Kjartan Örvar
Kjartan Örvar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í sumum tilvikum, segja Kjartan Örvar og Kristján Guðmundsson, getur vélindabakflæði leitt til þráláts hósta

ÞESSA dagana fer fram sérstök vitundarvakning um vélindabakflæði þar sem þekking á þessum sjúkdómi er lykill að meiri lífsgæðum. Þessi vitundarvakning er átaksverkefni á vegum Félags sérfræðinga í meltingarsjúkdómum í samvinnu við Landlæknisembættið, evrópska meltingarlæknafélagið (ESGE) og Félag íslenskra heimilislækna en auk þess koma ýmis önnur sérfræðifélög lækna að þessu verkefni. Vélindabakflæði er afar algengt vandamál hér á Íslandi og í nýlegri Gallupkönnun kom fram að 48,5% Íslendinga hafa einkenni vélindabakflæðis árlega og fjórðungur þjóðarinnar einu sinni í mánuði eða oftar. Allmikið ber á þekkingarskorti almennings á vélindabakflæði, margir virðast ekki leita sér aðstoðar og fá þar af leiðandi ekki viðunandi meðferð. Langalgengasta einkenni bakflæðis er brjóstsviði sem er hita- eða sviðaóþægindi undir bringubeini og margir hafa nábít þar sem magasýrur og hálfmelt fæða leitar upp í munninn. Í þessari grein ætlum við hins vegar að ræða lítillega tengsl vélindabakflæðis við ýmis einkenni frá hálsi.

Einkenni frá hálsi og vélindabakflæði

Langflestir sjúkdómar í hálsi eru staðbundið vandamál sem tengist ekki bakflæði. Þannig getur barkabólga, bólga í raddböndum, sýkingar og jafnvel æxli gefið einkenni frá hálsi sem bæði geta verið erfið og þrálát. Aðeins í einstaka tilvikum eru óþægindi frá hálsi tengd vélindabakflæði. Því er mikilvægt að allir þeir sem fá einkenni um langvinnan hósta, hæsi eða kökk í hálsi, leiti fyrst til læknis sem getur gert ítarlega skoðun á munnholi og hálsi til að útiloka staðbundna sjúkdóma sem orsök einkennanna. Ef ítarleg skoðun á hálsi leiðir ekki í ljós sérstaka ástæðu er rétt að hafa í huga möguleikann á vélindabakflæði sem orsök. Í sumum tilvikum getur vélindabakflæði leitt til þráláts hósta sem getur m.a. orsakast af barkabólgu, breytingum í barkakýli og/eða umhverfis raddbönd. Stundum getur vélindabakflæði valdið bólgu á raddböndum. Jafnvel getur myndast sár og leiðir það oft til þrálátrar hæsi. Vélindabakflæði getur einnig leitt til óþæginda í hálsi, eins og eitthvað sitji þar fast og jafnvel að erfitt sé að kyngja og hefur þetta stundum verið nefnt kökkur í hálsi. Ekki er alveg ljóst hvers vegna vélindabakflæði veldur þessum hálsóþægindum en talið er að annaðhvort komist magasýran alla leið upp í háls og erti slímhúðir þannig að þær bólgni upp eða þá að sýran ertir taugaenda neðst í vélindanu þannig að fram komi einkenni í hálsinum í gegnum taugastjórnun. Einkenni frá hálsi tengd bakflæði geta orðið mjög þrálát og eru dæmi um einstaklinga sem hafa haft bæði hósta og hæsi í mörg ár án þess að fá viðunandi meðferð. Á síðustu árum hafa læknar orðið mjög meðvitaðir um þennan möguleika og hafa reynt að rannsaka þá m.t.t. bakflæðis auk þess að gefa viðunandi meðferð. Yfirleitt þarf alltaf að rannsaka viðkomandi fyrst áður en hægt er að hefja lyfjameðferð við bakflæði og er þá mjög mikilvægt að ítarleg skoðun á hálsi hafi verið framkvæmd áður til að útiloka bólgur, æxli og sýkingar. Ef slík rannsókn leiðir ekki í ljós sérstaka ástæðu er farið út í að rannsaka viðkomandi m.t.t. bakflæðis og þá venjulega gerð speglun á vélinda til að útiloka bólgur neðst í vélinda og oft í frh. af því er gerð svokölluð sýrustigsmæling.

Sýrustigsmæling

Sýrustigsmælingin er framkvæmd á þann hátt að grannur leggur er þræddur í gegnum nefið, niður í vélinda og sýrustigið mælt í vélindanu í 24 klst. Viðkomandi er venjulega heima hjá sér og fer til vinnu og merkir inn á sýrustigsmælitækið hvenær hann hefur óþægindi. Eftir sólarhringinn er þráðurinn fjarlægður og upplýsingar um sýrustig í vélinda eru skoðaðar. Ef gott samband er á milli óeðlilega mikils magns af sýru í vélinda og einkenna, er talið líklegt að viðkomandi hafi einkenni tengt sýrubakflæði. Þá er venjulega hafin lyfjameðferð með svokölluðum prótónupumpuhemjurum sem draga verulega úr sýruframleiðslu í maga því það virðist vera sem sýran í maganum sé það sem erti og valdi þessum óþægindum. Oft þarf að meðhöndla viðkomandi í nokkra mánuði til að ná fram fullum árangri á meðferðinni og ef slíkur árangur fæst þarf yfirleitt að halda áfram meðferð þar sem við höfum í raun og veru ekki ráðist á orsök vandansheldur höfum við dregið úr sýruframleiðslunni og þannig líður viðkomandi mun betur. Þurfa sumir því að fara á langvarandi lyfjameðferð en einnig má hafa í huga sérstaka skurðaðgerð til að koma í veg fyrir það að sýran flæði úr maganum upp í vélinda.

Skert lífsgæði

Þannig geta ýmis önnur einkenni fylgt vélindabakflæði heldur en einungis brjóstsviði og allir sem hafa stöðuga hæsi, særindi í koki, kökk í hálsi og langvinnan hósta, sem ekki hefur fundist skýring á, ættu að ræða við lækni sinn um hugsanleg tengsl á milli þessara einkenna og bakflæðis. Ómeðhöndlað bakflæði skerðir lífsgæði fólks og atorku sem kemur fram í bæði andlegri og líkamlegri vanlíðan og erlendar rannsóknir hafa sýnt að fjarvistir frá vinnu og skert starfsgeta getur fylgt ómeðhöndluðum einstaklingi semhaldinn er bakflæði.

Kjartan er sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum og Kristján er sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum.