Kveðjuflug Heimfara SÍÐASTA flug á Boeing 727-100 þotu Flugleiða "Heimfara", TFFLG, var farið sl. þriðjudag og lauk þar með 23ja ára kapítula í íslenskri flugsögu, en fyrsta Boeing 727-þota Flugfélags Íslands og fyrsta þota Íslendinga "Gullfaxi" kom til...

Kveðjuflug Heimfara

SÍÐASTA flug á Boeing 727-100 þotu Flugleiða "Heimfara", TFFLG, var farið sl. þriðjudag og lauk þar með 23ja ára kapítula í íslenskri flugsögu, en fyrsta Boeing 727-þota Flugfélags Íslands og fyrsta þota Íslendinga "Gullfaxi" kom til landsins 24. júní árið 1967.

"Heimfari" hét áður "Sólfaxi" og var keyptur til landsins árið 1971, þá þriggja ára gamall, og þjónaði því Flugfélagi Íslands og síðar Flugleiðum í rúmlega nítján ár, lengur en nokkur önnur íslensk millilandaflugvél. Heildarflugtími "Heimfara" í þjónustu Íslendinga var við lendingu í Keflavík á þriðjudaginn alls um 45.927 klst.. Boeing 727-þotur Flugfélagsins og Flugleiða voru aðallega notaðar á Evrópuleiðum félagsins svo og til sólar landaflugs og á flugi til Narssarssu aq á Grænlandi, en þaðan kom "Heimfari" í sínu síðasta flugi. Boeing 727-100-vélar Flugleiða voru ennfremur búnar stórum dyrum á aðalþilfari þannig að þær nýttust til vöruflutninga og tók það skamman tíma að breyta þeim miðað við flutningaþarfir hverju sinni.

Flugstjóri "Heimfara" í þessari síðustu ferð var Frantz Håkansson og með honum Guðbjartur Rúnarsson flugmaður og Bragi Jónsson flugvélstjóri. Þetta var jafnframt síðasta flug Flugleiða þar sem flugvélstjóri var hluti áhafnarinnar en flutstjórnarklefi nýjustu flugvéla Flugleiða er hannaður fyrir tveggjamanna áhöfn. Þessi þróun hefur haft það í för með sér að um sextíu flugvélstjórar Flugleiða hafa hætt störfum á sl. einu og hálfu ári og höfðu sumir þeirra flogið í rúm 40 ár.

"Heimfari" hefur verið seldur til Bandaríkjanna og mun væntanlega verða notuð til vöruflutninga á vegum risafyrirtækisins United Parcel Service - UPS. Héðan fer TF-FLG nk. sunnudag og mun áhöfn Flugleiða fljúga vélinni út.

Morgunblaðið/PPJ

Heimfari á kveðjuflugi yfir Reykjavík.

Þotan renndi sér lágt yfir flugbraut Reykjavíkurflugvallar er hún kvaddi höfuðborgina.