Þjóðgarðsmiðstöðin við Jostedalsjökul er í Strynhreppi en tvær aðrar miðstöðvar eru reknar á öðrum stöðum við jökulinn.
Þjóðgarðsmiðstöðin við Jostedalsjökul er í Strynhreppi en tvær aðrar miðstöðvar eru reknar á öðrum stöðum við jökulinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FIMM HUNDRUÐ ferkílómetrar af ís. Fossar sem falla mörg hundruð metra. Fjölbreytt plöntu- og dýralíf í umhverfi sem sýnir þverskurð af jarð- og landmótunarsögu Noregs.

FIMM HUNDRUÐ ferkílómetrar af ís. Fossar sem falla mörg hundruð metra. Fjölbreytt plöntu- og dýralíf í umhverfi sem sýnir þverskurð af jarð- og landmótunarsögu Noregs. Fagurgræn jökulvötn sem teygja sig um dalbotna milli snarbrattra en þó oft skógivaxinna hamraveggja, gerðum úr hundruða milljóna ára gömlu bergi. Þröngir, jökulsorfnir dalirnir hýsa stærstu lindiskóga Norður-Evrópu. Allt þetta og margt fleira er að finna innan marka Jostedalsjöklaþjóðgarðsins í Noregi.

Ís og snjór árið um kring

Í Noregi eru 18 þjóðgarðar og er Jostedalsjöklaþjóðgarðurinn næststærstur þeirra eða um 1230 km2 að flatarmáli. Jostedalsjökullinn, sem er 487 km2 eða um helmingi minni en Langjökull, er allur innan garðsins. Hann er um 100 km langur og 10-15 km breiður og liggur ofan á fjallshryggnum milli Nordfjarðar og Sognfjarðar. Frá honum teygja tuttugu skriðjöklar sig niður á láglendið og margir þeirra eru vinsælustu ferðamannastaðir Noregs. Þjóðgarðurinn er því að hálfu þakinn ís og snjó allt árið um kring. Nánasta umhverfi jökulsins, þröngir dalirnir og há og brött fjöllin tilheyra einnig garðinum og vegna þess ótrúlega fjölbreytileika dýra og planta á svæðinu er Jostedalsjöklaþjóðgarðurinn fullur af andstæðum í náttúrufari sem eru hans aðalsmerki.

Jökullinn gefur og jökullinn tekur og er hann langt í frá stöðugt fyrirbæri þótt lífvana sé. Háir fossar og jökulsetsblandnar ár veita vatni frá honum og gefa landinu í dalbotnunum líf. En á kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda hafa jökultungurnar skriðið fram og lagt undir sig iðgræna skóga og frjósöm lönd á ótrúlega skömmum tíma.

Bergið á svæðinu er að mestu leyti 1000 til 1800 milljóna ára gamalt gneiss frá frumlífsöld. Jökullinn og árnar hafa í aldanna rás nagað bergið og sorfið djúpa dali og firði í landslagið. Hæsti tindurinn sem eftir stendur er Lodalskåpa, 2083 m hár en til viðmiðunar má geta þess að hæsta fjall á Íslandi, Hvannadalshnjúkur, stendur einnig upp úr jökli og er 2119 m hár.

