Koichi Kato umkringdur  fréttamönnum.
Koichi Kato umkringdur fréttamönnum.
FORSÆTISRÁÐHERRA Japans, Yoshiro Mori, sætir sífellt meiri gagnrýni.
FORSÆTISRÁÐHERRA Japans, Yoshiro Mori, sætir sífellt meiri gagnrýni. Helsti andstæðingur hans innan flokks Mori, Frjálslynda lýðræðisflokknum, Koichi Kato, hefur hótað að greiða atkvæði með vantrauststillögu sem stjórnarandsstaðan íhugar nú að leggja fyrir þingið innan tíðar.

Mori lætur hins vegar gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta og sagði í ræðu á japanska þinginu í gær að hann hefði ekki í hyggju að segja af sér. Hann sagði að þar sem hann fengist nú við ýmis mikilvæg málefni, eins og t.d.aukafjárlög, væri honum skylt að sinna þeirri vinnu.

Stuðningur við Mori hefur minnkað jafnt og þétt síðan hann tók við völdum í apríl. Síendurtekin afglöp hasn í starfi hafa valdið hneykslan almennings og áhyggjum þeirra arma flokksins sem eru uggandi um gang flokksins í næstu kosningum.

Mori nýtur hins vegar stuðnings hátt settra meðlima flokksins. Þeir óttast að áskorun Katos muni jafnvel verða til þess að flokkurinn missi völdin en Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur verið við völd í Japan nánast sleitulaust frá síðari heimsstyrjöld.

Fjármálaráðherra Japana, Kiichi Miyazawa, varaði í gær við afleiðingum þess ef meðlimir stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með vantrauststillögunni. Hann sagði að slík atkvæðagreiðsla gæti "varpað skugga á efnahagslífið og það ætti ekki að gerast".

Vantrauststillaga þarf stuðning innan stjórnarflokka til að ná fram að ganga því stjórnarflokkarnir tveir eru með meirihluta í báðum deildum japanska þingsins.

Tokyo. AP.