Aage Reinholt Lorange fæddist í Stykkishólmi 29. júní 1907. Hann lést í Reykjavík 2. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Aage Reinholt Lorange og Emilía Lorange, fædd Möller. Bræður hans eru Kaj og Harry, látinn.

Eiginkona Aage var Álfheiður (Stella) Tómasdóttir, foreldrar hennar voru Tómas Jónsson kjötkaupmaður og Sigríður Sighvatsdóttir. Börn Aage og Álfheiðar eru 1) Anna S. Lorange, maki hennar Kristinn Hallgrímsson, látinn, dætur þeirra eru a) Svana Emilía, sonur hennar er Pétur Breki Ásgeirsson. b) Kristín Stella, hennar dóttir er Sara Magnúsdóttir. 2) Emilía Lorange. Maki 1 Snorri Gíslason. Börn þeirra eru a) Anna Stella, hennar dóttir er Emilíana Torrini. b) Áki, börn hans er Snorri og Álfheiður Stella. c) Una, sonur hennar er Sveinn Rúnar Pétursson. Maki 2 Magnús Þór Einarsson, dætur þeirra eru a) Sigríður, dóttir hennar Ísabella Björnsdóttir. b) Elísabet. Maki 3 Hallgrímur Vigfússon, d. 2000.

Útför Aage fer fram frá Laugarneskirkju mánudaginn 9. október og hefst athöfnin klukkan 15.

Aðeins nokkur minningarorð um minn kæra vin og samstarfsfélaga Aage Reinholt Lorange. Hann leit fyrst dagsins ljós 29. júní í Stykkishólmi. Hann var yngstur þriggja bræðra, sonur apótekarans í Hólminum og konu hans Emilíu Lorange (fædd Möller). Bræðurnir hétu: 1) Kaj, lifir 96 ára, 2) Harry, látinn 90 ára, og 3) Aage, nú látinn 93 ára. Faðir þeirra lést skömmu eftir fæðingu yngsta sonarins og ákvað þá móðirin að skíra hann fullu nafni í höfuð föður síns Aage Reinholt Lorange, sem var danskur.

Í huga mér koma minningar frá fyrstu kynnum okkar Aage. Ég hef líklega verið eitthvað um 10 ára að aldri þegar foreldrar mínir komu mér í sveit um sumartímann. Það var að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Einn sunnudaginn kemur hann pabbi minn, Steingrímur læknir, hjólandi á reiðhjóli, alla leið frá Akureyri til að heimsækja mig. Var það mér mikil gleði og þegar hann lagði af stað aftur heimleiðis eftir góðan stans og kaffi, labbaði ég með honum áleiðis uppá veg. Kemur þá ekki þessi fíni bíll eftir holóttum malarveginum (heldur fáséð í þá daga.) Þetta var smart lítill Fiat-bíll, straumlaga, sem var undanfari Volkswagen-bílanna sem síðar komu. Nú renndi bíllinn til okkar og við stýrið var ungur glaðlegur maður, heilsar, spyr bæjarnafna og tíðinda. Þetta var Aage, sem strax þá var farinn að unna bíl sínum og ferðalögum. Þegar hann heyrir svo að pabbi sé á leið heim til Akureyar aftur, spyr hann hvort hann vilji ekki bara þiggja far með sér í bæinn og það sé hægur vandi að binda hjólið aftan á stuðara litla bílsins. Það varð úr. Ekki grunaði mig þá, að leiðir okkar ættu eftir að liggja saman síðar, í svo nánu samstarfi, sem raun varð á, í heimi tónanna. Hann varð ætíð gleðigjafi í sínu starfi og átti ég því láni að fagna að verða einn af hans mönnum þegar hann leiddi gleðilist sína út um landsbyggðina eða hér í bæ. Við lékum saman 8 ár í Oddfellow-húsinu og önnur 8 ár í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og einnig Iðnó og KR.

Að Aage sé nú hniginn í valinn gerir mann hljóðan og hugsi. Á mig sækja spurningar. Skiptir ekki allt um lit, himinhvolfin og löndin? Skiptir ekki öll náttúran um skrúð? Júúú, - og svo er nú líka Guði fyrir að þakka að við fáum að skrýðast andans skrúði þegar stundin er komin, því eitt sinn skal hver maður deyja. Trúa mín er að Aage færi með sér gleði á nýjum leiðum líkt og hann gerði hér á jörð. Kæri Aage, farð þú í Guðs friði.

Þorvaldur Steingrímsson.

Þorvaldur Steingrímsson.