Ástæður friðunar

Að stofna þjóðgarð við Jostedalsjökulinn er gömul hugmynd en sökum ágreinings um nýtingu landsins var hann ekki stofnaður fyrr en árið 1991. Þegar garðurinn var loks friðaður lágu ótal ástæður þeirri ákvörðun til grundvallar. Í fyrsta lagi er Jostedalsjökullinn sá stærsti á meginlandi Evrópu og vatnakerfi hans mikilvægur þáttur í vatnsbúskap þessa landshluta. Plöntu- og dýralíf svæðisins er einstakt auk þess sem nauðsynlegt var að vernda þau jarðfræðilegu fyrirbæri sem þar finnast. Jökullinn og umhverfi hans er fullt af andstæðum, sérstaklega þar sem lífvana jökullinn og fjölbreytileiki plönturíkisins mætast við skriðjöklana. Norskt landslag einkennist af þröngum dölum og djúpum fjörðum og við jökulinn má sjá náttúruöflin að verki, þau hin sömu og mótuðu allt landið sem er íslaust í dag. Svæðið fellur að stórum hluta undir skilgreininguna ósnortin víðerni þar sem hvergi sjást merki manngerðs umhverfis svo langt sem augað eygir en fá slík svæði af þessari stærðargráðu finnast í Noregi í dag. Innan garðsins má einnig finna ýmis menningarleg verðmæti, t.d. minjar um árþúsunda gamla búsetu manna við jökulinn.

Í dag er þjóðgarðurinn vinsæll viðkomustaður ferðamanna og hundruð þúsunda þeirra heimsækja hann árlega. Aðeins lítill hluti þeirra gengur þó á sjálfan jökulinn sem hefur í gegnum aldirnar gegnt öðru hlutverki en að gleðja augað og veita mönnum innblástur.

Brú milli byggða

Jostedalsjökullinn hefur dregið að ferðamenn í hartnær 200 ár en á öldum áður var fólk þar í öðrum erindagjörðum en að berja stórbrotið landslagið augum. Jökullinn var samgönguæð jöklabyggðanna og frá örófi alda hefur fólk ferðast yfir hann. Löngu áður en umheimurinn vissi af tilvist hans notaði jöklafólkið, þeir sem bjuggu í næsta umhverfi jökulsins, hann sem brú milli byggðanna í austri og vestri. Leiðin yfir jökulinn var sú stysta og fljótfarnasta því dalirnir og fjöllin umhverfis ísbreiðuna voru erfið yfirferðar. Heimildir herma t.d. að allt til ársins 1660 eða þar til íbúar Jostedalsins fengu sína eigin kirkju, hafi þeir gengið vestur yfir jökul og sótt kirkju í Oppstryn. Þá var fé rekið yfir jökulinn frá vestri til austurs á markaði allt til loka 19. aldar og vöruflutningar voru algengir yfir jökulinn.

Fyrstu ferðamennirnir

Snemma á 19. öld fóru fyrstu ferðamennirnir að koma. Margir hverjir voru vísindamenn að safna upplýsingum eða landkönnuðir en einnig komu þangað almennir ferðalangar til að sjá og upplifa víðáttur ísbreiðunnar miklu. Upp úr miðri öldinni fór jöklaferðamennskan síðan í gang fyrir alvöru. Fyrstu ferðamennirnir voru flestir þýskir og enskir aðalsmenn og ný atvinnugrein skapaðist í jöklabyggðunum því enginn hætti sér einsamall á jökulinn heldur þurfti leiðsögumenn sem þekktu svæðið út og inn. Enn þann dag í dag eru jöklaleiðsögumenn flestir heimamenn úr hreppum umhverfis jökulinn.

Nýtt hlutverk jökulsins

Tilgangur jöklaferða hafði þar með breyst og Jostedalsjökullinn hafði fengið nýtt hlutverk, hann var orðinn vinsæll ferðamannastaður. Það var ekki fyrr en með tilkomu bíla og ferja að umferð jöklafólksins yfir jökulinn með fé og vörur minnkaði. En fjöldi ferðamanna jókst að sama skapi og er skemmtiferðaskip fóru að venja komur sínar inn í botn Nordfjarðar fyrir síðustu aldamót jókst tala þeirra hröðum skrefum.

Með tíð og tíma hefur Jostedalsjökullinn tekið sífelldum breytingum og er t.d. í dag helmingi minni en hann var fyrir hundrað árum. Það hefur gert það að verkum að skriðjöklar hans eru sprungnari og brattari en áður og því er erfitt að komast upp á jökulinn. Þetta hefur í för með sér að sérstaks útbúnaðar og kunnáttu er þörf við jöklaferðir í dag og slík ferðamennska er ekki á allra færi.

