Gunnlaugur Björnsson
Gunnlaugur Björnsson
Tímareikningur alls staðar í heiminum, segir Gunnlaugur Björnsson, er miðaður við göngu sólar.

LAGT hefur verið fram á Alþingi "Frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi." Það er einungis fjórar greinar og því fljótlesið.

Afleiðingar þess, nái það fram að ganga, eru hins vegar víðtækar og varla til bóta.

Það er þó greinargerðin sem fylgir frumvarpinu sem hér verður tekin til umfjöllunar enda með fáheyrðum ólíkindum.

Tímareikningur alls staðar í heiminum er miðaður við göngu sólar. Reynt er að haga honum þannig að hádegi sé sem næst þeim tíma þegar sól er hæst á lofti (í hásuðri), einnig í þeim löndum þar sem skipt er á milli vetrar- og sumartíma.

Á vorin er klukkunni þá flýtt um eina stund og kallast það sumartími. Á haustin er henni seinkað aftur og er þá sem næst göngu sólar. Er það víða nefnt vetrartími eða staðaltími.

Á Íslandi er tímareikningur skv. lögum nr. 6, 1968 og er sumartími (flýtt klukka) í gildi árið um kring. Ef taka ætti upp þann sið aftur að breyta klukkunni tvisvar á ári, ætti að gera það á sömu forsendum og aðrar þjóðir. Það þýðir að á haustin yrði tekinn upp vetrartími og klukkunni seinkað um eina stund frá því sem nú er og svo flýtt aftur að vori. Þetta er nákvæmlega það sem aðrar þjóðir gera og er það sem almennt er átt við með hugtakinu sumartími. Afleiðingin fyrir okkur yrði þá sú að tveggja stunda munur yrði á milli Íslands og Vestur-Evrópu allt árið að Bretlandi undanskildu þar sem tímamunurinn yrði ein klukkustund.

Í tímareikningsfrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að hugtakið sumartími fái nýja merkingu. Lagt er til að klukkan verði færð til þannig að hádegi verði um kl. 14:30 og þar með víðs fjarri raunverulegu hádegi.

Slíka endurskilgreiningu og í raun misnotkun á hugtakinu sumartími er hvergi að finna annars staðar í Evrópu. Tímareikningur samkvæmt þessari breytingu hefur engin tengsl við þær aðferðir sem notaðar eru í öllum öðrum löndum. Helsti hvatinn að baki slíkri breytingu er að minnka tímamuninn til Evrópulanda.

Að sama skapi eykst hann um eina stund til Ameríku. Það gerir væntanlega viðskipti í þá áttina mun erfiðari en hingað til hefur verið ef rökin í greinargerðinni gilda einnig um þá sem eiga viðskipti til vesturs. Spyrja má hvort eðlilegt sé að mismuna þeim er stunda inn- og útflutningsviðskipti með þeim hætti sem augljóslega verður ef frumvarp þetta verður samþykkt? Önnur rök sem finna má í greinargerðinni eru lítið betri. Til dæmis er nefnt að forráðamenn íslenskra fyrirtækja kvarti undan stuttum samskiptatíma við fyrirtæki í Evrópu. Margir þeirra hafa raunar sjálfir fundið svar við þessu og hafa sín fyrirtæki opin frá 8-16 á sumrin og 9-17 á veturna en það gefur sama samskiptatíma til Evrópu allt árið. Víðast er þessari breytingu á vinnutíma vel tekið hjá starfsfólki enda mörgum kærkomið að geta hætt dagvinnu fyrr á sumrin. Ef breyting sú sem frumvarpið leggur til nær fram að ganga, þýddi það að opnunartími fyrirtækja hér á landi yrði 9-17 allt árið ef halda ætti óbreyttum samskiptatíma til Evrópu.

Þar með er frítími starfsfólks eftir vinnu á sumrin í raun styttur frá því sem nú er og gengur það þvert á það sem nefnt er í greinargerðinni um bættan vinnutíma fólks.

