Ragnar  Ingimarsson
Ragnar Ingimarsson
Búa frumvarpsflytjendurnir, spyr Ragnar Ingimarsson, í einhverjum hugarheimi sem lítið á skylt við raunveruleikann?

NÚ HAFA nokkrir þingmenn lagt fram frumvarp til laga um að komið verði á tvöföldum sumartíma á Íslandi. Já, tvöföldum, vegna þess að svo vill til að sumarið 1968 var hér sumartími þegar ákveðið var að hreyfa klukkuna ekki frekar, þ.e. að færa hana ekki aftur til rétts staðartíma. Afleiðingin varð sú að hádegi á landinu varð milli kl. eitt og tvö á daginn. Flestir þeirra sem þekktu öll vandræðin og fyrirhöfnina sem fylgdi því rokki sem verið hafði með klukkuna fögnuðu þessari breytingu og létu minni morgunbirtu og flutning hádegisins gott heita.

Greinargerð þingmannanna

Greinargerð hefur verið lögð fram með frumvarpinu. Eftir lestur hennar vaknar sú spurning hvort verið geti að svona greinargerðir séu í raun taldar gjaldgengar á Alþingi Íslendinga. Hér á eftir ætla ég aðeins að taka á örfáum atriðum sem mjög stinga í augu í greinargerðinni og hafa í raun vakið upp þá spurningu hvort frumvarpsflytjendurnir búi í einhverjum hugarheimi sem eigi lítið skylt við raunveruleikann.

Vísað er til þess að í skýrslu frá 1996 segi að engin meiriháttar vandamál séu því samfara að viðhalda sumartíma í Evrópu þó nokkur óþægindi geti hlotist af tímabreytingu. Jákvæðu atriðin séu: nokkur orkusparnaður, betri birtuskilyrði fyrir útivist og að aukin birta síðla dags hafi jákvæð áhrif á ferðamannaþjónustu. Þá sé sagt að vegna aukinnar birtu sé slysatíðni lægri yfir sumartímann en vetrartímann. Ekki verður séð að síðasta atriðið sé mikið innlegg inn í umræðu um það hvort flýta eigi klukkunni yfir sumartímann, árstíðunum verður ekki breytt.

Í greinargerð þingmannanna segir ennfremur: ,,Upptaka sumartíma með þeim hætti sem hér er lýst leiðir til þess að á sumrin verður sólin hæst á lofti um klukkan hálfþrjú á daginn á vesturhluta landsins.

Þetta þýðir að dagurinn er tekinn fyrr og vinnutíma lýkur fyrr en á vetrum. Með þessu móti hefur almenningur meiri möguleika á að njóta sólar og góðviðrisdaga á sumrin. Þannig eru líkur til þess að hér gæti skapast sérstök sumarstemmning eins og gerist í nágrannalöndum í Evrópu. Fólk hefði mun betri tækifæri til þess að njóta útiveru eftir að vinudegi lýkur og þannig yrðu lifnaðarhættir almennings heilbrigðari."

Sól og birta

Ef litið er til sumardags, t.d. 15. júlí, kemur eftirfarandi í ljós varðandi tíma og birtu:

Klukkan látin vera óbreytt á staðartíma

Staður sólris sólarlag myrkur*
Reykjavík 3:41 23:24 ekkert
Akureyri 2:56 23:37 ekkert
London 4:01 20:12 20:56
Róm 4:48 19:44 20:16
* myrkur telst skollið á þegar ekki er lengur verkljóst úti við.

Klukkunni flýtt um eina klukkustund.