Ferðamennskan í dag

Líkt og á Íslandi er ferðamennska í Noregi að mestu bundin við hina mildu sumarmánuði. Strax í byrjun maí fara göngu- og skíðagarpar að flykkjast að Jostedalsjöklinum og margir hverjir leggja í 3-4 daga langa göngu langsum yfir jökulinn.

Öll uppbygging fyrir ferðamenn í þjóðgarðinum takmarkast af ströngum reglum sem leyfa sáralitlar framkvæmdir. Því eru allir gististaðir og önnur þjónusta við ferðamenn utan marka garðsins og sömuleiðis skíðalyftur og vélknúin ökutæki (bátar, bílar, snjósleðar) sem er alls ekki leyfilegt að ferðast á í þjóðgarðinum. Jöklaferðamennska á bílum og snjósleðum hefur heldur ekki verið fyrir hendi á Jostedalsjöklinum sökum þess að ómögulegt er að koma slíkum farartækjum upp skriðjöklana.

Skriðjöklarnir helsta aðdráttaraflið

Flestir ferðamenn sem koma á svæðið ráðast í styttri og lengri gönguferðir að tilkomumiklum bláís skriðjöklanna sem eru jafnólíkir og þeir eru margir. Þeir vinsælustu eru vestan megin jökulsins, Kjenndalsjökull og Brekdalsjökull en að honum ganga um 300 þúsund ferðamenn árlega. Vinsældir þeirrar gönguleiðar eru ekki síður gróðursælum Brekdalnum sjálfum að þakka og því að hægt er að kaupa sér ferðir með vagni þangað sem hinn vinsæli og sérkennilegi fjarðarhestur dregur. En hluti ferðamanna lætur sér ekki nægja að virða jökulinn fyrir sér úr fjarlægð og eru jöklaferðir og ísklifur vinsælt. Slík ferðamennska flokkast undir ævintýraferðamennsku sem er að ná auknum vinsældum um allan heim. Fjöldi leiðsögumanna starfar við jökulinn yfir sumarmánuðina og leiðbeinir fránum göngu- og klifurgörpum um hvernig best sé að takast á við jökulinn. Nær óslitið frá árinu 1935 hafa árlega verið haldin námskeið í jöklaferðamennsku víða umhverfis jökulinn í þeim tilgangi að fræða og þjálfa einstaklinga til að ferðast um hann upp á eigin spýtur.

Fjöldi ferðamanna enn að aukast

Að sögn Anne Rudsengen, þjóðgarðsvarðar í Jostedalsjöklaþjóðgarðinum, er erfitt að meta fjölda ferðamanna þar sem ekki þarf að greiða fyrir aðgang að garðinum og gistirými er lítið sem ekkert innan hans. Þó er gróflega hægt að áætla að þeir séu yfir hálf milljón árlega og koma langflestir í garðinn á tímabilinu maí til ágúst. Anne segir að fjöldi ferðamanna hafi aukist talsvert ár frá ári síðan þjóðgarðurinn var stofnaður. En þessi þróun þarf ekki að tengjast alfarið stofnun garðsins í sjálfu sér því fjöldi ferðamanna hefur verið að aukast ört allt frá miðri þessari öld. Jostedalsjökullinn hefur dregið að ferðamenn í tvær aldir en með stofnun þjóðgarðsins er það tryggt að ferðamenn framtíðarinnar fái að njóta hans á sama hátt og ensku aðalsmennirnir sem riðu á vaðið í byrjun 19. aldar.

