Bláfugl hefur keypt flugvél af gerðinni Boeing 737 300 sem undanfarin ár hefur verið notuð í farþegaflugi fyrir Sterling Airways í Danmörku.
Bláfugl hefur keypt flugvél af gerðinni Boeing 737 300 sem undanfarin ár hefur verið notuð í farþegaflugi fyrir Sterling Airways í Danmörku.
NÝTT íslenskt flugfélag hefur fest kaup á danskri farþegavél og hyggur á fraktflutninga milli Íslands og meginlands Evrópu í upphafi næsta árs. Flugfélagið nefnist Bláfugl eða Bluebird Cargo á ensku.

NÝTT íslenskt flugfélag hefur fest kaup á danskri farþegavél og hyggur á fraktflutninga milli Íslands og meginlands Evrópu í upphafi næsta árs. Flugfélagið nefnist Bláfugl eða Bluebird Cargo á ensku. Stjórnarformaður Bláfugls er Einar Ólafsson sem var fyrsti forstjóri Cargolux. Hann er stjórnarformaður Flugflutninga sem hafa séð um fraktflutninga fyrir Cargolux og önnur fyrirtæki hér á landi. Framkvæmdastjóri Bláfugls verður Þórarinn Kjartansson.

Veruleg fjárfesting

Þórarinn segir að með stofnun flugfélags og kaupum á flugvél sé verið að leggja í verulegar fjárfestingar. Kaupin á vélinni séu að langmestu leyti fjármögnuð í gegnum banka- og peningastofnanir erlendis. Lán hafi verið tekið fyrir vélinni hjá banka sem sérhæfir sig í slíkri fjármögnun. Að sögn Þórarins er vélin sem nú hefur verið keypt ellefu ára gömul af gerðinni Boeing 737 300 og hefur hún undanfarin ár verið notuð í farþegaflugi fyrir Sterling Airways í Danmörku. Aðspurður segir Þórarinn að ekki sé enn búið að ákveða endanlega hvert verði flogið á meginlandi Evrópu. Kveikjan að stofnun sérstaks flugfélags sé auðvitað komin í gegnum Flugflutninga en eigendur Bláfugls verði mun fleiri og gert sé ráð fyrir að hluthafar í flugfélaginu verði á bilinu tuttugu til þrjátíu talsins. Vélin verði afhent í Kaupmannahöfn fyrsta nóvember en henni síðan flogið til Bandaríkjanna þar sem henni verði breytt í fraktvél og taki sú breyting um hundrað daga þannig að vélin komi ekki aftur til Íslands fyrr en um mánaðamótin janúar-febrúar og þá muni reksturinn hefjast. Bláfugl verður staðsettur í Keflavík og þar verða skrifstofur félagsins.

Þurfa að geta boðið upp á tíðari flutninga

Flugflutningar hófu rekstur árið 1994 og er fyrirtækið rekið sem umboðsaðili og söluþjónustuaðili fyrir flugfélög. Að sögn Þórarins er helsta umboð félagsins Cargolux þó Flugflutningar séu einnig með umboð fyrir önnur flugfélög. Eigendur Flugflutninga eru Einar Ólafsson, Þórarinn Kjartansson, Úlfur Sigurmundsson og Elías Skúli Skúlason, sem er framkvæmdastjóri Flugflutninga. Að sögn Þórarins hefur rekstur Flugflutninga gengið vel og vaxið jafnt og þétt á þeim tíma sem félagið hefur starfað. Mikil þekking og reynsla hafi byggst upp hjá fyrirtækinu. Flugflutningar hafa aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og að sögn Þórarins er félagið að fara að taka í notkun nýja 1.500 fermetra vöruskemmu.

Aðspurður segir Þórarinn að meginástæða þess að menn ráðist í það að stofna flugfélag sé sú að það hafi lengi verið ljóst að félagið þurfi að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á tíðari flutninga. Cargolux fljúgi hingað til Íslands tvisvar sinnum í viku frá Evrópu og einu sinni í viku frá Bandaríkjunum. Vélar Cargolux séu hins vegar svo stórar að erfitt sé að bæta í tíðnina. Flugflutningar hafi því lengi haft auga á og skoðað valkosti til þess að bæta úr þessu þó það hafi ekki endilega verið markmiðið að stofna flugfélag. Flugflutningar hafi verið í samstarfi við Íslandsflug á sínum tíma og þannig hafi verið hægt að auka tíðnina en síðan hafi Flugleiðir keypt þann rekstur og það hafi ýtt á Flugflutninga að finna leiðir til þess að auka tíðnina. Þórarinn segir að markaðurinn hér á landi sé farinn að venjast og nota flugfrakt mun meira en áður var. Með tilkomu Flugflutninga hafi valkostir í flugfrakt aukist og aukinnar samkeppni hafi gætt í verði og þjónustu. Að sögn Þórarins er það einkum fiskur og vélar og búnaður í sjávarútvegi, varningur frá lyfjaframleiðendum og hestar, sem Flugflutningar flytja út. Uppistaðan í innflutningnum sé þjónusta við flutningsmiðlanir á Íslandi.