur hann enn haldið við heimkomuna. Hann hefur því verið uppnefndur leppur af löndum sínum sem ekki skildu hversu mikill heiður og forréttindi það voru í Garðaríki að mega bera svona hárgreiðslu sem einungis yfirstéttin bar.

Athygli vekur að nafnið Þjóstar minnir á nafn þjóðflokksins Theustes sem Jordanes, rómverski sagnaritarinn, telur um árið 500 meðal þeirra þjóðflokka sem búa í Skandinavíu.

þetta mun vera sama nafnið og nafn landshlutans Tjust á austurströnd Svíþjóðar.

Ekki væri það óhugsandi að þeir bræður hafi átt ættingja meðal yfirstéttarinnar í Garðaríki sem á fyrri hluta tíundu aldar var að miklu leyti norræn.

Þess vegna hafa þeir bræður vel getað verið handgengnir Garðskonunginum og er þar átt við konung Garðaríkis en ekki Miklagarðs.

Hér falla því lækir í sama farveg. Hlutverk og uppruni beinhringsins frá Rangá, hin langa örskotslengd í Grágás, lengd bogaskotsins úr Vælugerði, hárleppurinn, bæjarnafnið Garðar og uppruni hornbogans.

Allt bendir þetta í Austurveg og til Garðaríkis, lands vatnaskilanna.

Garðaríki

Hvernig var svo málum háttað í Garðaríki á árunum 937 til 944 þegar þessir íslensku bræður, ef að líkum lætur, leituðu þar fjár og frama? Í Hrafnkels sögu segist Þorkell leppur hafa farið út í Miklagarð. þetta getur verið rétt en þetta var hálfri öld fyrir daga norræna Væringjalífvarðarins sem síðar átti eftir að draga víðreista Íslendinga þangað austur.

Á þessum árum ríkti stríðsástand milli Miklagarðs og Garðaríkis.

Árið 941 réðist mikill floti víkingaskipa á Miklagarð undir forystu konungs Garðaríkis, Ingvars (Igors) að nafni, en hann var faðir Svyatoslavs sem nefndur var hér að framan.

Floti Ingvars er talinn hafa verið um 1.000 skip sem hljómar sem ýkjur. Sumar heimildir segja hann hafa verið 10.000 skip. Stærð flotans var 1.000 skip samkvæmt frásögn ítalsks sendimanns Liudprands (Ljótbrandur) frá Cremona sem kom til Miklagarðs nokkrum árum síðar og studdist við frásögn tengdaföður síns sem var staddur í Miklagarði þetta ár. Hann kallaði árásarmennina Normanna og þeir væru frá Norðurlöndum.

Hér var gerð árás á vel víggirta höfuðborg sterkasta herveldis Evrópu og jafnvel heimsins þessa tíma.

Árásin var að vísu gerð þegar floti Miklagarðs var fjarri í herleiðangri. þetta sýnir samt að Garðaríki hefur haft yfir miklu sterkari her að ráða en ríki Norðurlanda og jafnvel Vesturlanda á þessum tíma.

Tengdafaðir Liudprands lýsti þvíhvernig keisarinn Romanus Lecapenus hafði notað 15 gömul skip til að leiða víkingana í gildru. Ingvar lét skip sín umkringja þessi skip en þá skutu Grikkir eldsprengjum úr viðarkvoðu blandaðri með olíu á víkingaskipin og brenndu þannig meiri hluta flota Ingvars. þeir víkingar sem voru teknir höndum voru hálshöggnir og var tengdafaðir Liudbrands vitni að því.

Leifar víkingaflotans héldu heim á leið eftir ósigurinn en gerðu strandhögg á ströndum Svartahafs á leiðinni.

Ekki er ólíklegt að þeir bræður Þorkell og Þormóður hafa verið með í þessum leiðangri en í hernum voru víkingar frá Norðurlöndum samkvæmt frásögn Liudprands. Orð Þorkels lepps í Hrafnkelssögu "Að hann hefði farið út í Miklagarð" á Þingvöllum árið 945 benda til þess.