Upplýsingamið- stöðvar og söfn

Eftir að þjóðgarðurinn var stofnaður var ráðist í byggingu þriggja glæsilegra upplýsingamiðstöðva og safna sem dreifðar eru umhverfis hann. Norska jöklasafnið er í Fjærland, sunnan við Jostedalsjökulinn. Eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna margskonar fróðleik um jökla settan fram með ýmsum hætti, s.s. í kvikmynd og með uppstillingum. Árlega heimsækja safnið um 61 þúsund gestir. Til Breiheimsmiðstöðvarinnar í Jostedalen, austan jökuls koma 16 þúsund gestir árlega en miðstöðin einbeitir sér að því að kynna náttúrufar Jostedalsins og Nigardskriðjökulinn sem er einn sá vinsælasti meðal ferðamanna. Í Þjóðgarðsmiðstöð Jostedalsjökulsins, sem er í Strynhreppi vestan jökuls, eru reglulega settar upp veglegar sýningar á dýra- og plöntulífi í garðinum auk þess sem berg- og steindasafn er þar að finna. Miðstöðina sækja mörg þúsund gestir árlega og hefur þjóðgarðsvörðurinn aðsetur þar.

Byggð í skugga jökulsins

Helmingur Jostedalsjökulsins liggur innan marka Strynhrepps og hafa íbúar hreppsins notið góðs af ferðamennsku á svæðinu en hvergi í Vestur-Noregi er ferðamennska og þjónusta henni tengd eins mikil. Um 25% íbúa hreppsins vinna við þjónustu í opinbera- og einkageiranum og um 19% starfa í hótel- og veitingageiranum en töluverð aukning hefur orðið í slíkum störfum undanfarin ár. Hótel Alexandra í Loen-byggðakjarnanum er stærsta sinnar tegundar á landsbyggðinni, með 200 herbergi og 75 þúsund gistinætur á ári. Nýlega opnuðu eigendur þess annað hótel í næsta nágrenni, Hótel Loen og á þessum tveimur hótelum eru unnin um 150 ársverk og yfir sumarmánuðina starfa þar um 400 manns. Alls eru gistinætur í hreppnum um 400.000 árlega en þar sem leyfilegt er að tjalda utan merktra tjaldsvæða gefur talan ekki fullkomna mynd af fjölda gistinátta.

Ekki mikil áhrif á atvinnulífið

Íbúar í Strynhreppi eru tæplega 7000 talsins. Nils Stöyva, hreppstjóri segir að 30-35 störf í hreppnum séu í beinum tengslum við þjóðgarðinn yfir sumarmánuðina en hann segir ennfremur að garðurinn hafi ekki haft mikil áhrif á atvinnulíf í hreppnum ennþá. Í dag er atvinnulífið fjölbreytt og atvinnuleysi lítt þekkt. Í stærsta fyrirtæki hreppsins, kjötvinnslunni Nordfjordskjött, starfa um 300 manns og mikil vöntun er á starfsfólki. Nils segir um 100 manns vanta til starfa í hreppnum í heild, aðallega við kjötvinnsluna og til ýmissa þjónustustarfa.

Margskonar þjónusta er við ferðamenn í Strynhreppi og eru jöklaferðir, hestaferðir, bátsferðir og skíðaferðir meðal þeirrar afþreyingar sem boðið er upp á. Hægt er að stunda skíði í hreppnum allt árið um kring því á sumrin er vinsælt skíðasvæði opið á Strynfjalli. Þúsundir ferðamanna koma árlega á skíðasvæðið sem er talið besta sumarskíðasvæði Norðmanna. Vonir eru bundnar við frekari uppbyggingu vetraríþrótta fyrir ferðamenn í framtíðinni.

Baráttan um vatnið

Við lifum ekki af því að virða náttúruna fyrir okkur og láta hana blása okkur kjarki og þori í brjóst heldur þurfum við að nýta okkur hana til að lifa. Um þetta eru allir sammála. En ósamkomulagið hefst þegar spurningar um hvar, hversu mikið og hvernig á að nýta náttúruna því margir ólíkir aðilar hafa hagsmuna að gæta.

