[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EYÞÓR Þorláksson hefur verið atvinnutónlistarmaður í rúm fimmtíu ár. Hann er afburðagítarleikari og líklega í fremstu röð klassískra gítarleikara.

EYÞÓR Þorláksson hefur verið atvinnutónlistarmaður í rúm fimmtíu ár. Hann er afburðagítarleikari og líklega í fremstu röð klassískra gítarleikara. Hann hefur fengist við útsetningar og tónsmíðar jafnframt því sem hann hefur verið með nemendur í gítarleik um árabil. Gítarleikarar sem hafa notið kennslu Eyþórs skipta hundruðum ef ekki þúsundum og hafa sumir þeirra, eins og t.d. Pétur Jónasson, komist í fremstu röð í sinni listgrein.

Eyþór gerði sér snemma grein fyrir því að útgáfa á prentuðum nótum væri af miklum vanefnum hér á landi miðað við önnur lönd. Hann vissi að smæð markaðarins var hér um að kenna en eigi að síður kynnti hann sér hina tæknilegu hlið nótnaprentunar en fann enga færa leið nema handskrift, sem ekki virtist árennileg, og þannig stóðu mál áratugum saman. Þó hélst áhugi Eyþórs vakandi og hann gaf út tvo gítarskóla með þeim aðferðum sem tiltækar voru. Macintosh-tölvan sem kom fram 1984 reyndist svo vera svarið sem hann var að leita að. Loksins gat hann farið að sinna þessu áhugamáli sínu og þar sem hann var gæddur hinum sjaldgæfu en verðmætu eiginleikum frumkvöðulsins lét hann byrjunarörðugleika ekki aftra sér frá því að ná tökum á þessari tækni og naut góðrar aðstoðar Sveins sonar síns sem sýndi snemma hæfileika á þessu sviði auk tónlistarhæfileikanna. Það má segja að hér sé um að ræða enn einn þátt í merkilegu ævistarfi Eyþórs Þorlákssonar því hann hefur skrifað, prentað og gefið út óhemju magn af gítarnótum og útsetningum, bæði til kennslu og annarra nota og auk þess sett og brotið um mikið af annars konar tónlist. Útgáfu gítarnótnanna ætlaði Eyþór fyrst og fremst til afnota fyrir nemendur sína en lengi vel hafði hann nóturnar einnig til sölu hverjum sem hafa vildi en því fylgdi að sjálfsögðu töluvert umstang sem ekki hentaði eftir að hann hætti sjálfur kennslu. Þá var það að enn kom tölvutæknin til hjálpar og nú í formi veraldarvefsins. Síðastliðið sumar settu þeir feðgar allt nótnasafnið á Netið, allri heimsbyggðinni til ókeypis afnota.

Ég heimsótti Eyþór á heimili hans og Sveins sonar hans í Hafnarfirði í lok septembermánaðar. Eyþór hefur dvalið hér á landi í þrjár vikur. Eftir að hann hætti kennslu hefur hann búið á Spáni, nú í Malága. Sambýliskona Eyþórs er Maria Theresa Belles, dóttir fornvinar Eyþórs, Juan Jose Bellés og konu hans Junani Bellés en þau eru bæði látin.

Eyþór varð sjötugur fyrr á þessu ári. Hann er rúmlega meðalmaður á hæð, gráhærður með há kollvik og fremur þéttvaxinn. Við sátum í stofu í fjölbýlishúsi við Álfaskeið og Eyþór rifjaði fyrst upp löngu liðna daga, bernskuárin í litlu bæjarfélagi sem hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum.

Hafnarfjörður æskuáranna

,,Ég er fæddur í Hafnarfirði árið 1930. Foreldrar mínir voru María Jakobsdóttir, ættuð frá Aðalvík, og Þorlákur Guðlaugsson úr Biskupstungunum. Þau hófu búskap í Hafnarfirði árið 1927. Ég er fæddur í húsi við Krosseyrarveginn og var í Hafnarfirði öll mín bernsku- og unglingsár og hef reyndar búið hér í Hafnarfirði þegar ég hef ekki dvalið á Spáni. Við fluttumst að Hlébergi í Setbergslandi og þar bjuggum við í nokkur ár. Þegar ég var fimmtán ára fluttum við í nýtt hús við Öldugötuna sem pabbi byggði. Pabbi var með búskap á Hlébergi og fór síðar að vinna hjá Reykdal í frystihúsinu og um tíma vann hann í timburverksmiðju og hann vann einnig við bílamálningar. Hann var sjómaður á bátum sem voru gerðir út frá Hafnarfirði fyrstu árin hans hér í Firðinum. Við erum þrjú systkinin, ég á tvær systur. Önnur þeirra, Katrín, er nýlega látin, sú yngri, en eldri systirin Sigríður býr í Hafnarfirði."

