Elín Líndal, formaður Jafnréttisráðs, Svava Jakobsdóttir rithöfundur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Helga Kress prófessor, Bjarnfríður Leósdóttir verkalýðsforkólfur, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Páll Pétursson félagsmálaráðherra við afhend
Elín Líndal, formaður Jafnréttisráðs, Svava Jakobsdóttir rithöfundur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Helga Kress prófessor, Bjarnfríður Leósdóttir verkalýðsforkólfur, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Páll Pétursson félagsmálaráðherra við afhend
SEX konur hlutu viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir árið 2000, en þær voru veittar við athöfn á Fiðlaranum á Akureyri síðdegis í gær, þegar 25 ár voru liðin frá kvennafrídeginum. Þær sem hlutu viðurkenninguna eru sr.

SEX konur hlutu viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir árið 2000, en þær voru veittar við athöfn á Fiðlaranum á Akureyri síðdegis í gær, þegar 25 ár voru liðin frá kvennafrídeginum. Þær sem hlutu viðurkenninguna eru sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Bjarnfríður Leósdóttir, Helga Kress, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Svava Jakobsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir.

Páll Pétursson félagsmálaráðherra afhenti viðurkenningarnar og sagði m.a. að nú hefði verið ákveðið að heiðra konur sem haft hefðu áhrif á jafnréttisbaráttuna, konur sem hefðu sýnt að konur geta, vilja og þora.

Elín Líndal formaður Jafnréttisráðs sagði að ákveðið hefði verið að fara þessa leið nú í tilefni aldamóta, en frá árinu 1992 hefði ráðið árlega veitt viðurkenningar fyrir framtak í þjóðfélaginu sem stuðlað hefði að framgangi jafnréttis.

Elín gerði stutta grein fyrir lífi og starfi þeirra kvenna sem viðurkenninguna hlutu.

Auður Eir var fyrst kvenna vígð til prests árið 1974, en hún hefur verið brautryðjandi á sviði kvennaguðfræði hér á landi og hefur þar sýnt óbilandi kjark og mikilvægt fordæmi. Bjarnfríður Leósdóttir er þekktust fyrir kraftmikla baráttu að verkalýðsmálum, ekki síst hagsmunum verkakvenna og átti hún m.a. sinn þátt í því að bónuskerfi var innleitt í frystihúsum.

Helga Kress er ekki síst þekkt fyrir að hrista upp í viðteknum viðhorfum til fornbókamenntanna og var fyrst til að fylgja verulega eftir kenningunni um að höfundur Völuspár hafi verið kona og þá sagði Elín að hún hefði rutt brautina fyrir konur í hinu akademíska karlaveldi og væri enn að.

Um Ingibjörgu Sólrúnu sagði Elín að hún hefði vakið athygli sem afar skelegg og hæf stjórnmálakona og stjórnandi og verið öðrum konum hvatning til dáða. Svava Jakobsdóttir hefur hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín, en í máli Elínar kom fram að hún hefði innleitt nýja tegund feminískra bókmennta á Íslandi. Hún hefði með skrifum sínum og stjórnmálastarfi verið íslenskum konum hvatning til dáða.

"Vigdís er án efa sú kona íslensk sem hefur hlotið mesta viðurkenningu um allan heim fyrir störf sín og líklega hefur enginn karlmaður íslenskur notið jafn almennrar virðingar. Hún hefur verið íslenskum konum ómetanleg fyrirmynd," sagði Elín.