Árni Gautur  á æfingu hjá Guðmundi Hreiðarssyni í gær í Varsjá.
Árni Gautur á æfingu hjá Guðmundi Hreiðarssyni í gær í Varsjá.
ÁRNI Gautur Arason, markvörður Rósenborgar, verður væntanlega í marki Íslands þegar flautað verður til leiks á Legia-vellinum klukkan 17 að íslenskum tíma í dag. Árni Gautur hefur að undanförnu fundið fyrir eymslum í hægri ökkla og rist en segir það ekki há sér neitt í markinu, það eina sem hann finni fyrir sé að taka markspyrnur.
Ég er orðinn alveg þokkalegur og verð örugglega orðinn góður um áramótin því við spilum í næstu viku á Spáni og síðan aftur sjöunda desember. Eftir það kemur hlé og ég kem heim og er alveg viss um að þá næ ég mér góðum," sagði Árni Gautur eftir æfingu í gær.

Kappinn þótti standa sig mjög vel í leik Rosenborgar og Bayern München í síðustu viku, varði hvað eftir annað meistaralega og var sagður maðurinn á bak við að Rosenborg komst í UEFA-bikarkeppnina. Hann er samt með báða fætur á jörðinni yfir velgengni sinni: "Það gekk mjög vel og var virkilega gaman að ná svona góðum leik þegar á þurfti að halda," segir hann. Árni Gautur tók ekki útspörkin í leiknum, en sagðist hafa fengið boltann nokkrum sinnum frá samherjum sínum þannig að hann varð að sparka frá markinu og það hefði gengið vel.

Um leikinn í dag sagði markvörðurinn að hann legðist ágætlega í sig. "Ég veit nú afskaplega lítið um pólska liðið en veit þó að Pólverjar hafa verið á mikilli siglingu undanfarið ár, þeir byrjuðu vel í riðlinum sínum þó herslumuninn hafi vantað á að þeir kæmust áfram. Þetta verður án efa erfiður leikur og fínt tækifæri fyrir okkur til að slípa enn frekar saman liðið hjá okkur, reyna að leika þétta vörn og sækja þegar færi gefast.

Völlurinn er ágætur sýnist mér, en hann er dálítið laus í teignum en maður hefur séð það miklu verra og markvörður Pólverja þarf líka að fást við lausan jarðveg þannig að það kemur jafnt niður á báðum liðum."

Skúli Unnar Sveinsson skrifar frá Póllandi