Var ekki Hafnarfjörður mikill útgerðarbær á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar?

,,Jú, það snerist allt í kringum höfnina og þar lágu oft margir bátar við bryggjur. Í Hafnarfirði voru miklir athafnamenn, stórútgerðarmenn og verslunarmenn eins og Ásgeir Stefánsson, Jón Gíslason, Ingólfur Flygenring og fleiri. Við strákarnir, leikfélagarnir, vorum mikið að veiða smáfisk með handfærum á bryggjunum við höfnina og það var ánægjulegt að alast upp í Hafnarfirði á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar."

Varstu í barna-og unglingaskóla í Hafnarfirði ?

,,Jú, í barnaskóla í Lækjarskóla og lauk þaðan barnaskólaprófi. Síðar fór ég í gagnfræðaskóla í Reykjavík en lauk aldrei því námi, ég var byrjaður að spila á hljóðfæri."

Spilaði upphaflega á harmonikku og kontrabassa

Hvenær kviknaði áhugi þinn fyrir tónlist?

,,Ég man að þegar ég strákur í sveitinni í Biskupstungunum kom þessi mikli áhugi á tónlist. Ég fór á sveitadansleikina og fékk að sjá þessa menn sem voru að spila, t.d. Eirík á Bóli sem var þekktur harmonikkuleikari. Ég eignaðist harmonikku sem var mitt fyrsta hljóðfæri. Ég fór í harmonikkutíma hjá Ólafi Péturssyni sem spilaði þá í hljómsveit Aage Lorange. Ég spilaði stundum á harmonikku í hléum á sveitaböllum í Biskupstungum, þá var ég fimmtán, sextán ára. Ég hlustaði mikið á tónlist í Ríkisútvarpinu, harmonikkutónlist og alls konar tónlist." Þú hefur þá snemma ætlað að gerast atvinnutónlistarmaður?

,,Já, og ég tók þetta föstum tökum strax í byrjun. Það voru miklir atvinnumöguleikar fyrir hljóðfæraleikara um það leyti sem ég var að byrja og það var hægt að hafa ágætar tekjur af að starfa við þetta. Það voru t.d. ágætar tekjur af að spila á sveitaböllum. Það var meiri þörf fyrir hljómsveitir á þessu árum og þetta var meiri vinna. Við komum fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og skíðaviku á Ísafirði og víðar úti á landbyggðinni. Þetta voru að mörgu leyti uppgangstímar ólíkt því sem síðar varð."

Til er hljómsveitarmynd tekin árið 1946 eða ári síðar. Á myndinni stendur þú við kontrabassa. Spilaðir þú á kontrabassa í upphafi ferils þíns sem tónlistarmaður?

,,Já, við vorum að spila saman í hljómsveit í Hafnarfirði á unglingsárum nokkrir strákar, t.d. Matthías Á. Mathiesen. Matthías hafði lært á píanó og átti harmonikku. Við vorum að spila mest að gamni okkar. Það var nú lítið opinberlega, mest í heimahúsum. Skömmu síðar byrjuðum við að spila saman ég, Guðmundur Steingrímsson og Bragi á Sjónarhól á dansæfingum í Flensborg. Gunnar Ormslev kom svo í hljómsveitina. Hann stofnaði síðar hljómsveit sem spilaði nokkuð reglulega á dansleikjum og þá komu Ólafur Gaukur og Steini Steingríms í hljómsveitina. Þá vantaði kontrabassa og ég var til í að leika á hljóðfærið. Þorkell Jóhannesson trompetleikari, bróðir Oliver Steins bóksala, átti kontrabassa sem var falur. Ég keypti kontrabassann og seldi harmonikku sem ég var þá nýbúinn að kaupa frá Danmörku og byrjaði í bandinu nokkrum dögum síðar.

Ég fór síðan að læra á kontrabassa hjá Einari B. Waage og í Tónlistarskólanum og lærði tónfræði og hljómfræði og spilaði með nemendahljómsveit skólans. Upp úr því eða árið 1950 fór ég til Englands í nám í kontrabassaleik í Manchester. Áður hafði ég spilað í hljómsveit í Mjólkurstöðinni og einnig í hljómsveit með Jan Moravék á Birninum. Ég hóf feril minn sem atvinnutónlistarmaður sextán ára."