Í greinargerðinni er getið um nokkrar mótbárur sem bárust við fyrri framlagningu frumvarpsins en það hefur dagað uppi þrisvar sinnum til þessa.

Er sérstaklega rætt um umsögn sérfræðinga um hugsanleg áhrif slíkrar breytingar á heilsufar fólks. Höfundar frumvarpsins vísa þessari umsögn frá, aðallega með þeim rökum að samanburðarrannsóknir skorti svo unnt sé að meta líkleg áhrif slíkrar breytingar. Sjálfir fullyrða þeir hins vegar að möguleikar almennings til að nýta sér betur birtuna um vor og fram á haust séu til þess fallnir að skapa betra mótvægi gegn áhrifum skammdegisins sem ríkir hér á norðurslóðum.

Slík staðhæfing höfunda frumvarpsins er ekki rökstudd með neinum gögnum og engar samanburðarrannsóknir liggja fyrir sem styðja slíka fullyrðingu.

Hún hlýtur því að dæmast að minnsta kosti jafnmarklaus og umsögn sérfræðinganna.

Fleira í sama dúr mætti tína út úr greinargerðinni en hér verður einungis minnst á eitt atriði til viðbótar. Í greinargerðinni segir "Ekki hafa borist neinar spurnir af því að geðheilsa íbúa vesturstrandar Írlands sé sérstaklega slæm eða að þar séu svefntruflanir meðal almennings meiri eða heilsufar almennt verra en gengur og gerist. Þvert á móti er mikill efnahagslegur uppgangur á vesturströnd Írlands og þar hefur tekist mun betur að skapa ný störf og laða að fólk en á Austurlandi, þrátt fyrir sumartímann." Hér gengur röksemdafærslan lengra en boðlegt er. Fyrst er því haldið fram að geðheilsa íbúa á vesturströnd Írlands hafi ekki borið skaða af hringli með klukkuna enda hafi ekki "borist neinar spurnir af því" og kann það að vera rétt. Hins vegar má líka skilja ofanritað svo að efnahagslegur uppgangur raskist ekki af því að klukkunni er breytt með reglulegu millibili. Ekki er orði á það minnst að uppgangurinn stafar af markvissum aðgerðum þarlendra stjórnvalda við uppbyggingu hátækniiðnaðar og hefur nákvæmlega ekkert með tímareikning að gera. Að bera aðgerðir Íra saman við aðgerðir til að laða fólk til Austurlands og spyrða það saman við hringl með klukkuna er málatilbúnaðinum ekki til framdráttar. Rökin fyrir breytingu á tímareikningi sýnast því að þessu leytinu mun léttvægari en umsögn sérfræðinga geðdeildar Landspítalans enda sem fyrr ekki byggð á neinum gögnum. Órökstuddar fullyrðingar eru látnar duga.

Upptaka á nýrri tegund af sumartíma, svo sem lagt er til í frumvarpinu, er hugsanlega nokkurt hagsmunamál fyrir sum fyrirtæki í landinu en alls ekki öll. Alls ekki er sýnt fram á að mannlífið yrði neitt betra enda erfitt að sjá hvernig lítt rökstuddar fullyrðingar greinargerðarinnar geti gengið eftir þar sem engar samanburðarrannsóknir í þessa veru hafa verið gerðar. Ekki er heldur líklegt að þær verði gerðar, a.m.k. eru stórþjóðir í Evrópu þegar farnar að viðra hugmyndir um að afnema hringl með klukkuna. Það sparar augljóslega mikla fyrirhöfn.

Ef "Frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi" og greinargerðin sem því fylgir er dæmigerð fyrir vinnubrögð þingmanna sýnist mér að veruleg ástæða sé til að óttast framtíðina. Vonandi ber Alþingi gæfu til að afskrifa þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Höfundur er stjarneðlisfræðingur.