[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geisladiskur með lögum Þormars Ingimarssonar við ljóð Tómasar Guðmundssonar, Steins Steinars og Kristjáns Eldjárns. Helgi Björnsson, Haraldur Reynisson, Ari Jónsson, Álftagerðisbræður, Páll Rósinkranz, Guðrún Árný Karlsdóttir og Kristján Gíslason syngja lögin við undirleik fjölda hljóðfæraleikara. Vilhjálmur Guðjónsson, Gunnar Þórðarson, Ólafur Gaukur og Stefán S. Stefánsson útsettu og stýrðu upptökum en Gunnar Smári Helgason sá um hljóð- legan lokafrágang.
ÞORMAR Ingimarsson er lagahöfundur sem varð, ef mig misminnir ekki, þjóðinni kunnur fyrir lagið "Ljós og skuggar" sem Ari Jónsson söng árið 1992. Lagið hefur töluvert leikið um öldur ljósvakans síðan en platan sem hér um ræðir, Fugl eftir fugl, mun vera önnur plata Þormars en fyrir fimm árum síðan kom út platan Sundin blá sem innihélt lög við ljóð Tómasar Guðmundssonar.

14 lög prýða plötuna og er áðurnefnt lag, "Ljós og skuggar", eitt þeirra. Smíðarnar eru einfaldar og rista ekki djúpt enda eru ljóðin ekki þess eðlis að þau bjóði upp á að við þau séu samin stórfengleg tónverk, þó um gæði þeirra sé ekki að efast. Þormar er frumstæður en sumpart lunkinn höfundur og best þykir mér honum takast upp í tónsmíðum við tvö ljóða Steins Steinars, annars vegar "Skáldsögu", sem Halli Reynis syngur, og hins vegar í "Ferðasögu", sem Guðrún Árný Karlsdóttir syngur. Undirritaðan rekur ekki minni til þess að hafa heyrt í Guðrúnu áður og er hún efni hið mesta með fallega rödd. Yfir laginu er írskur blær og hluti laglínunnar heyrist mér vera tilvitnun í lag við ljóð Skálda-Rósu, "Augun mín og augun þín". Írskra áhrifa gætir einnig í laginu "Júnímorgunn" sem mér þykir þó síðri smíð. Gunnar Þórðarson útsetur hin írsk-ættuðu lög og þrátt fyrir um margt vönduð vinnubrögð þykir mér hvimleitt hversu Gunnar er gjarn á að notast við forritaðan undirleik.

Áslátturinn í "Skáldsögu" er leiðinlega vélrænn og slík vinnubrögð hafa því miður verið allt of algeng hjá Gunnari á undanförnum misserum. Plata Ríó tríós, Landið fýkur burt, er sennilega versta dæmið um slíkt. Hvort ástæðan er vantrú Gunnars á lifandi hljóðfæraleik veit ég ekki, en aðrir útsetjarar plötunnar eru blessunarlega meira fyrir að leggja lifandi grunna þó á því séu leiðinlegar undantekningar hjá Vilhjálmi Guðjónssyni.

Útsetningar á plötunni eru annars vandaðar þótt lítið sé um tilþrif, enda bjóða lögin kannski ekki mikið upp á slíkt. Þeir Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari, Dan Cassidy, fiðluleikari og Martial Nardeau

flautuleikari eiga þó ánægjulega spretti sem óneitanlega lífga upp á heildarmyndina. Söngvarar plötunnar standa sig með prýði þótt enginn standi sérstaklega upp úr. Álftagerðisbræður syngja þrjú lög og eru skemmtilegir í hinu gamaldags og krúttlega "Skjónukvæði". Helgi Björnsson syngur lögin "Seytján ára" og "Anadyomene" af áreynsluleysi og öryggi, en hið fyrrnefnda lag þykir mér fremur hallærislegt og er hvorki kántrí eða rythmablús, þó það eigi sennilega að vera annað eða hvort tveggja. Halli Reynis syngur tvö lög og gerir það mjög vel. Þeir Ari Jónsson, Páll Rósinkranz og Kristján Gíslason skila sínu vel í lítt eftirminnilegum lögum og Þormar syngur svo sjálfur "Víxilkvæði" alþýðlegri röddu.

Þegar á heildina er litið er platan Fugl eftir fugl hvorki fugl né fiskur þótt ekki sé hún alslæm. Í flestum tilfellum bera ljóðin lögin ofurliði og laglínurnar eru sjaldnast nógu grípandi. Eðlilega hlýtur maður að gera kröfur um sterkar laglínur þegar um tónlist er að ræða sem ekki er byggð á framúrskarandi hljóðfæraleik, flóknum hljómaferlum og/eða frumlegum útsetningum. Ég er þó ekki í vafa um að margir gætu haft gaman af plötu Þormars og margt hefur undirritaður svo sem heyrt verra um dagana.

Orri Harðarson