Gítarinn kemur til sögunnar

Var þetta ekki góður skóli þarna í Manchester?

,,Jú, mjög góður tónlistarskóli. þetta var á eftirstríðsárunum og það voru skömmtunarseðlar í gangi og skortur á ýmsu en ég fékk góða fyrirgreiðslu. Það komu menn frá skólanum og tóku á móti mér og útveguðu mér húsnæði á vegum skólans. Ég var í skólahljómsveitinni sem var stór sinfóníuhljómsveit og æfði daglega og það var auðvitað ómetanleg reynsla. Ég var þarna veturinn 1950. Ég fór að spila á ýmsum djassklúbbum og þar kynntist ég mörgum hljóðfæraleikurum, t.d. John Duarte. Hann spilaði á trompet og hafði mikinn áhuga á gítar. Þegar hann frétti að ég hefði einnig áhuga á gítar og væri aðeins byrjaður að spila á gítar bauð hann mér að koma í klúbb sem þeir voru með nokkrir gítaráhugamenn. Þar komu menn sem spiluðu mikið, t.d. frægur gítarleikari sem hét Terry Usher og varð síðar gítarkennari við skólann þegar gítarkennsla hófst þar. John Duarte fluttist síðar til London og er í dag afkastamikið tónskáld fyrir gítarmúsík. Ég fór síðan til London í nokkra gítartíma til gítarkennara sem þar var með kennslu."

Var það í Hawai-kvartettinum sem þú byrjaðir fyrst að leika á gítar í hljómsveit?

,,Já og það var veturinn 1948-49. Einn meðlima Hawai-kvartettsins var Hilmar Skagfield, sonur Sigurðar Skagfield söngvara. Hilmar var með þessa hljómsveit og ég kom fyrst inn í hana á kontrabassa og síðan á gítar. Við komum mikið fram á ýmiss konar skemmtunum, t.d. í skólum. Það voru stundum söngvarar með okkur. Haukur Morthens söng um tíma með hljómsveitinni.

Eftir að ég hætti í Hawai-kvartettinum spilaði ég um tíma með Kristjáni Kristjánssyni í ýmsum stórhljómsveitum jafnframt því að leika með eigin hljómsveit. Frá árinu 1952 var ég eingöngu með KK sextettinum og var í hljómsveitinni til 1956. Á þeim tíma fórum við bæði til Norðurlandanna og Þýskalands."

Hvenær fórstu fyrst til Spánar í gítarnám?

,,Það var árið 1953. Ég hafði lært eitthvað svolítið í spænsku hjá kennara við Háskóla Íslands. Ég hafði haft samband við kennara í Madríd og fór til hans. Hann hét Daníel Fortea og var mjög frægur gítarleikari og hafði ferðast til fjölmargra landa með konserta. Hann átti mikið gítarasafn og nótnasafn og var einn þekktasti gítarleikari Spánar. Ég byrjaði að læra þarna hjá honum og var hjá honum í tímum í nokkra mánuði. Hann orðinn áttræður og varð fyrir áfalli, fékk heilablóðfall, gat ekki kennt lengur. Mér var ráðlagt að fara til annars kennara, Quentin Esguembre, sem var mjög góður kennari og strangur og hafði verið með marga fræga gítarleikara í námi.

Þar byrjaði ég fyrst að mótast sem gítarleikari. Hann fór í grunninn á gítarnáminu og það var ómetanlegur skóli. Eftir að hafa verið hjá þessum ágæta kennara í nokkrar vikur kom ég svo heim til Íslands og fór að spila með KK sextett í Þórskaffi og á Keflavíkurflugvelli."

Hvað tók svo við þegar þú hættir með KK sextettinum?

,,Ég stofnaði mína eigin hljómsveit, Orion, og með mér í Orion var úrvalsfólk og allt í hópi þeirra bestu á þeim tíma; Sigurður Guðmundsson á píanó, Sigurbjörn Ingþórsson á bassa, Guðjón Ingi Sigurðsson á trommur og Andrés Ingólfsson á altósaxófón. Söngkona með hljómsveitinni var Ellý Vilhjálms. Við spiluðum mikið á Keflavíkurflugvelli og á helstu stöðum í Reykjavík. Við réðum okkur til Þýskalands og spiluðum þar á ýmsum herstöðvum fyrir bandaríska hermenn og til Marokkó upp úr Þýskalandsdvölinni. Við vorum erlendis frá miðju ári 1956 og fram yfir áramót 1957.

