Eitt af verkum Guðrúnar í Listasafni Kópavogs.
Eitt af verkum Guðrúnar í Listasafni Kópavogs.
Til 26. nóvember. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 11 - 17.
ÞAÐ er margt fallegt hægt að segja um verk Guðrúnar Halldórsdóttur sem nú sýnir í Listasafni Kópavogs. Hún er leirlistarmaður sem hefur starfað í New Jersey síðastliðin tíu ár. Á sýningunni í Kópavogi eru nokkur mótíf sem hún endurtekur um alla sýninguna með eilitlum breytingum og ólíkum nöfnum, gjarnan úr norrænni goðafræði. Flest verkin mótar hún, slípar og sagbrennir, og gefur það þeim sérstæðan, þungan, svip með skellóttu, grábrúnu yfirborði sem glansar eins og gamall, áfallinn málmur.

Mótífin sem eru mest áberandi eru torsi - búkar - kvenna, norræn skip og skip með farþegum, einum eða þrem. Búkarnir eru bosmamiklir og ávalir, handa- og hauslausir, og skornir ofan við hné. Þeir minna því óneitanlega á Venusarmyndir fornaldar og forsögulegra tíma. Reyndar eru stytturnar eins og sambræðingur af Venusi frá Dittersdorf og Venusi frá Míló en gætu þó um leið verið úr fórum einhvers af módernistum millistríðsáranna.

Hugmyndin er að ganga á vit hins frumstæða og laða fram hið dularfulla sem býr í forsögulegri formmótun. Og Guðrún sér í samspili mótífa sinna tengsl við hinn goðsagnalega hluta Eddukvæðanna. Ef til vill er það fjarlægð hennar frá Íslandi sem gerir henni kleift að nýta sér þessi fornu kvæði. Yfirleitt vefst það fyrir listamönnum hér að sækja sér efni í fornbókmenntirnar, hvort sem það er af ofurvirðingu þeirra fyrir þeim eða ótta við samanburðinn. Þessi vandi virðist ekki ásækja Guðrúnu.

Hins vegar gengur hún trúlega alltof skammt í frumstæðri höfðun sinni.

Verk hennar reynast helsti fáguð til að ná þeim áhrifum sem hún virðist sækjast eftir. Hér er auðvitað við módernismann að sakast því að ásókn listamanna fyrr á öldinni í forsögulega og frumstæða list varð smám saman til þess að fága yfirbragð hennar og ræna hana þeim broddi sem virkaði svo óræður og upprunalegur. Með fjölföldun slíkra frumstæðra verka fyrir gallerímarkað stórborganna er orðið vonlaust að laða fram óvæntan kraft úr hinum frumstæða módernisma. Við erum fyrir löngu búin að sjúga allan safann úr slíkri mannfræðilegri formhyggju á sama hátt og við erum búin að siðvæða pálmastrendur fjarlægra eyjaklasa og gjörspilla þeim þannig með gegndarlausri túristamengun.

Guðrún Halldórsdóttir þarf því að sækja mun lengra inn í frumið en hún gerir í verkum sínum í Kópavogi. Til að geta með raunhæfu móti fengist við minni úr norrænu fornkvæðunum þarf hún að auka list sína að kynngikrafti svo hún virki eins heiðin og hún ætlar henni að vera.

Reyndar var það frumkraftur þessarar forneskju sem Jón Leifs leitaðist við að ná í ómstríðum tónverkum sínum. Ekkert minna dugar myndlistinni, enda er ekki annað að sjá en Guðrún búi yfir allri þeirri tækni sem til þarf til að ná slíkri fyrnsku.

Halldór Björn Runólfsson