Ljóðaþýðingar eftir Gyrði Elíasson. 118 bls. Mál og menning. Prentun: Oddi hf. Reykjavík, 2000.

Með hverjum degi færri möguleikar færri útgönguleiðir, færri fyrirheit. Draumurinn hefur farið yfir miðbaug, dyr himnaríkis skella í lás. Skýin æða inn í tunglið Ég get ekki sofið.

HEITI bókarinnar er tekið eftir fyrirsögn ljóðs eftir John Haines. Andinn í því minnir á boðskap Rousseaus: hverfum aftur til náttúrunnar. En Haines er eitt fimm bandarískra skálda sem Gyrðir Elíasson velur til birtingar í safni sínu. Hin eru Richard Brautigan, Raymond Carver, James Wright og Leo Dangel. Öll voru skáld þessi í heiminn borin eftir fyrra stríð. Haines er þeirra elst, fæddur 1924. Þetta er athyglisvert með hliðsjón af þeirri staðreynd að Gyrðir er að kynna modernista. En nýjungar í ljóðlist, sem kenna má við þvílíkar stefnur, komu ekki allstaðar fram á sama tíma. Áðurnefnd bandarísk skáld voru á svipuðum aldri og atómskáldin íslensku. Þegar þau tóku að birta ljóð sín var aldarfjórðungur liðinn frá því er ljóðskáld í Suður-Evrópu og Rómönsku Ameríku hrundu af stað sinni formbyltingu. Þeirra á meðal var portúgalska skáldið Fernando Pessoa, fæddur 1888. Hann var í hópi skálda sem tengdust blaðinu Presença sem hleypt var af stokkunum 1927 og kynnti »modernismo«. Gyrðir þýðir hér eitt ljóð eftir Pessoa. Þau hefðu mátt vera fleiri til að gefa af honum fyllri mynd. Suðræni modernisminn er að dómi undirritaðs ósviknari og upprunalegri. Enda kom hann fram við aðrar og hagstæðari aðstæður en formbyltingin í norðrinu sem varð miklu þunglamalegri og - ef manni leyfist að segja - minna hrífandi.

Áðurnefnd bandarísk skáld, sem Gyrðir hefur valið til kynningar í safni sínu, bera vitni um breiddina og fjölbreytnina í norður-amerískri ljóðlist. Sennilega er James Wright búinn að vera þeirra lengst þekktur. Þarlendir spakvitringar tóku snemma að lýsa ljóðum hans með orðinu parallelism. Ekki er nú auðgert að úttleggja það á íslensku. Nema maður kalli það slétt og fellt samræmi eða samkvæmni. Nýraunsæið í ljóðum skáldsins er líka býsna skemmtilegt samanber ljóðin Legið í hengirúmi á býli í Minnesota og Að koma aftur í sveitina. Leo Dangel gengur í raun lengra í sömu áttina með ljóðunum Móðurhlutverk og Sólsetur. Notalegt er til þess að vita að kómíkin er þó ekki alveg bönnuð í nútímaljóðinu.

Fjögur þýsk skáld tekur Gyrðir upp í safn sitt. Athyglisvert er að þau eru til jafnaðar miklu yngri en hin bandarísku. Yngst er Barbara Köhler, fædd 1959. Gyrðir þýðir eftir hana eitt örstutt ljóð, Bláa undrið. Það tjáir andartaks hughrif og fyllir prýðilega út í sitt rými.

Tvö dönsk skáld þýðir Gyrðir, Jens August Schade og Erik Knudsen. Hinn fyrrnefndi fæddist 1903 og sendi frá sér fyrstu ljóðabókina um miðjan þriðja áratuginn. Hrifnæmi hans og bjartsýni minnir á hversu kynslóð hans dreymdi jafnan um betri og bjartari heim. Hinn síðartaldi hefur áður verið kynntur íslenskum lesendum, allrækilega. Þýðandi segir í höfundatali að hann teljist til módernista en hafi ef til vill sterkari tengsl við eldri skáldskap. Út af fyrir sig kann sú staðreynd að hafa aflað Knudsen vinsælda. Pólitísk afstaða hans á vinstri vængnum má líka hafa greitt götu hans. Gyrðir þýðir tíu ljóð eftir Knudsen. Ætli hann sé ekki bestur í stuttum ljóðum sem hverfast um einn stað og eina stund en leiða þó hugann að víðtækari skírskotun. Sem dæmi má taka Óveðursnótt:

Með hverjum degi færri möguleikar

færri útgönguleiðir, færri fyrirheit.

Draumurinn hefur farið yfir miðbaug,

dyr himnaríkis skella í lás.

Skýin æða inn í tunglið

Ég get ekki sofið.

Tékkneska skáldið, Miroslav Holub, hefur líka verið kynnt íslenskum ljóðalesendum. Gyrðir birtir eftir hann eitt ljóð, Samtal við skáld. Holub er raunvísindamaður. Segir í fræðibókum að þess sjáist merki í ljóðlist hans. Þess verður þó ekki vart í ljóði því sem Gyrðir hefur valið til þýðingar.

Þá hefur Gyrðir tekið upp í bók sína þrjú kínversk miðaldaskáld og eitt persneskt sem sýnast uppfylla skilyrði til að hljóta aðgang að vestrænum módernisma. Reyndar er hugtakið orðið svo óljóst að í því getur ýmislegt rúmast. Það hefur svo margt verið hengt utan á ljóðlistina eftir að T.S. Eliot, Ezra Pound, Pablo Neruda, César Vallejo og fleiri byltu henni snemma á öldinni. Eftir þeim var strax tekið af því að þeir voru svo stórir. Skáld, sem síðar fetuðu í spor þeirra, hafa mörg tyllt sér á tá og þar með tekist að vekja á sér athygli en ekki náð að skyggja á frumherjana. Tíminn líður og módernisminn eldist eins og hvað annað.

Að þýða ljóð er stundum kallað að enduryrkja. Og sannarlega útheimtir ljóðaþýðing víðara svigrúm en venjuleg textaþýðing. Hvernig sem nú hugtök af því taginu eru skilin er augljóst að Gyrðir setur sitt persónulega svipmót á alla sína ljóðlist, þýdda sem frumsamda. Sundurleit ljóðin í bók þessari koma því fyrir sjónir sem allvel samstæð og skipuleg heild.

Látlaus kápa Margrétar E. Laxness með mynd af kyrrlátri sveitasælu eftir Nökkva Elíasson stríðir hvergi á móti innihaldi bókarinnar.

Erlendur Jónsson