Bulgar við Volguhné er talin hafa verið miðstöð silfurstraumsins til Norðurlanda. Þaðan lágu verslunarleiðir til Kína og Bagdad. Það var sunnan við Bulgar sem Ibn Fadlan hitti Væringjana á Volgu árið 921.
Bulgar við Volguhné er talin hafa verið miðstöð silfurstraumsins til Norðurlanda. Þaðan lágu verslunarleiðir til Kína og Bagdad. Það var sunnan við Bulgar sem Ibn Fadlan hitti Væringjana á Volgu árið 921.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Ég hef aldrei séð myndarlegri menn, hávaxna sem döðlu pálma, ljósa og rauðbirkna, þeir bera skikkjur yfir aðra öxlina og hafa aðra höndina frjálsa." Svo var Væringjum lýst eftir fund við Volgu árið 921 og jafnframt að þeir væru "skítugri en nokkrar aðrar mannverur"...

HEIMILDIR: Gengið á reka eftir Kristján Eldjárn. Bókaútgáfan Norðri, 1948. Das Hunnenreich eftir Istvan Bóna. Konrad Theiss Verlag, Stuttgart, 1991. Landnáma. Hið íslenska fornritafélag, 1986. Hrafnkelssaga, Íslendingasögur, síðara bindi, Svart á hvítu, 1986. Væringjasaga eftir Sigfús Blöndal, Ísafoldarprentsmiðja 1954. The Bow, Some notes on its origin and development eftir Gad Rausing, Lund 1967. A History of the Vikings eftir Gwyn Jones, Oxford University press 1968. Myndin af beinhringnum er frá Þjóðminjasafni Íslands. Myndin af bronskingjunni og örvaroddinum frá Eystri-Rangá eftir Magnús Reyni. Aðrar myndir eru teknar eða unnar af höfundi í tölvuformi

Væringjar

Við lok tíundu aldar er talið að íbúar Garðaríkis hafi verið orðnir slavneskir að mestu leyti þó samband væri enn mikið við Norðurlönd. Um þær mundir tóku Norðurlandabúar að ganga í her Miklagarðs og lífvörður keisarans varð norrænn og stóð það fram á seinni hluta elleftu aldar. Til eru áreiðanlegar heimildir og samtíma lýsingar Grikkja og Araba á þessu fólki fyrir og um miðja tíundu öld. Lýsingar þessar eiga erindi til okkar, því telja má það frændfólk íslensku landnámsmannanna.

Ekki væri ólíklegt að forfeðrum okkar á fyrri hluta tíundu aldar hefði verið lýst á svipaðan hátt af erlendum sagnariturum.

Ibn Rustah lýsir Væringjum á fyrri hluta tíundu aldar og hefur líklega sjálfur komist til Hólmgarðs. Hann segir þá vera kaupmenn og þrælaveiðara. Hann lýsir þeim sem skartmönnum í víðum hnébuxum, gestrisnum, ódælum og laus höndin innbyrðis enda hafi hólmgöngur verið algengar. (Gæti verið að nafnið Væringjar væri dregið af þeim væringum?) Í orustum stóðu þeir samt saman og börðust sem einn maður. Þeir höfðu presta og fórnuðu guðum sínum karlmönnum, konum og húsdýrum. Fórnin var framkvæmd með hengingu. Þeir heygðu höfðingja sína með skarti sínu, vopnum og dýrgripum. Einnig fylgdu þeim í hauginn fylgikonur þeirra eða eiginkonur. Þetta virðast fornleifarannsóknir staðfesta.

Launsátur voru svo algeng samkvæmt Ibn Rustah, að þeir gátu ekki gengið örna sinna nema með vopnaða félaga með sér.

Þeir ferðuðust um á veturna, söfnuðu þá sköttum í formi silfurs, loðskinna og þræla. Í apríl komu þeir aftur til stöðva sinna í görðunum. Í júní eftir vorflóðin fóru þeir svo niður eftir Dnjepur til Svartahafs. Þeir urðu að koma sér aftur heim um haustið, þar sem keisari Miklagarðs vildi ekki að þeir kæmu sér upp bækistöð allt árið á strönd Svartahafs. Þetta kemur fram í friðarsamningnum frá árinu 945, sem Ingvar Garðaríkiskonungur gerði við Miklagarðskeisara.

