[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRAMLÖG til rannsóknar- og þróunarstarfsemi hækkar um 33,6% milli áranna 1997 og 2001. Þetta kemur fram í Púlsinum.

Framfarir

Í leiðara Púlsins, fréttablaðs Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins segir m.a.: Þróunin undanfarinn áratug hefur sýnt okkur mikilvægi nýsköpunar þar sem nýjar greinar vaxa upp og skila efnahagslegum framförum þegar stöðnun ríkir á öðrum sviðum. Í þessu sambandi er okkur hollt að minnast þess sem fram kemur í skýrslu World Economic Forum um samkeppnisstöðu Íslands, að nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarmál eru sá þáttur þar sem við stöndum einna verst í samanburði við aðrar þjóðir.

Nýsköpun hefur því aldrei verið jafn mikilvæg fyrir samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að stuðla að stofnun sprotafyrirtækja og skapa aðstæður til að þau nái að festa rætur. Frumkvöðlasetur og tæknigarðar hafa víða reynst vel sem skapandi umhverfi fyrir slíka starfsemi. Á Iðntæknistofnun hefur verið unnið að mikilli endurskipulagningu starfseminnar í því skyni að greiða fyrir nýsköpun og styðja þróunarstarf í atvinnurekstri. Á stofnuninni hefur verið starfrækt frumkvöðlasetur undanfarið eitt og hálft ár og hefur árangurinn farið framúr vonum. Á sama tíma og frumkvöðlasetrið varð til var sett upp sérstakt þjónustusvið, Impra, sem veitir stuðningsþjónustu, sérstaklega til að efla nýsköpun og stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) til að þau auki framleiðni sína. Á vegum fyrirtækja sem hafa verið í setrinu á þessu tímabili og þeirra sem eru þar enn, eru starfsmenn nú 70 talsins og velta um 200 milljónum króna. Nú liggur fyrir að Iðntæknistofnun mun standa fyrir frumkvöðla- og tæknigarði í Efna- og líftæknihúsinu á Keldnaholti frá og með næstu áramótum. Þar verður frumkvöðlum og starfandi fyrirtækjum á sviði efna- og líftækni boðin mjög góð aðstaða til að vinna að þróun viðskiptahugmynda. Sérhæfð aðstaða á tæknigarði er nýjung hér á landi.

Mikilvægur þáttur í þessari starfsemi er þjónusta Impru, sem veitir fyrirtækjum og einstaklingum stuðning, og samstarf við Nýsköpunarsjóð m.a. um fjárhagsstuðning.

Nýlega var lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2001. Ef skoðuð eru framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi (R&Þ) kemur frm að frumvarpið gerir ráð fyrir 7,6 milljörðum króna í þennan málaflokk. Aukning framlaga ríkisins frá ríkisreikningi 1997 til fjárlagafrumvarps 2001 nemur 35,6%. Rúmlega helmingur þessa fjármagns er á vegum menntamálaráðuneytisins. Svo virðist sem þróunin við að styrkja undirstöðurnar innan skólakerfisins sé jákvæð. Það sem veldur áhyggjum er þáttur iðnaðarráðuneytisins. Framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi sem heyrir undir ráðuneytið hafa ekki fylgt verðlagi undanfarin ár og eru ekki í neinu samræmi við framlög til hinna atvinnuvegaráðuneytanna ef litið er til umfangs atvinnugreinanna.