Landslag í Noregi er vel til þess fallið að nýta til vatnsaflsvirkjana en einnig til útivistar og þar sem virkjanir og ferðamennska í óbyggðum fara að margra mati engan veginn saman er oft háð hörð barátta um landsvæði og hvernig beri að haga nýtingu þeirra.

Jostedalsjökullinn og nánasta umhverfi hans er engin undantekning þar á. Jökulvötnin, árnar og fossarnir eru vænlegir virkjunarkostir en að sama skapi hafa þau gríðarlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilja ferðast í ósnortinni náttúru og slíkum ferðamönnum fer fjölgandi í heiminum í dag. Ýmis önnur sjónarmið hafa í gegnum tíðina mælt gegn virkjun á svæðinu umhverfis jökulinn, t.d. verndun plantna og dýra og jarðfræðilegra fyrirbæra. Baráttan um vatnið við Jostedalsjökulinn hafði staðið yfir í áratugi þegar loksins var ákveðið að friða jökulinn í heild sinni og nánasta umhverfi hans sem þjóðgarð árið 1991.

Virkjun eða verndun?

Fyrir síðari heimsstyrjöld var þegar farið að virkja við jökulinn og eftir stríð réðst norska ríkið í víðtækar framkvæmdir þar sem öllum Norðmönnum skyldi sköpuð atvinna og nóg að bíta og brenna. Margar vatnsvirkjunarhugmyndir urðu til á þessum tíma og nokkrar þeirra voru samþykktar með lögum næstu árin þó að þær kæmust ekki allar til framkvæmda.

Fljótlega fóru raddir verndunarsinna að verða háværari en það var ekki fyrr en árið 1973 sem lögum um verndun vatnsfalla var fyrst beitt á svæðinu með friðun hluta vatnasvæðisins vestan jökulsins. Meðan vatnsföllin þar nutu verndar var farið út í virkjunarframkvæmdir austan megin hans. Verndunarsinnar börðust gegn því en sjónarmið heimamanna, sem vildu aukna velmegun í héraðinu og fá aukin atvinnutækifæri, vógu þungt. Virkjun var því reist í Jostedalnum árið 1978 og strax á níunda áratugnum voru hugmyndir um frekari virkjanir á því svæði samþykktar. Nokkrar virkjanir eru nú við Jostedalinn og er sá hreppur einn sá ríkasti í Noregi.

Baráttan hörðust í Strynhreppi

Á sama tíma voru hugmyndir á lofti um að virkja stóru vatnsföllin vestan jökuls á Stryne- og Loensvæðinu. Þar hefur baráttan um vatnið verið hvað hörðust. Baráttan þar stóð í yfir tvo áratugi og lauk með stofnun þjóðgarðsins. Snemma á 9. áratugnum vildi Statskraft virkja bæði Jostedalsá og á Stryne- og Loensvæðinu. Stórþingið samþykkti virkjanir í Jostedal en hafnaði þeim á Atryne- og Loensvæðinu þar sem ekki lágu nógu ítarlegar rannsóknir á náttúrufari fyrir. En baráttan átti enn eftir að harðna. Þegar voru uppi hugmyndir um að friða Jostedalsjökulinn sem þjóðgarð en þær stönguðust á við þáverandi virkjunarhugmyndir. Árið 1988 tók Stórþingið þá mikilvægu ákvörðun að stofna þjóðgarð við jökulinn en mörk hans voru á þeim tímapunkti ekki ákveðin enda óvíst hvort af virkjunaframkvæmdum yrði á svæðinu. Á sama tíma voru Stryne- og Loenvatnsföllin tekin af verndunarlista sem reitti náttúruverndarsamtök um allt landið til mikillar reiði. Þegar þjóðgarðurinn var formlega opnaður sumarið 1992 var Bödal, Erdal og Sunndal vestan jökulsins haldið utan hans ef til virkjana kæmi þar síðar.

