[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heildarskuldir Reykjavíkurborgar munu hækka úr 30,3 milljörðum í 32,3 milljarða en skuldir borgarsjóðs verða greiddar niður um 2,8 milljarða á næsta ári. Jóhannes Tómasson sat blaðamannafund borgarstjóra um fjárhagsáætlunina 2001.
ÁÆTLAÐ er að hækkun rekstrarútgjalda Reykjavíkurborgar verði rúmar 1.200 milljónir króna á næsta ári og að þau fari úr rúmum 17 milljörðum í 18,3 milljarða, samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2001. Áætlað er að skatttekjur aukist um 13,7%, úr 21,1 milljarði í 24 milljarða, aðallega vegna hækkunar útsvarstekna úr 11,99% í 12,7%. Greiða á niður skuldir borgarsjóðs um 2,8 milljarða en heildarskuldir borgarinnar munu aukast úr 30,3 milljörðum í 32,3 milljarða, aðallega vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur sem verða alls uppá 5,4 milljarða króna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að borgarsjóður hafi 26,1 milljarð króna til ráðstöfunar. Skatttekjur eru 24 milljarðar, 1,8 milljarðar eru vegna sölu skuldabréfs, 200 milljónir vegna eignasölu og 100 milljónir vegna afborgana af skuldabréfaeign.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri kynnti frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á blaðamannafundi í gær ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum og sagði hún að skólabyggingar og knattspyrnuhús í Grafarvogi væru meðal stærstu verkefna á næsta ári ásamt mikilli uppbyggingu í umhverfis- og orkumálum. Fjárhagsáætlunin verður tekin til fyrri umræðu í borgarstjórn á morgun en síðari umræða og afgreiðsla er á dagskrá borgarstjórnarfundar 7. desember.

Heildarskuldir á hvern íbúa lækka um 21 þúsund krónur

Í samantekt borgarstjóra um frumvarpið segir m.a. að það staðfesti að fjárhagur borgarinnar sé mjög traustur, heildarskuldir á hvern borgarbúa muni lækka um ríflega 21.000 milli þessa árs og hins næsta, keppt verði að auknum lífsgæðum í Reykjavík, þjónusta við íbúa verði bætt og að áfram verði fjárfest í arðbærum verkefnum.

Borgarstjóri sagði áætlunina snemma á ferð sem stafaði m.a. af því að öll áætlanagerð væri auðveldari í stöðugu árferði og því að öll vinna við gerð áætlunarinnar hefði verið endurbætt. Þá sagði hún áætlunina marka þau tímamót að séð væri nú fyrir endann á tveimur átaksverkefnum, einsetningu grunnskóla og hreinsun strandlengjunnar.

Borgarstjóri segir útsvar verða hækkað í 12,7% eins og mörg önnur sveitarfélög muni gera í kjölfar samninga við ríkið sem hún segir viðurkenningu á að kostnaðarauki sveitarfélaga vegna verkefna sem þau hafi tekið frá ríkinu án þess að þeim hafi fylgt samsvarandi fjármagn. Á næsta ári er ráðgert að 76,5% af skatttekjum fari til reksturs málaflokka en hlutfallið var 80,96% á þessu ári. Frá árinu 1995 hefur hlutfallið verið á bilinu 79% til 85,2% en árið 1994 var það 96,4%.

Skuldir borgarsjóðs lækka en heildarskuldir aukast

Áætlað er að greiða niður skuldir borgarsjóðs um 2,8 milljarða, þar af langtímaskuldir um 2,3 milljarða, og að þær komist niður í 11,1 milljarð á næsta ári. Er það 48,46% af skatttekjum sem er hið lægsta allt frá árinu 1991 þegar það var svipað eða 49,8%. Sé litið á heildarskuldir borgarinnar verða þær 32,3 milljarðar á næsta ári og versnar peningaleg staða Reykjavíkurborgar um 3,5 milljarða að raungildi en peningaleg staða borgarsjóðs batnar um 213 milljónir. Heildarskuldaaukningin skýrist einkum af miklum fjárfestingum Orkuveitu Reykjavíkur. Áætlað er að hún verji 5,4 milljörðum til fjárfestinga og vegur þar þyngst stækkun Nesjavallavirkjunar sem kosta á yfir 1,6 milljarða króna og verja á 440 milljónum til rannsóknaborana á Nesjavöllum. Framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins munu kosta 1,5 milljarða og gerir OR ráð fyrir að taka 4,5 milljarða króna lán á næsta ári vegna þessara framkvæmda en gert er ráð fyrir að hún skili 1,1 milljarði í hagnað á næsta ári.

Nærri 1.300 milljónir í skólabyggingar

Gert er ráð fyrir að verja 1.283 milljónum króna í skólabyggingar og fer mest fjármagn í Borga- og Víkurskóla en einnig verða framkvæmdir við Selásskóla, Hólabrekkuskóla, Árbæjarskóla og Álftamýrarskóla. Fram kom á fundinum að grunnskólabörnum hefur fjölgað um 650 í borginni á síðustu þremur árum og sagði borgarstjóri að mannfjöldaspár gerðu ráð fyrir 250 barna fjölgun á ári næstu árin. Það þýddi að reisa yrði nýjan grunnskóla annað hvert ár en frá árinu 1995 hafa fimm nýir grunnskólar verið byggðir í borginni.

Framlög vegna einsetningar grunnskóla verða alls rúmir 7,7 milljarðar á sjö árum og verða allir 34 grunnskólar borgarinnar einsetnir haustið 2002. Alls verður nærri 9 milljörðum varið til grunnskólamála í borginni á næsta ári og aukast framlögin um tæpan milljarð. Ástæðu þess segir borgarstjóri vera til dæmis þær að fjölgað er námsráðgjöfum, skólastjórar hafi óskað eftir fleiri stöðugildum við stjórn skólanna og aukinn tölvukostur kalli á aukið fjármagn ásamt auknu skólahúsnæði. Þá er gert ráð fyrir 3% hækkun vegna launa- og verðlagsbreytinga sem þýðir 426 milljónir í þessum málaflokki.

Milljarður í Grafarvogshverfin

Fjárfestingar í íþrótta- og æskulýðsmálum aukast úr 240 milljónum króna í ár í 486 milljónir. Verður 200 milljónum varið í byggingu knattspyrnuhúss við Víkurveg í Grafarvogi, lokið verður við hönnun 50 metra yfirbyggðrar laugar í Laugardal, 15 milljónir fara í gerð nýrra sparkvalla og lögð verður áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga í Grafarvogi. Fram kemur að alls verður rúmum milljarði varið til framkvæmda og fjárfestinga í Grafarvogshverfum á næsta ári.

Borgarstjóri sagði að lokum að eigi borgin að standa undir þeirri þjónustu sem lög og reglur geri ráð fyrir svo og undir kröfum íbúa sé ekki svigrúm til lækkunar skatta.