Guðrún Eva Mínervudóttir
Guðrún Eva Mínervudóttir
MARGRÉT, Haraldur, Margrét og Haraldur heita meginpersónurnar í skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Fyrirlestri um hamingjuna.
MARGRÉT, Haraldur, Margrét og Haraldur heita meginpersónurnar í skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Fyrirlestri um hamingjuna. Haraldur eldri elst upp hjá stjúpömmu sinni Margréti, elur sjálfur upp dóttur sína Margréti, sem síðan eignast soninn Harald yngri. Sagan hefst árið 1963 og nær allt til ársins 2007 þegar Haraldur yngri er á sama aldri og afi hans í upphafi sögunnar.

Persónur bókarinnar hafa búið lengi með Guðrúnu Evu - fyrsti kafli fyrsta hluta hefur áður birst sem smásaga, en þar segir frá drengnum Haraldi, húsfreyjunni Margréti, lifrarbuffi, skólagöngu og bóklestri. "Raunar kviknar öll bókin út frá þessari stemmningu í fyrsta hlutanum. Margar af hugmyndunum spretta svo upp úr ýmsu sem hefur átt sér stað í minni ættarsögu og mér hefur verið sagt frá," segir Guðrún Eva. Í gegnum fjölskyldufrásagnir kveðst Guðrún Eva einnig hafa fengið haldbæra tilfinningu fyrir því tímabili sem hún skrifar um en upplifði ekki sjálf. "Foreldrar mínir eru á aldur við aðalpersónuna, Harald eldri, og þau hafa sagt mér ýmislegt frá sínum uppvexti. Þannig finnst mér ég þekkja nokkuð vel þann tíma sem Haraldur var að alast upp á og fer ekki út fyrir það. Fyrsti hlutinn sækir líka margt í allar mínar eigin eldhússetur með mínum ömmum - ég náði í skottið á þeim tíma þegar börn nærðust á samræðum við fullorðna, útvarpshlustun og heimilislegum mat," segir Guðrún Eva.

Ytri tími er þannig ekki í forgrunni sögunnar, hún fjallar fyrst og fremst um fólk og hvernig það vinnur úr möguleikum tilverunnar.

"Þetta er hálfgerð kynslóðastúdía. Aðstæður fólks og umhverfi eru breytingum háð, en manneskjan er söm við sig og útkoman veltur ekki bara á eðli aðstæðnanna heldur því hver lendir í þeim. Haraldur eldri og dóttir hans Margrét lenda til dæmis í nákvæmlega eins vanda í æsku. Haraldur lætur undan þrýstingi en viljastyrkur Margrétar færir henni aðra lausn á málinu. Þau eru ólíkir karakterar og bregðast því við á mismunandi hátt," útskýrir höfundurinn.

Um leið eiga persónur bókarinnar sitthvað sameiginlegt. Þrátt fyrir að hið sögulega umhverfi breytist og áratugir líði hnígur mannlegt eðli að því að leita lífsfyllingar og það gera allir sem við sögu koma.

"Hver og einn reynir á sinn hátt að finna hamingjuna, annars vegar í samhengi við fólkið í umhverfinu og hins vegar í eigin félagsskap. Og niðurstaðan er í stuttu máli sú að hamingjan er aldrei úti, hún er alltaf inni - innra með manni sjálfum. En þetta er auðvitað eldgömul lumma sem þú skalt helst ekki hafa eftir mér."

Tekst persónum bókarinnar að finna hamingjuna?

"Að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Kannski er hamingjan fólgin í leitinni að hamingjunni. Fólk er alltaf að höndla hana og glata henni aftur, eins og gengur."

Er þetta þá harmleikur eða gleðileikur - hvor tilhneigingin sigrar?

"Bæði og. Ég leyfi mér að vitna í texta Rolling Stones sem hittir svolítið naglann á höfuðið: "You can't always get what you want / but you get what you need".

Annars er þetta gleðileikur að því leyti að sagan endar vel, í það minnsta í tilfelli Haraldar eldra, því hann kemst að niðurstöðu um líf sitt. Hann áttar sig á því að öll hans eymd stafar af því að hann hefur alla tíð verið huglaus. Reglan hér er eins og í lífinu - og kannski er þetta óvart boðskapur bókarinnar - að hugarróin kemur í kjölfar þess að fólk sýnir hugrekki, tekur stjórnina og lætur ekki undan."

Umfjöllun um bókina verður ekki lokið án þess að minnast á ástina því í sögunni eru á kreiki ýmis tilbrigði við hana; matarást, losti, föðurást, móðurást og þannig mætti áfram telja. Er þetta óhjákvæmilegt - er ástin kannski ekki til í sjálfri sér?

"Jú, hún er til - ég get borið vitni um það," segir Guðrún Eva og lyftir hægri hönd hátíðlega. "Hún tekur vissulega á sig margvíslegar myndir en annars berum við sjálf ábyrgð á því að skíra hana alls kyns nöfnum í því augnamiði að skilja hana og heiminn í kringum okkur."

-------------

- Veistu ekki hvað þetta heitir? spurði konan.

Haraldur horfði á hendurnar á sér.

- Haraldur, sagði Margrét.

- Þetta er allt í lagi, sagði konan.

- Haraldur, sagði Margrét aftur.

- Þetta er allt í lagi, sagði konan aftur.

Haraldur var fluttur upp um bekk. Hann kominn í hlutverk hins afbrigðilega áður en hann svo mikið sem sat sína fyrstu kennslustund.

- Þessi er líklegur til stórafreka, sagði skólastjórinn og var kannski ekki eingöngu að miða við frammistöðu hans á prófinu því Haraldur var óneitanlega gáfulegur með ennið eins og mótað af djúpri alvöru og með voldugt og íbjúgt nef sem hann gæti sem best hafa stolið af munaðarlausum prins frá Arabalandi. Og hvað sem Margrét reyndi að halda að honum innmat og grænmeti var hann alltaf fölur á vangann eins og sagt er að fólk verði af óhóflegum bóklestri.