Árni Þórarinsson
Árni Þórarinsson
ÚT er komin skáldsagan Hvíta kanínan eftir Árna Þórarinsson . Í fréttatilkynningu segir: "Þegar Einar blaðamaður er rekinn nauðugur í frí eygir hann tækifæri til að afla svara við spurningum sem hvílt hafa þungt á honum.
ÚT er komin skáldsagan Hvíta kanínan eftir Árna Þórarinsson .

Í fréttatilkynningu segir: "Þegar Einar blaðamaður er rekinn nauðugur í frí eygir hann tækifæri til að afla svara við spurningum sem hvílt hafa þungt á honum. Hann hyggst leita uppi dularfullan lögfræðing, Alfreð G. Hauksson, sem heldur sig í felum á Spáni. Þangað heldur Einar í sólarlandaferð með Gunnsu dóttur sinni en er rétt sestur í makindum sínum með Jim Beam í kóki þegar válegir atburðir gerast í íslenska hópnum. Það er aðeins upphafið að martraðarkenndri atburðarás, þar sem enginn og ekkert er eins og sýnist.

Hvíta kanínan er sjálfstætt framhald bókarinnar Nóttin hefur þúsund augu sem kom út árið 1998 og hlaut afbragðs viðtökur lesenda og gagnrýnenda.

Blaðamaðurinn Einar er samur við sig, háðskur og harðsoðinn, viðkvæmur, breyskur og réttsýnn. Sagan vegur salt milli þess að vera spaugileg lýsing á íslenskum sólarlandaförum og sakamálasaga um skelfileg myrkraverk og ranghverft mannlíf."

Útgefandi er Mál og menning. Hvíta kanínan er 224 bls., prentuð í Svíþjóð. Kápuna gerði Ámundi Sigurðsson. Verð: 3.990 krónur.