Orion-kvintettinn var í Þýskalandi þegar hljómsveitin fékk tilboð um að fara til Marokkó. Við áttum að fljúga með herflugvél frá Frankfurt. Þegar við komum á flugvöllinn og vorum að skrá okkur inn kom einhver náungi með pappíra og sagði að við ættum að skrifa undir prentaðan texta. Það var ekki bara okkar hljómsveit heldur einnig fleiri hljómsveitir sem þurftu að skrifa undir. Í textanum kom fram að ef flugvélin myndi farast væri ameríska ríkið ekki ábyrgt fyrir tryggingum eða öðru. Það var mikið uppistand á flugvellinum vegna þess að menn vildu ekki skrifa undir þetta. T.d neitaði þýsk-hollensk hljómsveit að skrifa undir og hljómsveitin fór ekki með vélinni. Við fórum aftur með vélinni. Þetta var lágfleyg flugvél og við þurftum að setja á okkur fallhlíf og vorum alltaf að spenna fallhlífina af og til. Einn úr áhöfninni hélt ræðu yfir mönnum og sagði að ef fallhlífin væri illa spennt gæti það gerst að menn skæru sig í sundur þegar þeir hentu sér út úr flugvélinni. Við flugum til Marokkó og það flug tók ellefu klukkutíma. Í Marokkó ferðuðumst við á milli herstöðva í flugvél og það kom alltaf sama rullan, að við yrðum að spenna á okkur fallhlífarnar og ef ekki voru til nógu margar fallhlífar var ekki farið í loftið. Það var svo einu sinni að það kom flugmaður fram í farþegaklefann. Við sátum á járnbekkjum með fram gluggunum eins og fallhlífahermenn og sjá má t.d. í bíómyndum. Hann byrjaði að ræða nauðsyn þess að við settum á okkur fallhlífarnar og værum við öllu búnir og tilbúnir því að senn tæki alvaran við. Þá sagði Sigurbjörn Ingþórsson úr Orion kvintettinum: Þú getur alveg sparað þér þessa ræðu þína! Ég hendi mér aldrei út!"

Árið 1956 var tímamótaár. Var ekki rafmagnsgítarinn í aðalhlutverki í rokkinu?

,,Jú, rafmagnsgítarinn var í stóru hlutverki í rokkinu og rokkið var á dagskrá hjá Orion. Ég var fljótur að tileinka mér hina nýju tónlist og lítið mál að spila rokktónlistina. Ég var þá löngu áður byrjaður að spila á rafmagnsgítar og byrjaði að spila á rafmagnsgítar með hljómsveit Björns R. Einarssonar í Breiðfirðingabúð upp úr 1950. Orion kvintettinn spilaði á Akureyri sumarið 1957 og við fórum um allt Norðurland, spiluðum í Vaglaskógi og víðar. Þá höfðu orðið töluverðar breytingar á hljómsveitinni. Gunnar Reynir Sveinsson og Hjörleifur Björnsson voru komnir í hljómsveitina og Guðjón, Sigurbjörn og Sigurður voru ekki lengur í Orion. Þegar við komum aftur til Reykjavíkur spiluðum við í Breiðfirðingabúð framan af vetri 1957 að hljómsveitin hætti að starfa."

Með Svavari Gests og Hauki Morthens

,,Í ársbyrjun 1958 fór ég til Barcelona og í nám í klassískum gítarleik. Kennarinn var þá í tónleikaferðalagi og ekki væntanlegur úr ferðalaginu fyrr en eftir mánuð. Í Barcelona var þá góður vinur minn sem var þá nýkominn frá Ameríku og var á nýjum amerískum bíl og svoleiðis bílar voru ekki á götum á Spáni og bíllinn vakti mikla athygli. Ég fór með honum stutt ferðalag til nokkurra þorpa og lögreglan ruddi göturnar líkt og við værum aðalsmenn eða erlendir þjóðhöfðingjar. Þetta var Magnús Kristjánsson sem settist að á Spáni og bjó allan sinn aldur í Tosca de Mar, sonur Kristjáns Magnússonar listmálara frá Ísafirði."

En síðan hefur alvaran tekið við og kennarinn verið kominn úr tónleikaferðalaginu?