Ibn Fadlan hittir Væringja á Volgu árið 921

Tveim áratugum fyrir veru þeirra Þjóstarssona í Garðaríki hitti Ibn Fadlan, ritari sendiráðs kalífans í Bagdad í Bulgar við Volguhnéð Væringa á neðri hluta Volgu. Hann lýsti þeim svo: "Ég hef aldrei séð myndarlegri menn, hávaxna sem döðlu pálma, ljósa og rauðbirkna. Þeir bera skikkjur yfir aðra öxlina og hafa aðra höndina frjálsa. Hver þeirra hefur öxi, hníf og sverð sem þeir bera jafnan. Þeir eru skítugri en nokkrar aðrar mannverur sem ég hef séð." Þessir Væringjar hafa eflaust lítið fengist við þvotta á langri ferð á ánni en hafa þrátt fyrir það getað þvegið sér vel og greitt við hátíðleg tækifæri eins og lengi hefur verið siður hér á landi.

Athygli vekur vopnaburður þeirra sem var nokkuð sem einnig tíðkaðist hér á söguöld og minnir á lýsinguna á Þorkeli lepp á Alþingi árið 945, sem gekk um með höndina á sverði sínu.

Ibn Fallad segir einnig frá drykkjuskap Væringjanna dag og nótt og að stundum deyi þeir með bikarinn í hendi. Ibn Fallad lýsti á hrollvekjandi hátt útför höfðingja Væringja, sem var brenndur í skipi sínu ásamt hestum og öðrum húsdýrum, vopnum og dýrgripum og að síðustu fylgdi honum í dauðann ambátt hans.

Hvaðan kom hornbogi Þormóðs Þjóstarssonar?

Eins og komið hefur fram hér að framan hafa hornbogar víða verið í notkun á þessum tíma bæði innan Garðaríkis og hjá nágrönnum þess.

Sérstaklega má þar nefna Volgu-Búlgara við Volguhnéð. Þar um lá aðalsilfurstraumurinn til Garðaríkis og síðan Norðurlanda um miðja tíundu öld. Þar um lágu verslunarleiðir til Kína og suður um land Kazara til Kaspíahafs og frá Kaspíahafi með úlfaldalestum til Bagdad og Samarkand.

Volgu-Búlgarar hafa verið taldir helstir afkomenda Húna. Búlgarar hafa lengi haft þann sið að krúnuraka sig og bera langt yfirskegg.

Haustið 1996 tók höfundur þessarar greinar eftir skyldleika sem virtist vera milli myndar af hirti á beinplötu úr gröf Húna í bók Istvans Bona um Húnaríkið og myndanna á beinhringnum frá kumlinu við Eystri-Rangá, sem birtust í bók Kristjáns Eldjárns, Gengið á reka.

Þetta varð svo upphafið að því að hann rakti þá slóð sem hér er lýst að hluta.

Svo sérkennilega vill til, að gröf Húnans liggur ekki langt frá landi Volgubúlgara. Hægt væri að ímynda sér að þaðan væri hornbogi Þormóðs Þjóstarssonar upprunninn og bendir gerð þumalhringsins til þess. Hann er sömu gerðar og kínverskir þumalhringir en Bulgar lá einmitt við verslunarleiðina til Kína eða Silkiveginn milli Kína og Bagdad.

Mætti geta sér þess til að þeir bræður Þormóður og Þorkell leppur hafi farið í leiðangur, sem lá fyrst um vatnaskilin Valdai hæðir, svo yfir á Volgu til Bulgar og jafnvel niður á Kaspíahaf.

Líklegt er að bogi Þormóðs hafi verið af líkri gerð og hornbogar, er Avarar, mongólsk, tyrknesk flökkuþjóð, skyld Húnum, notaði.

Avarar höfðu ráðið öllu svæðinu frá Khasakstan til Ungverjalands nokkrum öldum áður og tekið við skömmu eftir að Húnaríkið féll. Á seinni hluta sjöttu aldar voru þeir við mörk Ítalíu og núverandi Austurríkis.

Þeir eru taldir hafa fyrstir notað ístöð í Evrópu.

Bogar Avara voru hornbogar með beinstífingum líkt og húnbogarnir. Þeir voru bognari og beinu eyrun til endanna stærri.

