FÉLAG bryta og Félag matreiðslumanna hafa boðað verkfall á kaupskipaflotanum frá og með 20. nóvember nk.
FÉLAG bryta og Félag matreiðslumanna hafa boðað verkfall á kaupskipaflotanum frá og með 20. nóvember nk. Samtök atvinnulífsins hafa sett fram efasemdir um að rétt hafi verið staðið að boðun verkfallsins og ætla að taka ákvörðun í dag um hvort farið verði með málið fyrir félagsdóm.

Kjarasamningur bryta og matreiðslumanna rann út 1. nóvember sl. Níels S. Olgeirsson, formaður Matvíss, sagði að lítið hefði miðað í viðræðum deiluaðila og tilgangurinn með boðun verkfalls væri ekki síst sá að knýja á um að Samtök atvinnulífsins kæmu af alvöru til viðræðna við félögin.

Níels sagði að boðað verkfall næði til rúmlega tuttugu manna sem vinna á kaupskipaflotanum. Ef til verkfalls kæmi myndu skipin stöðvast um leið og þau kæmu í höfn. Hann sagðist gera sér vonir um að til þess þyrfti ekki að koma. Það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma að ljúka viðræðum ef báðir aðilar settust af alvöru niður við samningaborðið.

Matreiðslumenn og brytar voru upphaflega í samstarfi í kjaraviðræðunum við stýrimenn og skipstjóra á farskipaflotanum, en þeir hafa ekki tekið ákvörðun um að fara í atkvæðagreiðslu um verkfall.

Efast um lögmæti boðaðs verkfalls

Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins, sagði að vinnuveitendur drægju í efa að eðlilega hefði verið staðið að boðun verkfallsins. Vinnulöggjöfinni hefði verið breytt 1996 og markmið breytingarinnar hefði m.a. verið að auka lýðræðisleg vinnubrögð við atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls. Matreiðslumenn hefðu haft kjörfund opinn í einn dag og brytar í tvo daga þar sem félagsmönnum hefði gefist tækifæri á að greiða atkvæði um verkfall. Stór hluti félagsmanna væri úti á sjó og hefði því ekki átt kost á að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Jón sagði einnig að mál þessara félaga væru nýkomin til ríkissáttasemjara og honum hefði varla gefist tækifæri til að boða til samningafundar áður en verkfall var boðað. Það væru því áhöld um hvort búið hefði verið að gera tilraun til sátta, eins og áskilið er í lögunum, áður en boðað var til verkfalls.