,,Kennari minn var Garcano Tarragó, þekktur meistari hins klassíska gítars. Ég kom til hans í hverri viku. Hann hélt þarna fyrirlestra sem ég sótti. Þetta var nokkuð dýrt nám og ég varð að vinna með náminu. Næstu tvö árin dvaldi ég svo á Spáni, nam klassískan gítarleik og lék á rafmagnsgítar í danshljómsveitum í klúbbum á kvöldin. Þetta voru gullaldarár á Spáni og mikill ferðamannastraumur stil landsins rétt fyrir 1960.

Ég kom heim frá Spáni haustið 1959 en byrjaði með Svavari Gests í ársbyrjun 1960. Það var skemmtilegur tími og við fórum víða um landið og komum fram á tónleikum og skemmtunum og vikulega í útvarpsþættinum ,,Nefndu lagið" sem var með vinsælli útvarpsþáttum á þeim árum.

Á þessum tíma kynntist ég Sigurbjörgu Sveinsdóttur konunni minni og hún fór með mér út til Spánar haustið 1960. Þá byrjaði ég að spila aftur með sömu músíköntum og ég hafði verið með áður. Ég hélt áfram að læra klassískan gítarleik og þá byrjaði Sigurbjörg að syngja með hljómsveitinni. Við vorum þarna meira eða minna á Spáni til 1966 og komum fram í klúbbum í Barcelona, Costa Brava og Mallorca. Við Sigurbjörg komum alltaf heim á haustin, við vorum t.d. með hljómsveit í Leikhúskjallaranum, Sigtúni og á Röðli yfir vetrarmánuðina en spiluðum á Spáni á sumrin. Árið 1968 vorum við Didda með hljómsveit Guðjóns Pálssonar í Leikhúskjallaranum í stuttan tíma. Didda varð flugfreyja hjá Loftleiðum 1968, síðar Flugleiðum og ákvað að hætta að syngja. Didda starfaði sem flugfreyja meðan henni entist aldur en hún fórst í hörmulegu flugslysi í Sri Lanka í nóvember 1978.

Ég var í hljómsveit með Hauki Morthens, hafði reyndar starfað með honum áður, t.d. þegar við fórum með KK til Noregs og Norðurlandanna þá fór Haukur með okkur. Ég hafði einnig verið með Hauki þegar hann tók upp fyrstu plöturnar. Ég var svo í hljómsveit Hauks nokkrum árum síðar, t.d. á Hótel Sögu og Hótel Borg og í Kínverska garðinum í Hábæ. Ég var með Hauki alltaf af og til alveg þar til hann lést . Hljómsveit Hauks Morthens fór t.d. til Kanada og spilaði í Toronto og víðar. Við spiluðum t.d. á Íslendingadeginum í Gimli. Það sem var minnisstæðast úr þeirri ferð var að Haukur var gerður að heiðursborgara í Winnipeg."

Jafnframt því að vera að spila varstu þá einnig við gítarkennslu?

,,Jú. Kennslan byrjaði smátt og smátt og fyrst í Barnamúsíkskólanum. Svo jókst kennslan eftir því sem tónlistarskólunum fjölgaði. Ég var á tímabili að kenna í mörgum skólum, ég kenndi hjá Tónlistarskóla Sigursveins, í Kópavogi, í Hafnarfirði og Garðabæ. Þá var ég með minn eigin skóla í nokkur ár. Ég var einnig með gítarkennslu í Ríkissjónvarpinu hér fyrr árum. Þetta voru fimmtán þættir fyrir byrjendur, það nýttu margir sér þessa kennslu. Þetta var auðvitað ákveðið brautryðjandastarf, gítarkennsla hafði ekki áður verið í sjónvarpi á Íslandi."

Tónlistarferil þinn má rekja allt aftur til ársins 1946. Þú varðst sjötugur í mars á þessu ári. Er ekki ætlunin að minnast þessara tímamóta ?

,,Það verða gítartónleikar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 11. október. Þar verða spiluð klassísk verk eftir mig og útsetningar. Þar koma fram nemendur mínir á ýmsum aldri, gítarleikarar og aðrir þekktir gítarleikarar sem spila samspilsverk eftir ýmsa. Þá verður opnuð ljósmyndasýning 14. október í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar með ljósmyndum frá tónlistarferli mínum og stendur til 30. október. Í salnum í Hafnarborg verða svo djasstónleikar 18. október."