Líkamsleifar fórnarlamba slyssins færðar um borð í þyrlu sem flutti þær til rannsóknar í Salzburg.
Líkamsleifar fórnarlamba slyssins færðar um borð í þyrlu sem flutti þær til rannsóknar í Salzburg.
FRUMRANNSÓKN á slysinu í austurrísku toglestinni bendir til bilunar áður en hún fór inn í göngin við bæinn Kaprun. Nær 160 manns fórust í slysinu.
FRUMRANNSÓKN á slysinu í austurrísku toglestinni bendir til bilunar áður en hún fór inn í göngin við bæinn Kaprun. Nær 160 manns fórust í slysinu. Að sögn Christina Tisch, sem vinnur að rannsókn slyssins, bendir rannsókn á braki lestarinnar til þess að tæknilegir örðugleikar hafi komið upp rétt eftir að toglestin fór af stað. Brak, sem fundist hefur á lestarteinunum fyrir utan munna jarðganganna, sem lestin fer um á leið á áfangastað, bendir til þess að kviknað hafi í lestinni áður en hún fór inn í göngin.

Tisch greindi frá þessu á blaðamannafundi í gær og sagði einnig að hlutarnir hefur verið sendir í frekari rannsókn og er niðurstöðu hennar vænst á næstu dögum.

Tisch sagði lestina, af óútskýranlegum orsökum, síðan hafa stoppað þegar hún var komin 600 m inn í göngin sem alls eru 3,2 km á lengd. Hann staðfesti einnig þann orðróm, sem hafði heyrst, að vagnstjóri lestarinnar hefði haft samband við stjórnstöð sem gat ekki endurræst toglestina.

Ekki er ljóst hvort hægt var að opna dyr lestarinnar eftir að hún stöðvaðist en Tisch sagði að gera yrði ráð fyrir að vagnstjórinn hefði opnað þær. Þetta eru fyrstu staðfestu upplýsingar sem berast af orsökum slyssins en einn þeirra sem komst lífs af úr slysinu hafði greint frá því að farþegar hefðu fundið reykjarlykt í toglestinni rétt eftir að hún lagði af stað.

Björgunarsveitarfólk vann við gífurlega erfiðar aðstæður að því að ná líkum fórnarlambanna í gærdag. Þau eru mörg afar illa farin og verður notast við samanburð á DNA-erfðaefni til að bera kennsl á hina látnu.

130 lík fundin

Líkamsleifarnar verða fluttar til Salzburg til rannsóknar og hafa 130 lík þegar verið flutt þangað. Síðdegis í gær fór veður versnandi sem eykur á erfiðleikana við flutning líkanna.

Ekki hefur verið staðfest hve margir létust í slysinu en talið er að tala látinna sé á bilinu 156-159. Hópur sálfræðinga hefur veitt ættingjum hinna látnu áfallahjálp undanfarna daga.

Slysið er fjórða alvarlega slysið í austurrísku Ölpunum á undanförnum tveimur árum. Austurrísk yfirvöld hafa síðan á laugardag reynt að draga úr áhyggjum af öryggismálum í Ölpunum. Kanslari Austurríkis, Wolfgang Schüssel, sagði skömmu eftir slysið að Austurríki væri meðal fremstu þjóða í öryggismálum.

Kaprun. AP, AFP.