ÖSSUR hf. hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á öllum hlutabréfum í bandaríska fyrirtækinu Century XXII Innovations Inc., en fyrirtækið hefur hannað og framleitt stoðtæki fyrir þá sem misst hafa fætur við hné. Fyrirtækið hefur m.a.

ÖSSUR hf. hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á öllum hlutabréfum í bandaríska fyrirtækinu Century XXII Innovations Inc., en fyrirtækið hefur hannað og framleitt stoðtæki fyrir þá sem misst hafa fætur við hné. Fyrirtækið hefur m.a. fengið viðurkenningu fyrir hönnun sína á Total Knee vökvahnjáliðum, en þessir gervihnjáliðir passa vel við gervifætur sem framleiddir eru af FlexFoot fyrirtækinu, sem Össur keypti fyrr á þessu ári.

Stefnt er að því að undirritun kaupsamnings fari fram 1. desember nk., hafi þá öllum skilyrðum verið fullnægt, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Össuri hf. Einnig kemur þar fram að vegna stöðunnar í samningum kaupenda og seljenda sé ekki hægt að greina frá kaupverði Century XXII á þessu stigi málsins. Allar slíkar upplýsingar munu hins vegar liggja fyrir á hluthafafundi sem haldinn verður hjá Össuri hf. í nóvember.