Staður sólris sólarlag myrkur
Reykjavík 4:41 00:24 ekkert
Akureyri 3:56 00:37 ekkert
London 5:01 21:12 21:56
Róm 5:48 20:44 21:16

Með samanburði þessara tveggja taflna má sjá að þeir sem búa sunnar í álfunni hafa nokkurn ávinning af flýtingu klukkunnar að því er varðar birtu að kvöldi. Þrátt fyrir þetta er nú sums staðar (t.d. í Frakklandi) rætt um það í alvöru að fella niður sumartímann vegna allra þeirra vandræða sem tímabreytingin hefur í för með sér. Að því er okkur varðar má sjá að ávinningurinn er óverulegur enda bjart allan sólarhringinn hér á Íslandi yfir stóran hluta sumarsins eða allt frá miðjum maí fram til byrjunar ágúst. Flýting klukkunnar flytur okkur ekki suður á veðursælli breiddargráður þar sem götulíf þrífst vel, slíkt eru hugarórar.

En hvað með vor og haust, er ekki mikinn ávinning að hafa ef klukkunni er flýtt?

Lítum á 7. október.

Klukkan látin vera óbreytt á staðartíma

Staður birting sólris sólarl. myrkur
Reykjavík 7:07 7:55 18:35 19:22
Akureyri 6:52 7:42 18:17 19:07

Klukkunni flýtt um eina klukkustund

Staður birting sólris sólarl. myrkur
Reykjavík 8:07 8:55 19:35 20:22
Akureyri 7:52 8:42 19:17 20:07
Eins og sjá má versnar birtustaðan verulega á haustdögum ef klukkunni er flýtt. Hið sama gerist líka snemma vors. Þegar litið er á þessar tölur hlýtur sú hugsun að vakna hvort ekki væri til bóta að seinka klukkunni fremur en að flýta henni á þessum árstíma. Höfum í huga að á þessum tíma eru börn okkar að fara í skólann á milli klukkan 7 og 8 á morgnana, umferð er að öllu jöfnu þung og mikil bót að því að hafa nokkra birtu. Ég á erfitt með að sjá að birta að kvöldi hafi mikil áhrif á það hvort þingmennirnir eða aðrir sitji yfir kvöldkaffinu sínu úti á gangstétt í miðevrópustemmningu eða ekki - ætli hitastig ráði ekki meiru um það?

Ath.: allar tölulegar upplýsingar hér að framan eru fengnar hjá Almanaki Háskólans

Bylting í samskiptum

Í umræddri greinargerð er nokkuð fjallað um þá erfiðleika sem skapast í samskiptum, m.a. í viðskiptum, við það að flestar Evrópuþjóðir flýti klukkunni um eina klukkustund þ.e. að skörun vinnutíma minnki e.t.v. niður í 5 til 6 klst. og erfiðara verði fyrir menn að ná saman. Vísað er til fimm ára gamalla umsagna ýmissa innlendra aðila.

Hafi einhverjum þótt þessi rök þingmannanna hafa umtalsvert vægi fyrir fimm árum tel ég líklegt að þeim hinum sömu þyki það ekki lengur. Á síðastliðnum fimm árum hefur orðið bylting í allri samskiptatækni. Nú eru menn nánast beintengdir milli landa í gegnum tölvunet, fax og síma þ.m. farsíma og samhliða því hafa viðskiptasamskipti gjörbreyst. Helst sýnist mér að ástæða væri til að kvarta yfir því hversu lítið vinnutími skarast milli Íslands og Norður-Ameríku, að ógleymdri Kúbu, en sú skörun minnkar enn meir við flýtingu klukkunnar.

Auðveldara að vakna

Nú er það svo að sífellt verður algengara að í þjónustu- og viðskiptafyrirtækjum hefjist vinnudagur einni stund fyrr á sumrum en á vetrum. Þetta virðist flestum líka vel þar eð þeim finnst einfaldlega svo miklu auðveldara að vakna snemma á morgnana á sumrin en á veturna. Hjá mörgum vinnur þetta upp flýtingu klukkunnar í Evrópu. Það að einhverjir einstaklingar eigi erfitt með að vakna á morgnana má ekki leiða óþarfa vandræði og fyrirhöfn yfir aðra. Þessir morgunsvæfu aðilar gætu sem best fengið sér hana (eða jafnvel hrafna) til að vekja sig á morgnana.

Höfundur er verkfræðingur