Árni Arent Guðlaugsson kveðst nota Irkið mikið hjá Firmaneti og telur að það spari sér mikinn tíma og fyrirhöfn.
Árni Arent Guðlaugsson kveðst nota Irkið mikið hjá Firmaneti og telur að það spari sér mikinn tíma og fyrirhöfn.
Árni Arent Guðlaugsson, sem situr í stjórn IsIRC, segir að Irkið hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Hann segir að í upphafi hafi fremur lokaður hópur stundað samskipti á Irkinu, svo sem hér á landi í gegnum rásina Iceland.

Árni Arent Guðlaugsson, sem situr í stjórn IsIRC, segir að Irkið hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Hann segir að í upphafi hafi fremur lokaður hópur stundað samskipti á Irkinu, svo sem hér á landi í gegnum rásina Iceland. Þróunin hefði hins vegar orðið sú að fólk hefði stofnað rásir í kringum Iceland-rásina og segja mætti að sama þróun hefði átt sér stað meðal Irkara um heim allan: umfjöllunarefnin yrðu fjölbreyttari með árunum og snerust í raun um allt er snerti mannleg samskipti og hegðun. "Það eru einnig til lokaðar rásir sem eru fyrir fólk með reynslu á Irkinu sem vill ekki fá hvern sem er inn á rásina. Þá er mikið um að fólk sé að kynnast inni á Irkinu, eins og á rás sem er kölluð ASK sem er skammstöfun fyrir aldur, staður og kyn. Á slíkum rásum er ASK-skammstöfun oft notuð til þess að hefja einkasamtöl við aðra á Irkinu. Viðkomandi svarar þá á hvaða aldri hann er, hvar hann er búsettur og hvers kyns hann er. Það fólk sem fer inn á Iceland er á öllum aldri, allt frá ellefu ára fram að fertugu. Algengasti aldurinn er hins vegar 16-18 ára. En almennt á Irkinu er fólk á öllum aldri Fólk kemur inn á Irkið til þess að afla sér þekkingar og upplýsinga eða spjalla við fólk, hvort sem það býr í sama landi eða annars staðar."

Notar Irkið í vinnunni

Árni segir að það sem fram fer á Irkinu er að mestu leyti heiðvirt en það leynast einnig skuggahliðar á því. "Má nefna að vitað er um að glæpamenn, svo sem eiturlyfjasalar, noti Irkið til þess að hafa samskipti sín á milli. Sem betur fer heyrir slík iðja til undantekninga á Irkinu."

Árni segist nú orðið nota Irkið í tengslum við starfið sitt hjá Firmanet, www.firmanet.is, þar sem hann er forritari. "Ég fer því á þessar sérhæfðu rásir þar sem fjöldi forritara heldur sig. Þar get ég spurt spurninga og svarað einhverjum sem þarf á hjálp að halda í tengslum við starfið. Þannig hjálpast allir að en þetta fyrirkomulag sparar mikinn tíma og fyrirhöfn því ég gæti verið heilan dag að finna lausn á einhverju vandamáli. En með því að fara inn á rás eins og #PHP, sem er rás 200 sérfróðra forritara, fæ ég yfirleitt lausn á þeim málum sem ég spyr um."