Við útförina í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Talið frá vinstri eru Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía, drottning hans; Haraldur Noregskonungur og Sonja, drottning hans; Beatrix Hollandsdrottning og Sofia Spánardrottning.
Við útförina í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Talið frá vinstri eru Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía, drottning hans; Haraldur Noregskonungur og Sonja, drottning hans; Beatrix Hollandsdrottning og Sofia Spánardrottning.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ALLT að 100.000 manns fylgdust með því í gær er kistu Ingiríðar drottningarmóður var ekið um götur Kaupmannahafnar og Hróarskeldu þar sem hún var lögð til hinstu hvílu við hlið eiginmannsins, Friðriks 9.
ALLT að 100.000 manns fylgdust með því í gær er kistu Ingiríðar drottningarmóður var ekið um götur Kaupmannahafnar og Hróarskeldu þar sem hún var lögð til hinstu hvílu við hlið eiginmannsins, Friðriks 9. Útför hennar fór fram frá dómkirkjunni í Hróarskeldu í gær að viðstöddum fulltrúum allra konungsfjölskyldna Evrópu, forsetum Íslands og Finnlands, sendiherrum erlendra ríka, dönskum ráðamönnum og öðrum gestum.

Kaupmannahafnarbúar söfnuðust saman við kirkju Kristjánsborgarhallar þegar um morguninn en kl. 11 hófst minningarathöfn um Ingiríði í kirkjunni. Að henni lokinni var kistu drottningarmóðurinnar ekið á vagni sem fjórir hestar fóru fyrir. Var það óneitanlega tilkomumikil sjón er lífvarðasveit drottningar, lúðrasveit og herdeildir úr sjó- og flugher fóru fyrir kistunni. Á eftir henni gekk danska konungsfjölskyldan með Margréti drottningu , eiginmann hennar Hinrik og Friðrik krónprins í broddi fylkingar. Voru dætur Ingiríðar, Margrét drottning, Benedikta prinsessa og Anna María, fyrrum drottning Grikklands, í sorgarklæðum og karlmennirnir með sorgarborða.

Útstillingum breytt á Strikinu

Gengið var sem leið lá niður aðalgöngugötu borgarinnar, Strikið, þar sem nokkrar verslanir höfðu breytt útstillingum sínumeða hulið þær, yfir Ráðhústorgið og til Aðaljárnbrautarstöðvarinnar þar sem eimreið flutti kistuna til Hróarskeldu.

Þar var ekið frá járnbrautarstöðinni til dómkirkjunnar, þar sem útförin fór fram. Leiðin frá járnbrautarstöðinni í Hróarskeldu og að kirkjunni var þakin grenigreinum, fánar blöktu við hún og fjöldi fólks kastaði rósum sem gefnar voru í tilefni atburðarins undir hjól líkvagnsins.

Mikill fjöldi fólks varðaði leiðina sem kistu drottningar var ekið og var það að ákvörðun Margrétar drottningar sem vildi að almenningi gæfist kostur á því að taka þátt í síðustu för drottningar. Margt eldra fólk laut höfði er kistunni var ekið hjá á meðan yngra fólk teygði sig til að sjá betur. Kirkjuklukkum var hringt um alla Danmörku í hálfa klukkustund fyrir og eftir útförina.

Svipaði til útfarar eiginmannsins

Gríðarlegur viðbúnaður var í Kaupmannahöfn og Hróarskeldu vegna útfararinnar, um 900 hermenn og annar eins fjöldi lögreglumanna gættu þess að allt færi vel fram.

Danskar sjónvarps- og útvarpsstöðvar voru með beinar útsendingar nær allan daginn og um 100 erlendir fréttamenn komu til Danmerkur til að fylgjast með útförinni enda margt fyrirfólk mætt til hennar.

Þeirra á meðal má nefna Karl Bretaprins, Albert Mónakóprins, Beatrix Hollandsdrottningu og Soffíu Spánardrottningu. Þá voru konungsfjölskyldur Noregs og Svíþjóðar og forsetar Íslands og Finnlands. Auk forsetans, Ólafs Ragnars Grímssonar, voru Helgi Ágústsson sendiherra og Örnólfur Thorsson sem fylgdi forsetanum.

Sjálf athöfnin stóð í um klukkustund. Leikin var tónlist úr 6. sinfóníu Tsjaíkovskíjs og prelúdía og fúga í C-dúr eftir J.S. Bach auk þess sem sungnir voru danskir sálmar. Lesið var úr Markúsarguðspjalli, 10,42-45 að ósk drottningar en hún skildi eftir sig skriflega ósk um hvernig útförinni skyldi háttað. Svipaði henni mjög til útfarar eiginmanns hennar, Friðriks 9. sem lést árið 1972.

Í eftirmælum sagði hirðprófasturinn séra Christian Thodberg drottninguna hafa gegnt lykilhlutverki í að breyta stöðu dönsku konungsfjölskyldunnar og fært hana nær almenningi. Thodberg sagði drottninguna hafa óskað þess að hennar yrði ekki minnst persónulega og væri það til marks um lítillæti hennar. Líf Ingiríðar hefði verið til fyrirmyndar fyrir aðra og kjörorð hennar verið; ég get það sem mér er ætlað.

Að athöfn lokinni var kista Ingiríðar borin til hinstu hvílu við hlið eiginmanns hennar, Friðriks 9., við dómkirkjuna en alls eru 38 konungar og drottningar jarðsett þar.

Kaupmannahöfn, Hróarskeldu. Morgunblaðið.