Ingvar hélt til Kænugarðs eftir ósigurinn en kom aftur þremur árum síðar með mikinn flota til að hefna ófaranna en lyktir urðu þær að saminn var friður. Nöfn 50 sendifulltrúa Garðaríkis við friðarsamninginn hafa varðveist. Af þeim nítján nöfnum sem hægt er að þekkja eru 16 norræn. Til samanburðar voru nöfn allra 15 sendifulltrúa Garðaríkis við samninga um verslun og viðskipti árin 907 og 911 norræn.

Árás Ingvars á Miklagarð var ekki fyrsta árás norrænna víkinga á þá borg.

Árið 860 réðist floti 200 skipa frá Kænugarði óvænt á Miklagarð. Víkingarnir komust inn í úthverfi borgarinnar og til eru samtímalýsingar af því eftir patríarkann Photíus: "Innrásarmennirnir koma frá fjarlægu landi. Á milli þess og borgar okkar eru önnur lönd og þjóðir, skipfær fljót og hafnlaus höf." Hann bætti því við, að úthverfi borgarinnar væru undir árás, villimennirnir dræpu allt kvikt, brenndu heimili manna, fleygðu fórnarlömbunum í sjóinn eða rækju þau í gegn með sverði án tillits til aldurs. Lýsingar Photíusar eru mjög áhrifamiklar þó gera megi ráð fyrir ýkjum og ekki eru þær í samræmi við kenningar um að víkingar hafi verið friðsamir kaupmenn.

Um líkt leyti eða 864 birtust víkingar einnig á Kaspíahafi og hjuggu strandhögg á austurströnd þess.

Tveim árum eftir árás Ingvars á Miklagarð eða árið 943 hjó stór floti víkinga strandhögg á Kaspíahafi og fór m.a. upp ána Kura suður af Baku og rændi þar bæi og fólki sem heyrði undir Kalífann í Bagdad. Sjúkdómar herjuðu á þessa víkinga, sem voru komnir langt að heiman og í annað loftslag en þeir voru vanir, svo herinn varð að snúa heim. Ekki er heldur útilokað að þeir Þjóstarssynir hafi verið þarna með í för.

Land vatnaskilanna

Líklega má telja að ekkert ríki sögunnar geti fremur rakið tilveru sína til vatnaskila en Garðaríki, fyrirrennari rússneska ríkisins.

Árnar sem renna í gegnum Rússland eða Svíþjóð hina miklu gerðu norrænum mönnum eða væringjum fært að ferðast á skipum allt frá Eystrasalti til Svartahafs og Kaspíahafs. Um 300 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu eru hæðir á um 300 til 400 ferkílómetra svæði þar sem fjórar af stærstu ám Austur-Evrópu eiga upptök sín.

Áin Vestur-Dvina rennur í vestur til Eystrasalts við Rigaflóa. Lovat rennur í norður í Ilmenvatn. Úr því rennur áin Volkov til Ladogavatns og þaðan Neva til Eystrasalts í Finnska flóann.

Þriðja fljótið sem á upptök sín í þessum hæðum er Dnjepur sem rennur í suður hjá Kænugarði til Svartahafs.

Fjórða áin og jafnframt lengsta fljót Evrópu, Volga, á þarna einnig upptök. Volga rennur í austur til núverandi Khasakstan og beygir við svokallað Volguhné í suður og til Kaspíahafs.

Í þessum hæðardrögum, svokölluðum Valdai-hæðum, mátti komast á milli vatnaskila með því að draga skip á hlunningum innan við átta kílómetra leið og yfir einungis ein vatnaskil í hverri ferð og komast þannig á skipfæra á sem rann beina leið til Svartahafs, Kaspíahafs eða Eystrasalts eftir því hvert ferðinni var heitið. Að vísu þurfti að draga skipin fram hjá verstu hávöðunum á neðri hluta Dnjepur á leiðinni til og frá Svartahafi.

