Reykhólabrúðkaup. Þá voru sögur sagðar og hlegið. - Mynd úr frönsku handriti.
Reykhólabrúðkaup. Þá voru sögur sagðar og hlegið. - Mynd úr frönsku handriti.
1462 Enn eitt brúðkaupið á Reykhólum. Björn Þorleifsson heldur veglega veislu fyrir Andrés Guðmundsson og konu hans.
1462 Enn eitt brúðkaupið á Reykhólum. Björn Þorleifsson heldur veglega veislu fyrir Andrés Guðmundsson og konu hans. Í raun tilraun hirðstjórans til þess að tryggja frið og sættir

Andrés Guðmundsson og Þorbjörg Ólafsdóttir héldu brúðkaup sitt á Reykhólum 1. ágúst. Andrés er óskilgetinn sonur Guðmundar Arasonar.

Brúðkaupið var haldið í skjóli Björns Þorleifssonar og kostaði hann til þess sextíu hundruðum. Björn og Þorleifur, sonur hans, gáfu Andrési höfuðbólið Fell í Kollafirði og margar jarðir aðrar og fjármuni af ýmsum toga.

Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna þeir Skarðsfeðgar standa svo höfðinglega að málum gagnvart Andrési. Andrés á ekki lögum samkvæmt arfsrétt eftir Guðmund, föður sinn. Andrés fær hér viðlíka rétt og Loftur ríki rétti í gjafabréfi óskilgetnum sonum sínum og Kristínar Oddsdóttur.

Heimildarmenn okkar telja að með þessu viðhafnarmikla brúðkaupi og höfðinglegu gjöfum hafi þeir feðgar, Björn og Þorleifur, treyst frið og öruggar sættir við þann niðja Guðmundar Arasonar sem helst var að vænta uppreisnar af. Björn Þorleifsson er auk þess í miklu vinfengi við tengdaforeldra Andrésar. Á hitt er og að líta að miðað við þær eignir og umsýslu sem Björn fékk af Guðmundareignum Arasonar er sá kostnaður sem hann nú efndi til einungis smávægilegur.

Með brúðkaupi þessu og nýafstaðinni konungsför Björns, þar sem þeir konungur gengu frá eftirmálum vegna Guðmundareigna á Vestfjörðum, má heita að vegur Björns hafi aldrei verið meiri. Hann ræður nú nánast því sem hann vill ráða í landinu.