[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KLIKKAÐI prófessorinn, þessi feiti ekki þessi heimski, er enn og aftur mættur á svæðið og svo gott sem alveg jafnvinsæll og síðast.
KLIKKAÐI prófessorinn, þessi feiti ekki þessi heimski, er enn og aftur mættur á svæðið og svo gott sem alveg jafnvinsæll og síðast. Fyrsta endurgerðin á Klikkaða prófessornum hans Jerry Lewis, með Eddie Murphy í hlutverk hins digra og dægilega Shermans Klumps, gerði allt vitlaust þegar hún var sýnd hér fyrir einum þremur árum. Þegar upp var staðið höfðu einar fjörtíu þúsundir manna séð myndina og segir Ægir Dagsson hjá Háskólabíói að þótt framhaldið fari vel af stað þá sé kannski fullmikil bjartsýni að hún leiki það afrek eftir. Ægir segir að Nutty Professor II: The Klumps hafi verið langaðsóknarmesta mynd helgarinnar, dregið að eina sjö þúsund áhorfendur frá föstudegi fram á sunnudag í fjórum sýningarsölum og segist vel sætta sig við þá byrjun: "Það voru að upplagi yngri áhorfendur sem lögðu leið sína á mynduna um helgina og get ég vel trúað því að hún eigi eftir að stytta skammdegisþunglyndum og iðjulausum framhaldsskólanemendum stundirnar á þessum erfiðu verkfallstímum sem þeir ganga nú í gegnum."

The Snitch, nýjasta mynd breska leikstjórans Guys Ritchies, þessi hins sama og gerði Lock, Stock and Two Smoking Barrels og er barnsfaðir Madonnu, kemur síðan ný inn í annað sæti listans. Miklar vonir hafa verið bundnar við mynd þessa, sérstklega í heimalandi Ritchies, ekki einasta vegna þess að Lock, Stock ... var svo vel heppnuð heldur einnig vegna þess að hún skartar fríðum hópi svalra leikara á borð við Brad Pitt og gamla fótboltaruddann Vinnie Jones. Christoff Wehmeier hjá Skífunni segist ekki geta annað en verið sátur við viðtökurnar sem myndin fékk sína fyrstu helgi: "Þetta er góður árangur í ljósi þess að hún er bara sýnd í einu kvikmyndahúsi en rúmlega 2000 manns sáu hana."