Stríð heimamanna

Íbúar í Strynhreppi og ráðamenn voru langflestir virkjunarsinnar að sögn hreppstjórans Nils Stöyva. Enda bundu þeir vonir við að virkjun myndi gera Strynhrepp að auðugu byggðarlagi líkt og gerst hafði í Jostedalnum austanmegin jökulsins. Að lokum voru það þó verndunarsinnar sem fóru með sigur af hólmi í baráttunni og Stryne- og Loenvatnsföllin voru vernduð á ný með lögum. Margir fögnuðu sigri við stofnun garðsins en flestir heimamanna upplifðu ósigur. Áður en garðurinn var stofnaður höfðu bændur sem áttu land innan hans haft áhyggjur af takmörkunum á nýtingu er þjóðgörðum fylgir en að sögn Nils var komið til móts við þá og nú hafa þeir rétt til að nýta skóginn að einhverju leyti. Einnig vöknuðu spurningar um hvort garðurinn hefði neikvæð áhrif á iðnaðaruppbyggingu í Strynhreppi en Nils telur að sú hafi ekki orðið raunin.

Sátt um garðinn í dag

Í dag er sátt um Jostedalsjöklaþjóðgarðinn meðal íbúa Strynhrepps að sögn Nils og hafa þeir lært að lifa með honum, enda er hann kominn til að vera. Þá hefur verið hafist handa við að nýta sér það aðdráttarafl sem stór jöklaþjóðgarður hefur á ferðamenn og er á stefnuskrá hreppsins að byggja ferðaþjónustu, bæði sumar sem vetur, enn frekar upp á næstu árum. Jostedalsjöklaþjóðgarðurinn er ungur að árum og að sögn Nils hefur stofnun hans enn ekki haft mikil áhrif á fjölda ferðamanna í Strynhreppi en svo mun þó væntanlega fara í framtíðinni. ,,Mikil mótstaða var í hreppnum við stofnun garðsins og því var skynsamlegast að fresta framkvæmdum í þágu ferðaþjónustunnar þar til um hægðist," segir Nils.

Frekari uppbygging ferðaþjónustu

En ferðaþjónustan í Strynhreppi sjálfum á mikla framtíð fyrir sér því ótal möguleikar eru fyrir hendi við frekari þróun hennar og framkvæmd.

,,Ferðamenn sem koma hingað í þeim tilgangi að skoða þjóðgarðinn skilja því miður ekki eftir mikla peninga í Strynhreppi," segir Nils. ,,Staðreyndin er sú að flestir þessara ferðamanna eru svokallaðir bakpokaferðamenn sem vilja helst sofa úti í náttúrunni til að hámarka upplifun sína. Eins og gefur að skilja eru tekjur af slíkum ferðamönnum ekki miklar. En farþegar skemmtiferðaskipa eru mörg þúsund í hreppnum árlega auk annarra ferðamanna er kjósa að gista á hágæða fjallahótelum sem þar er að finna innan um ódýrari hótel, tjaldstæði og dæmigerðar norskar ,,hyttur".

Baráttan heldur áfram

Heimamenn voru flestir á einu máli um að virkja vatn jökulsins og fannst það þjóna sínum hagsmunum best. Verndunarsinnar, bæði úr heimabyggð en þó aðallega utanaðkomandi aðilar og samtök, voru á öðru máli. Niðurstaðan var verndun Jostedalsjökulsins um alla framtíð.

Baráttan um vatnið við Jostedalsjökulinn er því gott dæmi um þá árekstra sem geta orðið milli svæðisbundinna (virkjunarsinna) og landsbundinna (verndunarsinna) sjónarmiða og hagsmuna. En baráttan um vatnið heldur áfram á öðrum svæðum í nágrenni jökulsins, nú sunnan og norðanmegin hans. Enn á ný eru náttúru- og umhverfisverndarsinnar tilbúnir að berjast fyrir friðun vatnsfalla og virkjunarsinnar fyrir nýtingu þeirra til arðbærrar raforkuframleiðslu.