Hvort bogi Þormóðs var keyptur eða tekinn ránshöndum vitum við ekki en hornbogar voru alltaf fágætir og vandsmíðaðir. Gat smíðin tekið allt að tíu ár eins og segir hér að framan. Þeir gengu því frá föður til sonar í sömu ætt og urðu jafnvel meira en tvö hundruð ára gamlir, ef vel var um þá hugsað.

Meiri líkur eru því á því að fyrri eigendur hafi verið allir, þegar þeir létu vopnið af hendi en ekki.

Að minnsta kosti var Gunnar allur þegar hann naut ekki lengur bogans.

Það sem myndirnar á beinhringnum frá Rangá og beinplötunni úr Húnagröfinni frá Khasakstan eiga sameiginlegt eru mynd af hirti og hringir. Fljúgandi örvar eru á beinplötunni en líklega er svokallaður spjótsoddur sem fannst í dysinni við Eystri-Rangá örvaroddur. Þetta hefur Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur bent á. Örvar koma við sögu á báðum stöðum. Í gröf Húnans eru leifar af boga og örvaroddar. Hjörtinn er erfitt að veiða með öðru verkfæri en boga. Í hálsi hjartarins á beinplötunni má sjá ör en annar hjörturinn á beinhringnum hefur hálsband sem túlka má að hafi trúarlega þýðingu. Húnar og þjóðir við Svartahaf og Kaspíahaf höfðu í átrúnaði sínum guðlegar verur í hjartarlíki. Þetta atriði bendir eindregið til austurs. Tréð á hringnum má túlka bæði samkvæmt norrænni goðafræði og austrænni.

Höfundur þessarar greinar hefur sett fram þá hugmynd, að hringirnir á beinhringnum tákni mörk og hafi verið notaðir til að meta fjarlægðir, líkt og listmálari notar þumalfingurinn til að mæla hlutföll í þeirri mynd sem hann er að mála.

Fjarlægðin til skotmarksins skiptir sérstaklega miklu máli við bogskot.

Fornleifafræðingar hafa hallast að þeirri skoðun, að stíll myndanna á beinhringnum og þ.e. dýrin, sem eru samofin til hægri á beinhringnum, tilheyri elleftualdarstíl.

Dysin við Eystri-Rangá nærri Gunnarssteini væri þá, ef rétt væri, ekki í neinu sambandi við bardagann við Knafahóla, sem lýst er í Njálssögu og minnst er á í Landnámu.

Ef það reynist rétt og staðfest af kolefnisgreiningu verður gátan um beinhringinn frá Eystri-Rangá enn dularfyllri.

Þegar litið er til annarra þátta, sem allir benda til að bogi Þormóðs Þjóstarssonar hafi verið hornbogi austan úr Garðaríki og að hann hafi komist eigu Hámundar, föður Gunnars á Hlíðarenda, verður ekki séð að beinhringurinn ráði þar úrslitum enda gæti hann þrátt fyrir það verið þumalhringur til að draga upp boga með.

Örskotslengd Grágásar er augljóslega miðuð við hornboga, sem dregnir eru upp með þumalhringjum. Varla hefði hún verið sett inn í lögin síðar í föðmum og miðuð við hornboga ef ekki hefðu borist hingað til lands fleiri hornbogar úr Austurvegi.

Íslenskir Væringjar um miðja tíundu öld

Merkilega virðist hafa verið algengt á tíundu öld að fara í Austurveg.

Eyvindur Bjarnason frá Laugarhúsum í Hrafnkelsdal var bróðir Sáms, sem hitti Þorkel lepp á Þingvöllum. Samkvæmt Hrafnkelssögu var hann: "Farmaður, nam staðar í Miklagarði, og fékk þar góðar virðingar af Grikkja konungi og var þar um hríð." Hrafnkell Freysgoði vó Eyvind við heimkomuna til að hefna ófaranna gegn þeim Sámi og Þorkeli lepp. Eyvindur hefur farið utan síðar en þeir bræður Þjóstarssynir en samt getað verið samtímis þeim einhvern tíma í Austurvegi. Samkvæmt Hrafnkelssögu var hann sex vetur erlendis. Hann hefur ekki frekar en þeir komist öðruvísi til Miklagarðs en í flokki árásarmanna svo hann hefur dvalist í Garðaríki. Skýringin á liðveislu Þorkels lepps við Sám gæti verið að Eyvindur hafi verið vopnabróðir hans í Garðaríki.

