Elíza Geirsdóttir, söngkona Bellatrix, í stjörnustríðsstellingum í kjól eftir Kristínu Berman.
Elíza Geirsdóttir, söngkona Bellatrix, í stjörnustríðsstellingum í kjól eftir Kristínu Berman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristína Berman heitir ungur nemi í textílhönnun sem var boðið að vinna hjá breska fatahönnuðinum Vivienne Westwood í sumar, sem er harla óvenjulegt. Hún gerði meira en starfa hjá Westwood, því hún hannaði líka kjól fyrir Elízu í Bellatrix sem byggðist á innblæstri úr Star Wars-myndunum.

KRISTÍNA stundar nám við Listaháskólann og á fáeina mánuði í að ljúka BA-prófi í textílhönnun. Skipta má textíl og textílnámi í lista- og hönnunarsvið, en til eru textílmenntaðir listamenn svo og textílmenntaðir hönnuðir (iðnhönnuðir, leikhúshönnuðir og fatahönnuðir). Kristína segist tilheyra listasviðinu, með föt sem sinn miðil, þótt hún sé enn að komast að því hvað hún vilji gera. "Ég hef kynnst hrárri fatahönnun og hún höfðar ekki sérstaklega til mín. Ég er ekki eins mikið að hugsa um manneskjuna, en þegar ég var að hanna fyrir Elízu var ég að hugsa um hana, því hún þurfti að geta sungið og hreyft sig í kjólnum, þannig að það var mjög gagnleg vinna."

Í sumar var Kristína í Lundúnum og vann hjá fatahönnuðinum fræga Vivienne Westwood. Hún segir það hafa komið þannig til að hún sigraði í Smirnoff-hönnunarkeppninni á síðasta ári, en svo vildi til að sonur Westwood var í dómnefndinni. "Honum leist svo vel á flíkurnar sem ég var með í keppninni að hann bauð mér að koma út að kynnast því sem hún væri að gera og vinna hjá fyrirtækinu í sumar," segir Kristína. Hún fór utan í maí og var fram í septemberbyrjun og segir að dvölin úti hafi verið mjög góður skóli.

"Það kom mér svolítið á óvart hvað þetta var mikil fjöldaframleiðsla, ég átti von á að það væri meiri glæsileiki. Hann er vitanlega til en hin framleiðslan borgar fyrir það. Ég byrjaði að sníða efni og klippa eins og allir sem koma inn sem lærlingar. Mestallan tímann var ég svo aðstoðarmaður karlhönnuðarins hennar og fór meðal annars með honum á karlasýninguna í Mílanó í júlí. Það var rosalega skemmtilegt og ekki síst að kynnast því hvernig hann vann og hvernig þessi heimur er."

Ævintýraleg vinna

Þeir sem komið hafa baksviðs á fatasýningu hafa kynnst því hvað æsingurinn er mikill og hamagangurinn með alla hönnuði og saumafólk vansvefta og uppspennt. Kristína segir að svo hafi þetta einmitt verið í Mílanó. "Það er allt unnið í törnum. Þannig hafa þeir kannski þrjá mánuði til að undirbúa sýningu en gera ekkert í tvo mánuði og svo er allt unnið á mettíma. Ég skildi ekki alveg af hverju hann vildi hafa þetta svona eftir að hafa verið í fatahönnun í aldarfjórðung," segir Kristína og á við hönnuðinn sem hún vann með. "Ég hef vissan áhuga á að vinna svona, þetta var ævintýralegt, en held að ég myndi vilja vera aðeins betur undirbúin ef ég væri á þessu sviði."

Kristína segist ekki vilja fara aftur til Westwood að loknu námi þótt henni standi það til boða. "Ég vil mennta mig á öðrum sviðum. Þessi reynsla skiptir mig miklu máli, en ég myndi vilja afla mér annars konar annars konar reynslu, hjá öðrum hönnuðum eða bara á allt öðru sviði," segir Kristína, en hún stefnir líka á framhaldsnám erlendis, þótt hún sé ekki búin að gera upp við sig til hvaða lands hún myndi halda eða í hvaða nám.

Kjóll fyrir Jediwannabe

Eins og getið er í upphafi hannaði Kristína kjól fyrir Elízu Geirsdóttur, söngkonu Bellatrix. Hún segir að umboðsmaður Bellatrix, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, hafi hringt í sig og beðið sig um að koma á fund með þeim Elízu. "Ég fór svo í grillveislu heima hjá henni Önnu Hildi í London og sýndi þeim Elízu kynningarmöppuna mína. Í framhaldi af því var svo ákveðið að ég myndi hanna kjól fyrir hana sérstaklega fyrir lagið Jediwannabe sem var endurútgefið í sumar. Ég horfði því á allar Star Wars-myndirnar og fékk þar mikinn innblástur, sótti línur og form úr þeim, þannig er beltið á kjólnum vísun í Harrison Ford og svo má telja."

Kristína segir að efnin í kjólnum séu ekkert sérstaklega vel valin textílefni "og ég hugsa að textílfók eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum með mig þegar það heyrir að ég er að nota mikið gerviefni og lítið af náttúrulegum efnum. Ég hafði bara ekki tíma til að þróa í kjólinn textílefni en þetta virkaði, ég er mjög ánægð með kjólinn."