RÚNAR Kristinsson er annar í kjöri lesenda belgíska íþróttavefjarins Sport 24 á leikmanni vikunnar í knattspyrnunni þar í landi. Rúnar hafði í gær fengið 19 prósent atkvæða en efstur var Sven Vermant, leikmaður Club Brugge , með 42 prósent.
RÚNAR Kristinsson er annar í kjöri lesenda belgíska íþróttavefjarins Sport 24 á leikmanni vikunnar í knattspyrnunni þar í landi. Rúnar hafði í gær fengið 19 prósent atkvæða en efstur var Sven Vermant, leikmaður Club Brugge , með 42 prósent. Hann skoraði tvö mörk, lagði eitt upp og fiskaði vítaspyrnu í leik með sínu liði. Rúnar átti sem kunnugt er stórleik með Lokeren gegn Lierse og skoraði í fyrsta deildaleik sínum með félaginu.

HULDA Bjarnadóttir

skoraði 2 mörk fyrir 2. deildar lið Skjern í dönsku deildinni í handknattleik sl. sunnudag. Skjern tapaði leiknum, sem var gegn Esbjerg á útivelli, 19:13. Skoruðu Hulda og samherjar aðeins 5 mörk í síðari hálfleik.

FRODE Kippe, norski knattspyrnumaðurinn, er kominn til Stoke City frá Liverpool og verður að minnsta kosti einn mánuði í láni. Stoke fékk Kippe fyrir mánuði en hann meiddist strax. Nú er hann orðinn leikfær og mun taka stöðu Brynjars Björns Gunnarssonar í vörninni gegn Brentford í næstu viku en Brynjar verður þá í leikbanni.

MARK Viduka , markaskorarinn hjá Leeds , er mættur til Glasgow þar sem Ástralir mæta Skotum í vináttulandsleik í kvöld. David O'Leary, knattspyrnustjóri Leeds , hafði tilkynnt að Viduka gæti ekki leikið vegna meiðsla en Ástralinn ætlar samt að freista þess að spila, fái hann græna ljósið hjá sjúkraþjálfara landsliðsins.

TARIBO West, landsliðsmaður Nígeríu , hefur fengið atvinnuleyfi í Englandi og getur þar með leikið með Derby gegn Bradford í úrvalsdeildinni um næstu helgi. Derby hefur fengið West að láni frá AC Milan í þrjá mánuði.

DERBY hefur sett þrjá leikmenn á sölulista, sóknarmennina Dean Sturridge og Deon Burton , og norska landsliðs- og miðjumanninn Lars Bohinen .