Stolt móðir með þríburana sína í fanginu.
Stolt móðir með þríburana sína í fanginu.
FJÖLSKYLDA Halldóru Ragnarsdóttur og Jóhanns Péturs Ágústssonar, bænda á Brjánslæk á Barðaströnd, stækkaði til muna á þriðjudag þegar þríburarnir þeirra, tveir drengir og stúlka, komu í heiminn.

FJÖLSKYLDA Halldóru Ragnarsdóttur og Jóhanns Péturs Ágústssonar, bænda á Brjánslæk á Barðaströnd, stækkaði til muna á þriðjudag þegar þríburarnir þeirra, tveir drengir og stúlka, komu í heiminn. Meðgangan gekk að sögn Halldóru mjög vel og var hún fótafær allan tímann "og hefði getað labbað sjálf inn á fæðingarstofu þess vegna".

Halldóra og Jóhann Pétur vissu fyrst af fjölda barnanna í sónarskoðun eftir nítján vikna meðgöngu og sagði Halldóra að fréttirnar hefðu komið svo flatt upp á þau að einu viðbrögðin hefðu verið óstöðvandi hlátur. Tilhugsunin um börnin þrjú hefði svo haldið áfram að vera óraunveruleg "og það er fyrst nú að við trúum þessu". Eins og títt er um fjölburamæður dvaldi hún síðari hluta meðgöngunnar á fæðingardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Eftir tæplega 36 vikna meðgöngu ákváðu börnin svo að tími væri til kominn að kveðja móðurkvið og líta á veröldina, svo að morgni dags á þriðjudag komu þau eitt af öðru með mínútu millibili, fyrst strákur, þá stelpa og svo aftur strákur. Systkinin hafa ekki fengið nöfn enn og ganga undir nöfnunum Jóhannsson a), Jóhannsdóttir b) og Jóhannsson c) á vöggudeildinni, foreldrarnir munu þó bæta úr þessu bráðlega.

Sá elsti þríburanna vó 2144 g við fæðingu og mældist 44 cm á lengd, stúlkan 2600 g og 47 cm og sá yngsti er stærstur barnanna, 49 cm og er jafnþungur systur sinni. Móður og börnum heilsast vel.

Fjölburafæðingin er sérstök að því leyti að foreldrarnir nutu engrar aðstoðar frjósemislyfja nema ef vera skyldi frá "heilnæmu sveitaloftinu" sagði Halldóra í samtali við Morgunblaðið. Tímasetning fæðingarinnar var líka einkar hagkvæm því þar sem hjónin eru fjárbændur þurfti Jóhann Pétur að klára smölun fyrir vestan í tæka tíð fyrir barnsburðinn, sem svo gekk eftir. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá 7. janúar þessa árs voru 9 börn á aldrinum 0-5 ára í strjálbýli Patreksfjarðar, svo þessi eina þríburafæðing hækkar þá tölu um 25%. Hjónin á Brjánslæk leggja því sitt af mörkum við að draga úr fólksfækkuninni í heimabyggðinni.

Litlu krílin þrjú eiga tvo eldri bræður, Markús Inga, 10 ára, og Ágúst Vilberg, tveggja ára, sem að sögn Halldóru "tylla ekki tánum á jörðina fyrir hamingju frekar en pabbi þeirra og við hin". Þess má geta að í sveitum Barðastrandar var víða fáni dreginn að húni til að fagna fæðingu systkinanna.