Í kringum 940, á tíma dvalar Þjóstarssona í Garðaríki, voru helstu bæirnir á þessu svæði Aldeigjuborg við Ladogavatn, Hólmgarður á ánni Volkhov og Kænugarður við Dnjepur. Orðið garður í þessum nöfnum þýðir líklega bær innan timburvíggirðinga.

Þjóðir sem voru á þessu vatnasvæði fyrir komu Væringjanna voru þessar: Norðan efri hluta Volgu voru finnsk-úgrískar þjóðir. Austan Volgu við Volguhnéð í námunda við bæinn Bulgar voru svokallaðir Volgubúlgarar sem telja má helstu afkomendur Húna. Hinn hluti Búlgara hafði sest að við Dóná í núverandi Búlgaríu. Sunnan við Volgubúlgara voru Khazarar, tyrknesk þjóð sem seinna tók gyðingatrú og réði yfir neðri hluta Volgu til Kaspíahafs og yfir til Svartahafs, árinnar Don og Krímskaga. Höfuðborg þeirra Itil var við mynni Volgu við Kaspíahaf.

Ýmsar slavneskar og tyrkneskar þjóðir eða ættbálkar voru á leiðinni til Miklagarðs við Dnjepur. Sérstaklega má nefna Pechenega, tyrkneska herskáa flökkuþjóð við neðri hluta Dnjepur, sem gerði Garðaríkismönnum marga skráveifu.

Allar þessar þjóðir hafa getað notað hornboga á þessum tíma.

Vatnaskilin og vegirnir sem lágu eftir ánum urðu undirstaða verslunar, samskipta og hernaðar sem lagði grunninn að Garðaríki. Önnur meginorsök til myndunar Garðaríkis á þessum tíma var silfrið sem streymdi frá Asíu til Garðaríkis og þaðan til Norðurlanda. Þessi straumur silfurs hófst um árið 800 en fyrstu arabísku peningarnir sem fundist hafa í Rússlandi eru frá þeim tíma. Sama á við um elstu arabíska peninga sem fundist hafa kringum Eystrasalt og á Norðurlöndum. Elstu silfursjóðirnir innihalda oft silfurhálshringi eða armbönd eða hluta þeirra. Gífurlegt magn silfurs barst til Norðurlanda frá Garðaríki á tímabilinu frá tímabilinu 800 til 1000.

Alls hafa um 85.000 arabískir silfurpeningar fundist á Norðurlöndum, þar af 80.000 í Svíþjóð, helmingurinn á Gotlandi, 4.000 í Danmörku og ekki nema 400 í Noregi.

Talið er að einungis hluti þessa silfurs sé til kominn vegna sölu afurða Norðurlanda í austur. Hluti getur verið tilkominn vegna sölu frankverskra sverða en stór hluti hlýtur að hafa verið skattar og ránsfengur.

Á síðasta hluta níundu aldar stöðvaðist þessi straumur silfurs líklega vegna þess að viðskiptaleiðin til kalífaveldisins í Bagdad lokaðist en þaðan hafði silfrið komið. Í byrjun tíundu aldar kom straumur silfurs frá Samarkand í Mið-Asíu og þá varð bærinn Bulgar við Volguhnéð miðstöð verslunar og sá um dreifingu silfursins til vesturs. Bulgar var einnig staðsett við leiðina til Kína og hafði því mikilvægu hlutverki að gegna í verslun Austurlanda um silkiveginn svokallaða.

Silfrið í námunum við Samarkand gekk svo til þurrðar fyrir lok tíundu aldar og hafði það strax áhrif á valdastöðu Norðurlanda gagnvart ríkjunum sunnar í Evrópu. Halda má því fram að silfrið frá Garðaríki hafi verið megingrundvöllur víkingaferðanna og þess hversu sterk norrænu ríkin voru á þessum tíma. Erfitt hefði verið reka víkingaherina á vöruskiptum eða búfénaði en það var gjaldmiðillinn í upphafi eins og orðið fé ber með sér.

Niðurlag í næstu Lesbók.

EFTIR BERGSTEIN GIZURARSON

Höfundur er brunamálastjóri.