Eyjólfur Sverrisson með heimasíðu sína á tölvuskjánum.
Eyjólfur Sverrisson með heimasíðu sína á tölvuskjánum.
EYJÓLFUR Sverrisson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður með Herthu Berlín, gerir fleira en að leika knattspyrnu, hann er meirihlutaeigandi í hugbúnaðarfyrirtæki í Berlín og fylgist vel með því sem þar fer fram.
EYJÓLFUR Sverrisson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður með Herthu Berlín, gerir fleira en að leika knattspyrnu, hann er meirihlutaeigandi í hugbúnaðarfyrirtæki í Berlín og fylgist vel með því sem þar fer fram. Fyrirtækið blómstrar og flytur meðal annars í nýtt húsnæði í næsta mánuði.

Heimasíða Eyjólfs, www.sverrisson.de er einnig skemmtileg en þar flytur hann fréttir af gangi mála hjá félaginu í fólboltanum auk þess sem hann er með spurningar sem hann leggur fyrir lesendur og er dregið úr réttum lausnum og í verðlaun þessa mánaðar er til dæmis landsliðspeysa Eyjólfs árituð af honum. Á síðunni geta Þjóðverjar einnig lært pínulítið í íslensku og þar er að finna matreiðsluhorn þar sem Eyjólfur læðir inn íslenskum réttum þegar vel liggur á honum.

"Við byrjuðum með fyrirtækið, sem heitir apliQ í apríl og nú vinna þar sextán manns og hafa meira en nóg að gera. Við sjáum meðal annars um að setja upp heimasíður og þjónusta þær og svo erum við með hönnun og ýmislegt er í gangi meðal annars nokkurs konar háskóli á Netinu. Við erum að hefja mikla vinnu með banka í Þýskalandi og þar er margt að gerast í þessum málum. Í sumar var mikill leikur í Þýskalandi þar sem maður átti að fela sig, en þurfti jafnframt að vinna ákveðin verkefni. Ef einhver fann hann þá fékk viðkomandi 10.000 dollara en ef honum tókst að vera í felum í ákveðinn tíma fékk hann sömu upphæð. Menn þurftu að fara inn á heimasíðuna og fylgjast með því hann varð að fara reglulega inn á síðuna og vera þannig stöðugt í sambandi. Við vorum með skanna sem sýndi á hvaða svæði hann var," segir Eyjólfur.

Spurður um hvort hann sé mikill tölvukall segist hann nota tölvu mikið. "Ég hef mikinn áhuga á tölvum og nota slík tæki mikið til dæmis til að fylgjast með því sem er að gerast heima, hlusta á fréttir að heiman og horfa á sjónvarpið og lesa blöðin," sagði Eyjólfur.