Grís Sæmingsson frá Geitaskarði í Langadal kemur við sögu Hallfreðar vandræðaskálds.

Grís mun hafa verið í Austurvegi um 970 til 980. Þess er getið að hann hafi fengið gullrekið spjót og sverð að gjöf frá Garðskonungi. Hér gildir það sama og áður að hér mun vera um að ræða konung Garðaríkis en ekki Miklagarðs.

Finnbogi rammi Ásbjarnarson á samkvæmt sögu sinni að hafa farið í Austurveg, líklega rétt eftir miðja tíundu öld. Finnbogi sýndi þar krafta sína samkvæmt sögunni með því að lyfta stóli þeim sem Grikkjakonungur sat á og bera hann þannig um. Þetta hefur ekki getað verið Miklagarðskonungur en gæti vel átt við konunginn í Garðaríki.

Gaman væri að ímynda sér að hér væri um Svyatoslav Garðaríkiskonung að ræða, sem lýst er hér að framan og að Finnbogi rammi hefði verið einhvern tíma í liði hans. Næði þannig saga íslenskra aflraunamanna erlendis meira en þúsund ár aftur í tímann.

Sumum hefur fundist, að íslenskir forngripir frá þessum tíma beri meiri einkenni áhrifa frá Eystrasalti en samsvarandi gripir í Noregi. Minna má á að í Hrafnkelsdal eystra hefur fundist frankverskt sverð einmitt sömu gerðar og þau frankversku sverð sem voru ein aðal verslunarvara Væringjanna í Garðaríki.

Ef nokkuð er hæft í Herúlakenningu Barða Guðmundssonar má minna á það að Herúlarnir bjuggu í um tvö hundruð ár við mynni Don eða Tanakvíslar. Heiðnu Herúlarnir riðu til Norðurlanda eftir ósigurinn við Langbarða við Dóná árið 508, þar sem nú mætast Austurríki og Ungverjaland.

Þeir hafa þá enn haft í fersku minni sín gömlu heimkynni á Krím og við Tanakvísl og flutt með sér þekkingu til Norðurlanda á Svartahafi og leiðinni niður Dnjepur. Þess vegna væri vel hægt að ímynda sér að skyldleiki hafi verið með landnámsmönnum Íslands og þeirri þjóð sem lagði leið sína til vatnaskilanna og leiðanna í Austurvegi skömmu eftir komu Herúlanna til Svíþjóðar.

Lokaorð

Hér hefur verið getið nokkurra þeirra atriða, sem styðja þá tilgátu að slóð beinhringsins frá Eystri-Rangá og hornbogans tengist Njálssögu og megi rekja til Austurvegs, til Garðaríkis og landanna þar í kring. Þetta styðja bæði fornrit okkar og form, stærð og útlit beinhringsins. Eftirlíking hans hefur verið gerð og prófuð sem þumalhringur við skot með hornboga og ekkert mælir á móti því að hann hafi verið notaður sem slíkur. Þegar litið er á Landnámu, Grágás, Njáls sögu og Hrafnkels sögu í samhengi, styðja frásagnir þeirra hverja aðra og líkur á því að hér hafi gætt sterkra menningarlegra áhrifa frá Garðaríki. Ferðir landnámsmanna hafa verið tíðari í Austurveg en menn hafi grunað og þaðan hafi borist gripir og vopn eins og hornbogar og frankversk sverð.

HEIMILDIR: Gengið á reka eftir Kristján Eldjárn. Bókaútgáfan Norðri, 1948. Das Hunnenreich eftir Istvan Bóna. Konrad Theiss Verlag, Stuttgart, 1991. Landnáma. Hið íslenska fornritafélag, 1986. Hrafnkelssaga, Íslendingasögur, síðara bindi, Svart á hvítu, 1986. Væringjasaga eftir Sigfús Blöndal, Ísafoldarprentsmiðja 1954. The Bow, Some notes on its origin and development eftir Gad Rausing, Lund 1967. A History of the Vikings eftir Gwyn Jones, Oxford University press 1968. Myndin af beinhringnum er frá Þjóðminjasafni Íslands. Myndin af bronskingjunni og örvaroddinum frá Eystri-Rangá eftir Magnús Reyni. Aðrar myndir eru teknar eða unnar af höfundi í tölvuformi

Höfundur er brunamálastjóri.