Ágústína Jónsdóttir
Ágústína Jónsdóttir
Ágústína Jónsdóttir. Mál og menning 2000.

Ljós í bláþoku glampar augna þegar fjallið kallar við tvö að híbýlum ljúflinga hlýðum á tónleik í bjargi

ÁGÚSTÍNA Jónsdóttir er fagurkeri, ljóð hennar eru rómantísk og bera vitni um góðan smekk og sterkar tilfinningar. Hún er óhrædd við að yrkja samkvæmt íslenskri hefð, náttúrumyndir eru áberandi og notkun tákna sömuleiðis í samræmi við ljóðhefðina. Ljóð hennar minna stundum á ljóð Stefáns Harðar eða jafnvel Hannesar Péturssonar, einkum frá fyrri tíð. Ekki er þó hægt að segja að Ágústína sé ósjálfstæð í ljóðagerð sinni, hún fer sínar eigin leiðir og hefur greinlega ort lengi þótt fyrsta ljóðabók hennar hafi komið út fyrir sex árum. Ljóð hennar búa yfir mikilli myndvísi og yrkisefni hennar eru klassísk, ástin skipar þar öndvegi og hið góða og bjarta er henni kærara yrkisefni en myrkrið og dauðinn, þótt hún dragi reyndar ekki algerlega fjöður yfir hið neikvæða í tilverunni. Í ljóðinu "Skref" varpar hún fram eftirfarandi spurningu: "Hver vill muna / auðn dimmra nátta / óhamingju daganna?" Svarið við spurningunni má finna í bókinni, ljóðin vitna um fegurðarheim sem skáldkonan hefur reist sér og vill veita lesandanum hlutdeild í. Í fyrsta hluta bókarinnar sem nefnist "Stef" er oft vísað til tónlistar. Sem dæmi má taka hið fallega og hnitmiðaða ljóð "Álfar" sem fjallar um bergnumda elskendur og er svohljóðandi:

Ljós

í bláþoku

glampar augna

þegar fjallið kallar

við tvö að híbýlum

ljúflinga

hlýðum á tónleik

í bjargi

Mörg fleiri góð ljóð mætti tilgreina úr fyrsta hluta sem snúast um ást og heitar tilfinningar. Fallegt er upphafsljóðið "Stef" sem byggt er upp af sterkum myndhverfingum þar sem morgunkossar á varir elskhugans eru m.a. sagðir vera "vorflauta steindepils". Steindepillinn er einmitt einn af þeim söngfuglum sem Stefán Hörður hefur mætur á og þolir söng hans betur en annarra fugla. Vorflautan minnir auðvitað á nafn ljóðabókarinnar og sómir sér vel í upphafsljóðinu fyrir nú utan að minna á tónlist sem er Ágústínu hugstæð. Annað eftirminnilegt og að nokkru dæmigert ljóð fyrir Vorflautu nefnist "Græðsla" sem hefst á ljóðlínunni "Taktu blóð úr ljóði mínu" en lesandinn er jafnframt hvattur til að gefa "blóð í ljóð mitt". Þessi mynd af blóðblöndun lesanda og höfundar er hnyttileg og hittir í mark svo ekki þarf að hafa fleiri orð þar um.

Ég minntist á það hér að framan að Vorflauta væri hefðbundin bók og það er bæði styrkur hennar og veikleiki, það fer að sjálfsögðu eftir viðhorfum lesandans. Sumum kann að virðast sem hin kvenlega "mýkt" sem endurspeglast í ljóðinu "Vatnið" sé dálítið gamaldags og víst er að hér er ekki hróflað við hugmyndum um hlutverk kynjanna. Ljóðið er örstutt og hljóðar svo: "Brenndu mig kossum / vefðu mig orðum // ég verð vatnið / milli klettafingra". Einnig má nefna ljóðið "Hann" sem er áhugavert að skoða út frá andstæðunum karllegt - kvenlegt.

Vorflauta eftir Ágústínu er falleg ljóðabók og heilsteypt. Ljóðin eru vel ort og af næmri tilfinningu. Það er oft hrein unun að dvelja við ljóðmyndirnar sem bera sköpunarkrafti skáldsins og fegurðarsmekk fagurt vitni. Þó að skáldkonan sé uppteknari af hinum jákvæðari hliðum lífsins er alls ekki hægt að segja að hún stingi höfðinu í sandinn. Hún er sér fullkomlega meðvituð um að í skóginum fagra leynist óargadýr og hróp hinna kúguðu eru einatt þögguð niður. En listin er einmitt mótvægi gegn grimmd heimsins og þeim boðskap kemur Ágústína Jónsdóttir svo sannarlega vel til skila í ljóðabók sinni.

Guðbjörn Sigurmundsson