Blóðgjafarnir fjórir í Blóðbanka FSA. Eiríkur Eiríksson liggur á bekknum en við hlið hans standa f.v. Páll Hlöðversson, Björn Jóhannesson og Kristján Guðmundur Óskarsson.
Blóðgjafarnir fjórir í Blóðbanka FSA. Eiríkur Eiríksson liggur á bekknum en við hlið hans standa f.v. Páll Hlöðversson, Björn Jóhannesson og Kristján Guðmundur Óskarsson.
FJÓRIR Akureyringar bættust í vikunni í hóp þeirra sem gefið hafa blóð í Blóðbankanum á FSA í 50 skipti og eru þeir nú orðnir tíu að tölu.
FJÓRIR Akureyringar bættust í vikunni í hóp þeirra sem gefið hafa blóð í Blóðbankanum á FSA í 50 skipti og eru þeir nú orðnir tíu að tölu. Þeir Kristján Guðmundur Óskarsson, Páll Hlöðversson, Björn Jóhannesson og Eiríkur Eiríksson hittust í Blóðbankanum í vikunni, gáfu blóð og þáðu að launum viðurkenningu fyrir traust viðskipti við bankann.

Björn sagðist hafa gefið blóð reglulega fjórum sinnum á ári undanfarin tíu ár og það væri alveg nauðsynlegt fyrir sig að losna við blóðið, "annars fæ ég bara hausverk". Kristján Guðmundur sagðist hafa gefið fyrst blóð árið 1963, "og það hefur verið hringt eftir blóði jafnt að nóttu sem degi". Skráning hófst ekki fyrr en tíu árum síðar og hann hefur því vafalaust gefið blóð oftar en fimmtíu sinnum.

Léttari og frískari á eftir

Eiríkur hóf að gefa blóð upp úr 1970 og hann sagði það alveg nauðsynlegt að losna við blóð að minnsta kosti þrisvar á ári, "maður er svo ferskur á eftir". Páll gaf fyrst blóð á Siglufirði um miðjan sjöunda áratuginn en hann hefur gefið blóð víða, m.a. í Danmörku. "Þetta er alveg bráðnauðsynlegt, maður er allur léttari og frískari og á einnig auðveldara með að vakna á morgnana."

Vilborg Gautadóttir, deildarstjóri Blóðbankans á FSA, sagði að bæjarbúar væru mjög jákvæðir í garð bankans en það væri vissulega mikilvægt að eiga að menn eins og þá fjórmenninga, sem voru að gefa blóð í 50. skipti. Hún sagði að yfirleitt væri góð innstæða í bankanum en þó kæmi fyrir að það stæði tæpt - því væri þá bjargað með öðrum leiðum. Vilborg sagði að íbúar í nágrenni Akureyrar hefðu einnig reynst vel. "Við fórum til Húsavíkur nýlega og þar komust færri að en vildu." Þá sagði Vilborg að nemendur í 3. bekk MA hefðu jafnan komið til að gefa blóð, sú heimsókn tengdist líffræðikennslu í skólanum, og hluti nemenda héldi áfram sem blóðgjafar.